Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Í byrjun síðasta árs var sá er hér skrifar ágætlega bjartsýnn, eins og líklega flestir. Við Íslendingar höfðum komist sæmilega klakklaust í gegnum árið 2019 þótt á köflum ekki blési byrlega. Fátt benti til annars en að vöxtur efnahagslífsins gæti orðið þokkalegur á nýju ári og góður á því næsta.
„Til að svo verði þurfa stjórnvöld að halda rétt á spilunum,“ voru hins vegar varnaðarorð enda gamall fjandi – atvinnuleysi – farinn að láta á sér kræla. Þá voru stýrivextir Seðlabankans í sögulegu lágmarki (og hafa lækkað hressilega síðan) en lækkunin hafði ekki náð að seytla um allan fjármálamarkaðinn. Heimilin, lítil og meðalstór fyrirtæki nutu því í litlu vaxtalækkunar. Fjármálamarkaðurinn var og er enn óhagkvæmur, arðsemi lítil, skattheimta of mikil og séríslenskar reglur gera fjármálakerfið illa samkeppnishæft. Eignarhald ríkisins á stórum hluta fjármálakerfisins eykur vandann. Ég hafði áhyggjur af fleiri þáttum efnahagslífsins.
Atvinnuvegafjárfesting hafði dregist saman árið 2019, annað árið í röð. Fjárfesting hins opinbera varð einnig minni en á móti kom verulegur vöxtur í íbúðafjárfestingu en vísbendingar voru um að farið væri að hægja á byggingargeiranum.
Viðvörunarljósin blikkuðu á fyrstu vikum liðins árs líkt á áminning um að stjórnvöld yrðu að halda vel á spilunum. En það var ekkert sem benti til að meiri háttar efnahagsleg áföll væru fram undan þótt vissulega hefði samkeppnishæfni atvinnulífsins orðið lakari og vöxtur útgjalda hins opinbera síðustu árin gerði verkefnið erfiðara.
Tvö einföld mál
Í þessari fyrstu grein síðasta árs benti ég á tvö frumvörp sem mér væri umhugað um að koma í gegnum Alþingi, en ég var fyrsti flutningsmaður þeirra. Hvort um sig ynni gegn efnahagslegum samdrætti með því að örva fjárfestingu og styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga.
Fyrra málið var frumvarp um að virðisaukaskattur af vinnu við byggingu eða viðhald íbúðarhúsnæðis yrði endurgreiddur að fullu. Rökin voru einföld: Byggingakostnaður íbúða lækki um allt að 3% auk þess sem stuðlað verði að heilbrigðari vinnumarkaði og bættum skattskilum (tryggingagjald, tekjuskattur o.s.frv.). Allir hagnist, ekki síst ríkissjóður til lengri tíma litið.
Síðara frumvarpið var innleiðing skattaafsláttar vegna hlutabréfakaupa. Markmiðið var og er að efla hlutabréfamarkaðinn og þar með auka aðgengi fyrirtækja að nauðsynlegu áhættufé. Um leið skjóta stoðum undir eignamyndun launafólks. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en var lagt fram að nýju síðasta haust.
En svo skall kórónuveirufaraldurinn á með þeim alvarlegu efnahagslegu og félagslegu afleiðingum sem óþarfi er að fjalla um að þessu sinni. Hófleg bjartsýni í upphafi árs fauk þar með út í veður og vind.
Tekið af skarið
Varnarbarátta síðasta árs kom ekki í veg fyrir að fjármálaráðherra tæki af skarið í virðisaukaskattsmálinu. Full endurgreiðsla varð hluti af viðamiklum aðgerðum ríkisins til að milda efahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins. Endurgreiðslan náði ekki aðeins til íbúða, heldur einnig frístundahúsa og bílaviðgerða, auk þess sem almannaheillasamtök gátu notið endurgreiðslunnar sem og sveitarfélög. Þetta var tímabundin aðgerð en skömmu fyrir jól samþykkti Alþingi að framlengja hana út þetta ár. Ég lít á það sem hlutverk Sjálfstæðisflokksins að tryggja að full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað verði til frambúðar enda hagsmunamál fyrir launafólk.
Fjármálaráðherra hefur einnig boðað breytingar á lögum um tekjuskatt þar sem innleiddir verði skattalegir hvatar fyrir launafólk – því gert auðveldara að taka þátt með beinum hætti í atvinnulífinu með kaupum á skráðum hlutabréfum. Ég líkt og aðrir Sjálfstæðismenn el þann draum í brjósti að allir Íslendingar verði eignafólk og búi við fjárhagslegt sjálfstæði. Þátttaka almennings í hlutabréfamarkaði er og á að vera órjúfanlegur hluti af stefnu Sjálfstæðisflokksins – samofin séreignastefnunni.
Þannig ná góð mál hægt og bítandi fram að ganga, þrátt fyrir og kannski vegna erfiðra efnahagslegra aðstæðna. Verkefnin á nýju ári eru mörg en mestu skiptir að við komumst út úr kófinu sem fyrst. Aðgengi að bóluefni og bólusetning þjóðarinnar er stærsta og mikilvægasta verkefni stjórnvalda í upphafi kosningaárs. Efnahagsleg velferð er í húfi og þar með geta okkar til að standa undir góðum lífskjörum og öflugu velferðarsamfélagi til framtíðar. Við höfum ekki endalaust úthald til verja fyrirtæki, heimili og velferðarkerfið með þeim hætti sem gert hefur verið síðustu mánuði.
Regla þumalputtans
Til einföldunar getum við stuðst við þumalputtareglu. Hver dagur þar sem barist er við kórónuveiruna og efnahagslífið er lamað með þeim hætti sem raun er, kostar ríkissjóð um einn milljarð króna – hver vika sjö milljarða. Það má því halda því fram að janúar kosti sameiginlegan sjóð okkar 30 milljarða, annars vegar í auknum útgjöldum og hins vegar lægri tekjum. Að óbreyttu bætast 28 milljarðar við í febrúar. Og þannig koll af kolli uns hjólin komast aftur af stað. Þá er ekki talinn með kostnaður sveitarfélaga, fyrirtækja eða heimila, eða sá efnahagslegi fórnarkostnaður sem er samfara faraldrinum. Lakari lífsgæði og félagslegur kostnaður verða aldrei metin til fjár.
Auðvitað er þumalputtareglan ekki nákvæmur mælikvarði, ekki fremur en aðrar slíkar mælistikur. En hún gefur þokkalega sýn á hvaða hagsmunir eru í húfi – hversu mikilvægt það er að ná tökum á faraldrinum þannig að daglegt líf komist aftur í eðlilegt horf. Og þar skiptir bólusetning líklega mestu. Þegar horft er á hagsmunina sem eru í húfi, þann gríðarlega kostnað sem hver dagur hefur í för með sér, er það því hreint aukaatriði hvað skammtur af bóluefni kostar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vakti athygli á því í samtali við Morgunblaðið fyrir tveimur dögum að til greina kæmi að íslensk stjórnvöld veiti bráðaleyfi fyrir notkun nýrra bóluefna. Það ráðist þó af því að hægt sé að gera það hraðar en Lyfjastofnun Evrópu, en Bretland, Bandaríkin og fleiri lönd hafa haft hraðari hendur í þeim efnum. Undir þetta hefur Kári Stefánsson tekið. Það er fráleitt annað en að eiga náið og gott samstarf við fleiri vinaþjóðir en á meginlandi Evrópu þegar kemur að því að gefa út bráðaleyfi fyrir bóluefni. Kostnaðurinn við að tryggja að Lyfjastofnun hafi bolmagn til að eiga samstarfið og nýta það, er skiptimynt í samanburði við þá hagsmuni sem eru undir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. janúar 2020.