Mikilvægt að sem flestir kynni sér breytingar á nýju aðalskipulagi

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Þegar árið er að renna sitt skeið er ágætt að staldra við og fara yfir það sem liðið er. Í mínu starfi sem borgarfulltrúi hefur líkt og fyrri ár sem liðin eru af kjörtímabilinu verið af nægu að taka. Grafarvogur er perla ekki aðeins náttúruperla, heldur er það samfélag sem við íbúarnir höfum skapað okkur hér einstakt. Hér er því frábært að búa en líkt og í öðrum hverfum Reykjavíkur þá má gera margt betur.

Í Grafarvogi hafa skóla- og skipulagsmál verið fyrirferðarmikil í mínu starfi síðasta árið. Eins og flestir vita var hér lokað grunnskóla í Staðahverfi, en það er í fyrsta sinn sem grunnskóla er lokað án þess að annað skólaúrræði komi til staðar í heilu hverfi í Reykjavík, það var gert til þess að spara. Því miður hefur skuldastaða Reykjavíkur versnað stöðugt í tíð þessa meirihluta og þeirra eina lausn er að senda út neyðarkall til ríkisins til að koma sér til bjargar, jú og loka skóla hér í Grafarvogi. Þegar kreppir að er það mikilvægasta sem hægt er að gera að verja lögbundna grunnþjónustu, því miður var það ekki svo í þessu tilfelli. Lokun skólans fylgdu ýmis loforð, líkt og að bæta ætti aðgengi að skólunum sem börn þurfa nú að sækja út fyrir sín hverfi og bættar strætó samgöngur, því miður hafa þessi loforð ekki verið efnd.

Víða þarf að bæta öryggi í umferðinni hér í Grafarvogi, ég hef lagt fram margar tillögur að úrbótum, en það gengur hægt að fá þær samþykktar. Ég mun halda áfram að berjast fyrir úrbótum á umferðaröryggi í hverfinu á komandi ári.

Núna er verið að gera mjög stórar breytingar á aðalskipulagi og jafnframt er verið að framlengja það til ársins 2040. Þetta felur í sér breytingar fyrir íbúa Grafarvogs og því er mikilvægt að sem flestir kynni sér þær. Ég hefði viljað sjá í þessu nýja skipulagi á óbyggðum skipulögðum lóðum verði uppbygging sem hentar nærumhverfi þeirra sem best. Líkt og að  byggja íbúðir fyrir fólk sem er 60 ára og eldra. Mikil vöntum er á íbúðum fyrir 60 plús í Grafarvogi. Ef byggt væri þannig húsnæði myndum við auka valkosti fyrir þá sem vilja búa áfram í hverfunum sínum í Grafarvogi.

Sundabraut hefur verið lengi í umræðunni það er mikilvægt að kynntar séu fyrir okkur íbúum Grafarvogs þær leiðir sem eru í boði og útfærslu á þeim, við vitum að búið er að þrengja gríðarlega að legu Sundabrautar og því verða þeir valkostir sem er verið að skoða að vera vel kynntir fyrir íbúum Grafarvogs og við fáum að taka virkan þátt og vera með í því ferli sem framundan er. Mun ég því óska eftir upplýsingafundi á komandi ári fyrir íbúa Grafarvogs með fulltrúum frá ríkinu og Reykjavíkurborg til þess að upplýsa okkur um stöðuna á framkvæmd Sundabrautar.

Það hefur verið einstaklega gleðilegt að fá að kynnast svona mörgum ykkar, ég þakka fyrir gott samstarf á árinu og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og hlakka til áframhaldandi samstarfs með ykkur öllum.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu í desember 2020.