„Það sem ég veit nægir mér“

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Jól­um mín­um uni ég enn,og þótt stolið hafi

hæst­um Guði heimsk­ir menn,

hef ég til þess rök­in tvenn,

að á sæl­um sanni er eng­inn vafi.

(Jón­as Hall­gríms­son)

Ég er af þeirri kyn­slóð sem naut þeirr­ar gæfu að al­ast upp og mót­ast þegar herra Sig­ur­björn Ein­ars­son sat á stóli bisk­ups. Djúp­stæð trú­arsann­fær­ing ein­kenndi allt hans mikla starf. Án hroka eða yf­ir­læt­is. Í huga Sig­ur­bjarn­ar er krist­in trú „ekk­ert að miklast af“ held­ur vilj­inn að „lofa Guði að lýsa á glugg­ann, inn í hjartað“.

Það hef­ur verið gæfa fá­mennr­ar þjóðar að eign­ast nokkra kenni­menn trú­ar­inn­ar – öfga­lausa, lít­il­láta og kær­leiks­ríka. Á eng­an er hallað þegar því er haldið fram að fremst­ur meðal jafn­ingja standi herra Sig­ur­björn Ein­ars­son.

Á þeim 22 árum sem Sig­ur­björn þjónaði sem bisk­up yfir Íslandi mótaði hann ekki aðeins starf Þjóðkirkj­unn­ar held­ur trú­ar­líf okk­ar Íslend­inga í ára­tugi eft­ir að hann lét af embætti árið 1981. Og það skal játað að á jól­um sakna ég þess sér­stak­lega að geta ekki notið guðsþjón­ustu hans líkt og ég ólst upp við. Sakna visku hans og hlýju.

Til­durs­haug­ar sam­tím­ans

Í viðtali við Frétta­blaðið á aðfanga­dag 2007 minnti Sig­ur­björn okk­ur á að ham­ingj­an sé „ekk­ert til­finn­ingasvall“ held­ur ein­kenn­ist hún af „innra jafn­vægi og hug­ar­ró“. „Ham­ingju­samt fólk er þannig í sæmi­legri sátt við sjálft sig, en þó ekki án sjálfs­gagn­rýni. Skorti hana verður ein­stak­ling­ur­inn hroka­full­ur sjálf­birg­ing­ur, skop­skyni skropp­inn.“

Skömmu fyr­ir and­lát sitt flutti Sig­ur­björn sína síðustu pre­dik­un í Reyk­holti sum­arið 2008. Hann var þá liðlega 97 ára. Þá brýndi hann okk­ur öll að miklast ekki eða ganga of­læt­inu á hönd.

„Það kem­ur fyr­ir, að menn­irn­ir blind­ast og kross­festa sína eig­in gæfu, hjálp og bless­un. Verst fer þeim æv­in­lega, þegar þeir blind­ast af ímynduðum glansi af sjálf­um sér – ég er ekki viss nema ein­hverj­ir sperrt­ir han­ar á til­durs­haug­um sam­tím­ans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættu­laust að selj­ast und­ir fram­andi íhlut­an­ir og yf­ir­ráð. Há­kon kon­ung­ur reynd­ist Íslandi óheilla­vald­ur. En verri en Há­kon eru þau mátt­ar­völd sum, sem menn eru svo aum­lega flat­ir fyr­ir nú á dög­um. Ég nefni aðeins það sjúka yf­ir­læti, sem þyk­ist upp úr því vaxið að gera ráð fyr­ir neinu æðra sjálfu sér í al­heimi, og þann gráðuga Mammon, sem virðir ekk­ert, enga helgi­dóma, eng­ar hug­sjón­ir, eng­in gildi.“

Laðar það besta fram

Í huga Sig­ur­bjarn­ar laðar boðskap­ur jóla­hátíðar­inn­ar fram það „besta sem við geym­um í okk­ur; gjaf­mildi, ástúð og kær­leika“. Hann efaðist aldrei um boðskap­inn eða þýðingu jól­anna fyr­ir mann­inn. Í aðdrag­anda aðventu 2003 var Sig­ur­björn spurður í viðtali við Bjarma – tíma­rit Sam­bands ís­lenskra kristni­boðsfé­laga – hvort hann hafi, á efri árum, hugsað um hvað taki við, hugsað um him­in­inn. „Já, þetta er eðli­leg spurn­ing,“ svaraði Sig­ur­björn og bætti við:

„Nú nálg­ast aðventa og við höld­um aðventu ná­kvæm­lega af því að við höf­um fengið svar við þessu. Aðventa bend­ir og seg­ir: Þetta er framtíðin, Jesús Krist­ur er að koma. Ekki bara sem lítið barn á jól­um, hann er að koma á móti ver­öld­inni sinni sem frels­ari henn­ar og Drott­inn allr­ar framtíðar. Hann og ríki hans er framtíðin. Þar með er því svarað hvernig him­inn­inn er. Him­inn­inn og ei­lífa lífið er þar sem Jesús Krist­ur er allt í öllu, ásamt Guði föður og heil­ög­um anda, að ei­lífu.

Að öðru leyti veit ég álíka lítið um him­in­inn eins og ég vissi lítið um jörðina þegar ég var í móður­lífi og ég er full­kom­lega sátt­ur við það. Það sem ég veit næg­ir mér.“

Hið jarðneska og him­neska

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans er trú­in tor­tryggð. Við sem trú­um á tvennt í heimi; Guð í al­heims­geimi og Guð í okk­ur sjálf­um, hrekj­umst oft und­an, feim­in og jafn­vel hrædd að gang­ast við að eiga sam­neyti við trú kær­leik­ans – eig­um erfitt með að viður­kenna fyr­ir öðrum hversu Guð í al­heims­geimi er okk­ur mik­il­væg­ur og hve Guð í okk­ur sjálf­um hef­ur reynst okk­ur traust­ur leiðar­vís­ir í líf­inu.

Hátíð ljóss­ins er friðar­stund sem vek­ur von­ir þar sem mæt­ast hið jarðneska og hið him­neska, kær­leik­ur og minn­ing­ar. Við fögn­um komu frels­ar­ans, þökk­um fyr­ir það sem var og það sem er og verður, hug­um að ást­vin­um okk­ar og reyn­um að létta und­ir með þeim sem höll­um fæti standa.

Á jól­un­um erum við minnt á að við erum öll börn Guðs. Og um leið get­um við tekið und­ir með herra Sig­ur­birni Ein­ars­syni í sálmi:

Sú von er sterk, hún verður eigi slökkt,að vorið komi þó að geisi hríð.

Eins sigr­ar Drott­inn alla ógn og stríð.

Senn er und­ar­legt ár að baki. Það hef­ur reynst okk­ur flest­um erfitt. Við höf­um mátt sætta okk­ur við að vera slit­in frá vin­um og fjöl­skyldu, höf­um ekki náð að rækta sam­bandið við þá sem okk­ur eru kær­ast­ir. Þúsund­ir hafa misst at­vinnu og glíma við erfiða fjár­hags­stöðu, veik­indi og fé­lags­lega ein­angr­un. Að rétta þeim hjálp­ar­hönd sem þurfa er skylda sem krist­in trú legg­ur á herðar okk­ar.

Í trúnni finn­um við æðru­leysi og öðlumst umb­urðarlyndi gagn­vart ólík­um skoðunum, lífs­stíl, trú og bak­grunni. Við þykj­umst ekki vera á hærri stalli en aðrir eða yfir þá haf­in. En hver og einn vitj­ar jól­anna með sín­um hætti, einnig þeir sem ekki eru sam­ferða Drottni.

Ég óska les­end­um og lands­mönn­um öll­um gleðilegra jóla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2020.