Flug til og frá Bretlandi tryggt eftir Brexit

„Fluggeirinn skiptir íslenskt efnahagslíf höfuðmáli og í því sambandi gegna flugsamgöngur við Bretland lykilhlutverki, bæði hvað varðar vöruflutninga og ferðalög fólks. Undirritunin í dag markar því tímamót því þar með helst loftbrúin á milli ríkjanna áfram opin og greið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem í dag undirritaði fyrir Íslands hönd loftferðasamning milli Íslands og Bretlands. Flugsamgöngur hafa því verið tryggðar á milli ríkjanna eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 

Þessi loftferðasamningur veitir sömu tvíhliða flugréttindi og bæði löndin hafa í dag með aðild þeirra að Sameiginlega evrópska flugsvæðinu (e. European Common Aviation Area).

Fríverslunarviðræður Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES, Noregs og Liechtenstein, við Bretland standa nú yfir. Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hafa viðræður gengið vel og eru langt komnar. Í síðustu viku undirrituðu bresk og íslensk stjórnvöld bráðabirgðafríverslunarsamning sem tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland. 

Þar sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) mun ekki gilda lengur um Bretland frá og með 1. janúar 2021 þurfa Íslendingar að huga að nokkrum atriðum í því sambandi, sérstaklega þeir sem búa á Bretlandi eða hyggjast flytja þangað á næstunni og þeir sem stunda viðskipti við Bretland eða eiga þar annara hagsmuna að gæta. Utanríkisráðuneytið hefur tekið saman gátlista af því tilefni.

Fréttina í heild sinni má finna hér á vef utanríkisráðuneytisins.