Breytingar á aðalskipulagi

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Nú er verið að gera mjög stórar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur og jafnframt er verið að framlengja það til ársins 2040. Það er undarlegt að koma fram með jafn stórar breytingar á þessum tíma þegar kórónuveiran hefur sett samfélagið úr skorðum, réttast væri að fresta þessum breytingum þar til hægt væri að kynna þær með opnum íbúafundum í öllum hverfum borgarinnar og fá þannig besta íbúasamráðið. Þeir sem taka ákvarðanir er varða okkur Reykvíkinga verða að upplýsa vel og taka ákvarðanir í samráði við íbúa. Þar sem við sjáum fram á það að bóluefni fer að koma vegna kórónuveirunnar og skipulagið sem verið er að samþykkja gildir til ársins 2040 þá hljótum við að geta frestað því um nokkra mánuði að samþykkja þessar breytingar og kynnt þær með mun betri hætti en nú hefur verið gert, því stórar breytingar að aðalskipulagi verður að taka í samráði og sátt við alla íbúa Reykjavíkur.

Veitukerfi í vanda?

Þegar verið er að þétta byggð þá verður að huga að fjölda þátta. Það sem kannski flestum okkar er ekkert ofarlega í huga er uppbygging veitukerfa. Fráveita, heitt og kalt vatn eru hlutir sem ekkert okkar gætur verið án en við alla uppbyggingu verður stöðugt að huga að þessum þáttum. Gríðarlega fjármunir þarf í uppbyggingu veitukerfa og ekki er endalaust hægt að bæta nýjum byggingum við kerfið án þess að huga að því að stækka það. Eru veitukerfin okkar eru kominn að þolmörkum? Er hægt að þétta frekar byggð án þess að huga að uppbyggingu veitukerfanna? Verður að ráðast í endurbætur á núverandi kerfi? Í vetur hafa fjölmargir lent í því að það kólnaði í húsum þeirra, þrátt fyrir að álag á kerfinu var ekki eins mikið líkt og það hefði verið í venjulegu árferði þegar sundlaugar eru opnar og fjöldi ferðamanna og hótel í fullum rekstri. Því þarf að huga að uppbygging á veitukerfum samhliða  frekari þéttingu byggðar það má ekki gleymast.

Það hefur verið einstaklega gleðilegt að fá að kynnast svona mörgum ykkar, ég þakka fyrir gott samstarf á árinu og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og hlakka til áframhaldandi samstarfs með ykkur öllum.

Greinin birtist í Breiðholtsblaðinu í desember 2020.