Á að loka framtíðina inni?

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður:

Nátt­úru­vernd er samof­in þjóðarsál­inni. Hún á sér upp­sprettu og tals­menn í öllu lit­rófi stjórn­mál­anna. Sama má segja um lofts­lags­mál­in. Stærsta fram­lag okk­ar til þeirra er orku­fram­leiðsla með end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um. At­vinnu­veg­ir kom­andi kyn­slóða munu byggja á þeim mögu­leik­um sem fel­ast í nýt­ingu ork­unn­ar í land­inu; til að skapa hér fjöl­breytt störf í nýj­um grein­um. Vetn­is­fram­leiðsla og há­tækni­geiri framtíðar­inn­ar mun krefjast hreinu ork­unn­ar okk­ar. Íslend­ing­ar mega því ekki loka á aðgang að auðlind­um framtíðar­inn­ar með ótíma­bærri lög­gjöf.

Ætlum við að upp­fylla Par­ís­ar­sam­komu­lagið?

Frum­varp um há­lend­isþjóðgarð nær yfir um 30% af flat­ar­máli lands­ins. Þess­ir 33.000 fer­kíló­metr­ar þjóðgarðs að viðbætt­um jaðarsvæðum munu hafa áhrif á virkj­un­ar­kosti en stærsti hluti raf­orku­fram­leiðslu lands­ins (tæp­lega 70%) er upp­runn­inn inn­an marka fyr­ir­hugaðs þjóðgarðs og þar ligg­ur einnig stór hluti ónýttra end­ur­nýj­an­legra orku­auðlinda lands­ins.

Stærð virkj­un­ar­kosta inn­an marka þjóðgarðsins nem­ur sam­tals 2.200 MW eða 79% af upp­settu raf­orku­afli á Íslandi. Hluta þeirr­ar orku, eða um 300 MW, þarf að nýta til að Íslend­ing­ar upp­fylli Par­ís­ar­sam­komu­lagið um lofts­lags­mál sem Íslend­ing­ar eru aðilar að.

• 300 MW þarf til að skipta út jarðefna­eldsneyti fyr­ir hrein­an inn­lend­an orku­gjafa í sam­göng­um til að upp­fylla Par­ís­ar­sam­komu­lagið

• 600 MW þarf til að skipta út jarðefna­eldsneyti fyr­ir bíla­flot­ann fyr­ir 2030

• 1.200 MW þarf fyr­ir full orku­skipti bíla, skipa og flug­véla inn­an­lands fyr­ir 2030

Hvaða áhrif mun stofn­un þjóðgarðs hafa?

Hug­mynd­in er að fyr­ir­hugaður há­lend­isþjóðgarður verði flokkaður í vernd­ar­flokk­un sam­kvæmt IUCN-vernd­ar­flokk­un­ar­kerf­inu. Það kerfi úti­lok­ar hefðbundna orku­fram­leiðslu og teng­ingu nýrra virkj­ana með loftlín­um. Einnig mun það úti­loka styrk­ingu og end­ur­nýj­un á flutn­ings­kerfi raf­orku til framtíðar, inn­an há­lend­isþjóðgarðsins og áhrifa­svæða hans. Þess­ar áætlan­ir munu loka á tæki­færi framtíðar­inn­ar.

Sveit­ar­stjórn­ir og bænd­ur hafa hingað til séð um að vernda og græða miðhá­lendið. Í stjórn há­lend­isþjóðgarðs, sem ráðherra skip­ar, munu sitja 11 full­trú­ar. Í frum­varp­inu er gert ráð fyr­ir að ráðherra skipi níu full­trúa í um­dæm­is­ráð sem fara með mál­efni rekstr­ar­svæða há­lend­isþjóðgarðsins. Rekstr­ar­svæðin verða 6 tals­ins. Þetta verða því 54 full­trú­ar, auk 11 manna stjórn­ar. Það er fátt eðli­legt við það að 14 full­trú­ar um­hverf­is- og úti­vist­ar­sam­taka á höfuðborg­ar­svæðinu beri þessa ábyrgð enda ekki til þess kjörn­ir af fólk­inu á svæðunum í bein­um lýðræðis­leg­um kosn­ing­um. Það er kannski tím­anna tákn að umboðslaust fólk af mal­bik­inu setji bænd­um og íbú­um dreif­býl­is­ins regl­ur um þeirra nán­asta um­hverfi. Fólkið sem hef­ur byggt af­komu sína á gæðum há­lend­is­ins og skapað þar tæki­færi til at­vinnu­lífs í ferðaþjón­ustu á betra skilið.

Í frum­varp­inu hef­ur verið fellt brott ákvæði um að sveit­ar­stjórn­ir verði bundn­ar af stjórn­un­ar- og verndaráætl­un þjóðgarðsins sem er meg­in­stjórn­tæki þjóðgarðsins. Í stjórn­un­ar- og verndaráætl­un verður hins veg­ar að finna al­menn skil­yrði um at­vinnu­starf­semi inn­an þjóðgarðsins sem mun hafa áhrif á gerð at­vinnu­stefnu og leyf­is­veit­ing­ar fyr­ir at­vinnu­tengda starf­semi. Þannig þurfa all­ar ákv­arðanir og at­hafn­ir inn­an þjóðgarðs að sam­ræm­ast stjórn­un­ar- og verndaráætl­un. Ráðherra hef­ur farið mik­inn í að tala um að virkj­ana­kost­ir verði á skil­greind­um jaðarsvæðum og ekki hluti hins friðlýsta svæðis. Stjórn­un­ar- og verndaráætl­un há­lend­isþjóðgarðsins mun hins veg­ar einnig ná til jaðarsvæða þjóðgarðsins þar sem gera má ráð fyr­ir ork­u­nýt­ingu. Sök­um ná­lægðar við þjóðgarðinn eru í frum­varp­inu og í stjórn­un­ar- og verndaráætl­un þjóðgarðsins sett­ir til­tekn­ir skil­mál­ar um um­gengni á þess­um jaðarsvæðum.

Alþjóðlegt mont?

Það virðist vera mark­miðið með frum­varp­inu að koma á fót stærsta þjóðgarði í Evr­ópu og slá þar með ryki í augu Rússa, sem eru nú með einn stærsta þjóðgarðinn sem þekur nærri 11% af öllu land­inu. Ég velti því hins veg­ar fyr­ir mér hverju þjóðgarður­inn muni raun­veru­lega skila fyr­ir þjóðarbúið, sér í lagi þar sem at­vinnu­tæki­fær­in inn­an marka hans verða tak­mörkuð. Þjóðgarðar eru að mínu mati mik­il­væg­ir fyr­ir vernd­un nátt­úr­unn­ar, þó ekki sé nauðsyn­legt að taka 30% lands­ins und­ir slíka starf­semi. Á það hef­ur verið bent að skyn­sam­legra hefði verið að sam­eina þau landsvæði á miðhá­lend­inu sem þegar hafa verið skil­greind sem sér­stök vernd­ar- og friðlýst svæði und­ir einn hatt há­lend­isþjóðgarðs.

Þjóðgarðarn­ir á Íslandi eru nú þrír. Í byrj­un nóv­em­ber kynnti um­hverf­is­ráðherra áform um stofn­un fjórða þjóðgarðsins á sunn­an­verðum Vest­fjörðum. Þá eru friðlýst svæði og svæði sem njóta sér­stakr­ar vernd­ar í kring­um 120 á land­inu öllu (sjá töflu) og þeim fjölg­ar ört. Hugs­un­ar­gang­ur og stjórn­kerfi í frum­varpi um há­lend­isþjóðgarð sem nú hef­ur verið lagt fram á Alþingi geng­ur ekki upp. Það er hlut­verk okk­ar að tryggja aðgengi framtíðarkyn­slóða að sjálf­bær­um end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um, jafnt til heim­il­isþarfa og grænn­ar at­vinnu­upp­bygg­ing­ar.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2020.