Skuldir lækkuðu um 75 þúsund á mann í Kópavogi en jukust um 294 þúsund á hvern borgarbúa

Á árunum 2014 til 2020 hafa skuldir Reykjavíkurborgar í A-hluta aukist um 65% á hvern íbúa en í Kópavogi um 3% á íbúa, og skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar, þ.e. A- og B-hluta, vaxið um 12% á íbúa sama tímabili, en lækkað um 6% á hvern íbúa í Kópavogi á sama tíma. Með öðrum orðum – skuldir Reykjavíkurborgar á hvern borgarbúa hafa vaxið tvöfalt meira en skuldir Kópavogsbæjar á hvern bæjarbúa hafa lækkað. Í krónum talið hafa skuldir á hvern borgarbúa vaxið um 294 þúsund krónur á árunum 2014 til 2020 en lækkað um 75 þúsund krónur á hvern íbúa Kópavogsbæjar.

Skuldaukning á hvern borgarbúa 6,7 föld á við Kópavog 2014-2024.

Skuldir samstæðu Reykjavíkur-borgar vaxa 6,7 sinnum meira á hvern borgarbúa miðað við skuldaaukningu samstæðu Kópavogsbæjar á hvern íbúa bæjarins á árunum 2014 til 2024. Útreikningarnir byggja á fjárhag beggja sveitarfélaga árin 2014 til 2019 og áætlunum 2020 til 2024 en Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs, hvatti oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til þess að líta sér nær í gagnrýni sinni á skuldasöfnun borgarinnar, og vísaði þá til nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er alls staðar í meirihluta. Ef aðeins er miðað við A-hluta sveitarfélaganna aukast skuldir Reykjavíkurborgar 3,7 falt á hvern íbúa m.v. sömu útreikninga í Kópavogi, en A-hlutinn, sveitarsjóður, er aðalsjóður sveitarfélags og er fjármagnaður að hluta eða öllu leyti fyrir skatttekjur.

Kópavogur og Reykjavík verða fyrir miklum fjárhagslegum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins eins og önnur sveitarfélög á landinu, eins og kemur skýrt fram í fjárhagsáætlunum næstu ára. Sveitarfélögin verða bæði fyrir miklu tekjufalli miðað við áætlanir og útgjaldaaukningu vegna efnahagsáfallsins af völdum veirufaraldursins. Áætlanir Kópavogsbæjar gera ráð fyrir að skuldir samstæðunnar eigi eftir að vaxa um 18,65% á hvern íbúa frá 2020 til 2024 en hjá Reykjavíkurborg er gert ráð fyrir að vöxtur skulda samstæðunnar á hvern íbúa verði 26,2%.

Fréttin er úr nýjasta tölublaði Voga sem gefið er út af Fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi – sjá blaðið í heild hér.