Útganga Bretlands og íslenskir hagsmunir

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Aðlög­un­ar­tíma­bilið vegna út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu er senn á enda því um ára­mót­in hætt­ir EES-samn­ing­ur­inn að gilda um Bret­land. Frá því að niðurstaða þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar í Bretlandi sum­arið 2016 varð ljós höf­um við átt í mikl­um, nán­um og um­fram allt góðum sam­skipt­um við bresk stjórn­völd um sam­band ríkj­anna á nýj­um tím­um. Árang­ur­inn af því tal­ar sínu máli.

Ný­und­ir­ritaður bráðabirgðafr­íversl­un­ar­samn­ing­ur öðlast gildi um ára­mót­in og trygg­ir hann óbreytt toll­kjör vegna vöru­viðskipta við Bret­land. Það er afar mik­il­vægt að kjarna­hags­mun­ir ís­lenskra fyr­ir­tækja í viðskipt­um við Bret­land hafa verið tryggðir með þess­um samn­ingi enda er Bret­land einn mik­il­væg­asti út­flutn­ings­markaður ís­lenskra fyr­ir­tækja.

Jafn­framt hafa flug­sam­göng­ur á milli Íslands og Bret­lands verið tryggðar með und­ir­rit­un loft­ferðasamn­ings nú skömmu fyr­ir jól. Samn­ing­ur­inn veit­ir sömu tví­hliða flugrétt­indi og lönd­in hafa í dag. Flug­geir­inn skipt­ir ís­lenskt efna­hags­líf höfuðmáli og þar gegna flug­sam­göng­ur við Bret­land lyk­il­hlut­verki.

Samn­ing­ar sem við höf­um þegar gert við Bret­land tryggja að Íslend­ing­ar sem eru bú­sett­ir þar fyr­ir lok árs 2020 halda rétt­ind­um til dval­ar og bú­setu og áfram verður hægt að heim­sækja Bret­land án vega­bréfs­árit­un­ar.

Íslensk stjórn­völd hafa lagt áherslu á að styrkja enn frek­ar og byggja upp sam­bandið við Bret­land eft­ir út­göngu. Mark­mið okk­ar hef­ur verið að klára víðtæk­an fríversl­un­ar­samn­ing í sam­vinnu við Nor­eg og Liechten­stein og standa viðræður um hann nú yfir og mun ljúka fljót­lega á kom­andi ári.

Á aðfanga­dag bár­ust svo þau ánægju­legu tíðindi að Bret­ar og ESB hefðu samið um sitt framtíðarsam­band. Þær lykt­ir eiga eft­ir að gagn­ast okk­ur á marg­an hátt og verða um leið gott vega­nesti í enda­sprett­in­um framund­an. Fyr­ir­komu­lag þjón­ustu­viðskipta ESB og Bret­lands verður end­ur­speglað í fríversl­un­ar­samn­ingi okk­ar, góð niðurstaða í loft­ferðamál­um kem­ur ís­lensk­um flugrek­end­um líka vel og rann­sókn­ar­sam­starf Breta við ESB held­ur áfram, sem skipt­ir okk­ur Íslend­inga máli.

Við í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu höf­um í sam­vinnu við viðkom­andi ráðuneyti og stofn­an­ir unnið að því hörðum hönd­um að koma í veg fyr­ir að hnökr­ar komi upp í viðskipt­um okk­ar um ára­mót­in og að upp­lýsa fyr­ir­tæki og al­menn­ing um hvað mun breyt­ast og hvað ekki. Að ýmsu er að hyggja í því sam­bandi. Sem dæmi má nefna að þeir sem flytja til Bret­lands frá og með ára­mót­um þurfa að sækja um dval­ar­leyfi og upp­fylla ákveðin skil­yrði sam­kvæmt nýju inn­flytj­enda­kerfi Bret­lands. Samn­ingaviðræður standa yfir um sér­stök tveggja ára dval­ar­leyfi fyr­ir ung­menni sem vilja flytj­ast á milli Íslands og Bret­lands og lýk­ur þeim von­andi fljót­lega á nýju ári.

Ég hvet þá sem stunda viðskipti eða hafa tengsl við Bret­land til að kynna sér upp­lýs­ing­ar á sér­stöku Brex­it-vefsvæði á Stjórn­ar­ráðsvefn­um ( www.stjornarra­did.is/​verk­efni/​ut­anrik­is­mal/​brex­it ). Þar eru einnig tengl­ar inn á aðrar gagn­leg­ar síður t.d. hjá MAST og Skatt­in­um. Eins má alltaf hafa sam­band við okk­ur í síma eða með tölvu­pósti. Svarað er all­an sól­ar­hring­inn í neyðarsíma ráðuneyt­is­ins 545 0112 og sér­stak­ur viðbragðshóp­ur verður á vakt vegna áríðandi fyr­ir­spurna sem tengj­ast út­göng­unni. Þetta er í sam­ræmi við áherslu okk­ar á auk­inn stuðning við at­vinnu­lífið eins og ný­stofnuð viðskipta­vakt er til marks um.

Ára­mót­in sem eru á næsta leiti marka tíma­mót að svo mörgu leyti. Þótt að ýmsu sé að hyggja varðandi út­göngu Breta úr ESB hafa lyk­il­hags­mun­ir Íslands verið tryggðir. Ég er sann­færður um að spenn­andi tím­ar séu fram und­an í sam­bandi okk­ar við þessa góðu granna okk­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2020.