Misstórir reikningar smábarna

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Vinstri stjórnin í Reykjavíkurborg hefur lofað öllum börnum plássi í leikskóla frá 18 mánaða aldri. Sú er ekki alltaf raunin og mörg börn komast mun síðar að. Loforðið er því innantómt. Foreldrar sem búa í barnmörgum hverfum eða í hverfum með vinsælum leikskólum, þurfa að bíða lengur. Þá skiptir máli hvenær ársins börn eru fædd. Mesta hreyfingin á leikskólaplássum er á haustin þegar elstu börnin hefja nám í grunnskóla.

Það þarf að tryggja jafnræði þeirra sem styðjast við dagforeldra og þeirra sem fá pláss í leikskóla. Foreldrar barna hjá dagforeldrum bera töluvert meiri kostnað. Leikskólapláss kostar foreldra um 25 þúsund krónur á mánuði en pláss hjá dagforeldri kostar frá 70 þúsund krónum á mánuði.

Það má taka raunverulegt dæmi um barn sem fékk ekki pláss í leikskóla fyrr en 27 mánaða. Foreldrar þessa barns greiddu, að teknu tilliti til sumarfrís, átta mánuðum lengur til dagforeldris en foreldrar barna sem eru fædd á heppilegri tíma á árinu, búa í réttu hverfi eða hafa tækifæri til að vista barn sitt utan hverfis. Þessa átta mánuði greiddu þau rúmum 360 þúsund krónum meira en foreldrar leikskólabarns. Hér ríkir ekkert jafnræði.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til á fundi borgarstjórnar í dag að hækka niðurgreiðslur til dagforeldra vegna barna 18 mánaða og eldri svo kostnaður foreldra verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Á meðan borgin getur ekki staðið við loforð sín um leikskólapláss ætti sú tillaga að njóta stuðnings borgarfulltrúa.

Greinin birtist á visir.is 15. desember 2020.