Fleiri lóðir – ódýrara húsnæði

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni sveit­ar­stjórna felst í því að skapa íbú­um sín­um skil­yrði fyr­ir upp­bygg­ingu á at­vinnu- og íbúðar­hús­næði. Þetta er gert með raun­hæfu skipu­lagi, al­menn­um lóðaút­hlut­un­um og þeim op­in­beru fram­kvæmd­um sveit­ar­fé­laga sem slík upp­bygg­ing krefst. Sveit­ar­stjórn­ir sem van­rækja þessa skyldu koma í veg fyr­ir eðli­lega framþróun síns sveit­ar­fé­lags og halda í raun fyr­ir kverk­ar þess. Þetta hafa ætíð þótt aug­ljós og al­menn sann­indi.

Glóru­laus þétt­ing­ar­stefna

Það er hins veg­ar ekki að sjá að borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn sé á sömu skoðun. Í heil­an ára­tug hafa lóðaút­hlut­an­ir verið einn sam­felld­ur hrak­falla­bálk­ur í höfuðborg­inni. Með aðal­skipu­lag­inu sem samþykkt var 2013 var ákveðið að nær öll upp­bygg­ing færi fram á dýr­um þétt­ing­ar­reit­um, miðsvæðis í borg­inni. Ekki var gert ráð fyr­ir nýj­um út­hverf­um sem reynd­ar voru kölluð mein­semd í skipu­lag­inu. Þétt­ing­ar­reit­irn­ir hafa yf­ir­leitt verið í eigu banka, sjóða eða millj­arðamær­inga sem seldu reit­ina á hæsta markaðsverði. Það er marg­falt verð miðað við þær lóðir sem fyrri borg­ar­stjórn­ir út­hlutuðu al­menn­ingi og verk­tök­um úr landi borg­ar­inn­ar.

Þessi stjórn­viska hef­ur haft í för með sér eft­ir­far­andi af­leiðing­ar:

1. Upp­bygg­ing íbúðar­hús­næðis í Reykja­vík lagðist nán­ast af fram til 2018.

2. Í Reykja­vík marg­faldaðist lóðaverð sem hlut­fall af íbúðaverði og víða tí­faldaðist það, úr 4% í 40%.

3. Borg­ar­stjórn hannaði og fór fyr­ir verðsprengju á íbúðum og á leigu­markaði frá 2014. Þar með var ungu fólki gert ókleift að kaupa eða leigja íbúðar­hús­næði í Reykja­vík.

4. Þessi þétt­ing­ar­stefna sner­ist því upp í and­hverfu sína: meiri dreif­ingu byggðar hjá ungu fólki, úr Reykja­vík og í ná­granna­sveit­ar­fé­lög, en dæmi eru um í sögu Reykja­vík­ur, allt frá Akra­nesi til Sel­foss og Suður­nesja.

5. Þessi dreif­ing byggðar marg­faldaði svo vega­lengd­ir fólks milli heim­il­is og vinnu, lengdi þar með ferðatíma og jók um­ferðarþunga og um­ferðarmeng­un.

Kosn­inga­bækling­ur í boði borg­ar­búa

Svona trakt­er­ing­ar hafa það nátt­úr­lega í för með sér að borg­ar­stjóri þarf ár­lega að láta semja, hanna, prenta og dreifa fyr­ir sig kosn­inga­bæklingi um „fast­eignaþróun í Reykja­vík“. Sá nýj­asti ber yf­ir­skrift­ina Upp­bygg­ing íbúða í borg­inni og Græna planið kom út í októ­ber sl. í 63.500 ein­tök­um og kostaði þrett­án millj­ón­ir. En hver borg­ar svo brús­ann? Jú, borg­ar­bú­ar.

Ósann­indi borg­ar­stjóra

Sam­kvæmt hús­næðisáætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar hefði þurft á síðustu árum og þarf á næstu árum að byggja eitt þúsund nýj­ar íbúðir í borg­inni ár­lega. Borg­ar­stjóri hef­ur oft látið hafa það eft­ir sér að eitt þúsund íbúðir hafi verið byggðar í Reykja­vík á síðustu fimm árum. Þetta eru ósann­indi. Hið rétta er að 533 íbúðir hafa verið byggðar að meðaltali í Reykja­vík á sl. sex árum sam­kvæmt töl­um borg­ar­inn­ar sjálfr­ar. Þúsund íbúða markið hef­ur aðeins einu sinni náðst á sl. sex árum. Þá eru núna mun færri íbúðir í bygg­ingu í Reykja­vík en þörf er á sam­kvæmt gögn­um borg­ar­inn­ar. Ein­göngu 443 íbúðir eru skráðar á fok­held­is­stigi að mati bygg­ing­ar­full­trúa. Nú­ver­andi gat í áætl­un borg­ar­inn­ar hljóðar því að minnsta kosti upp á 4.000 íbúðir.

Og enn neit­ar borg­ar­stjóri ungu fólki um hús­næði í borg­inni, en að mati Sam­taka iðnaðar­ins eru ný­byggðar íbúðir í Reykja­vík of dýr­ar til að upp­fylla skil­yrði hlut­deild­ar­lána rík­is­ins.

Lóðir fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki

Ekki tek­ur svo betra við þegar hugað er að lóðum fyr­ir at­vinnu­hús­næði. Á und­an­förn­um árum hafa stofn­an­ir og reyk­vísk fyr­ir­tæki af ýms­um toga ekki séð sér annað fært en að flytja starf­semi sína úr höfuðborg­inni. Af ný­leg­um dæm­um þar um má nefna Sýslu­mann­inn á höfuðborg­ar­svæðinu, Trygg­inga­stofn­un og aðal­stöðvar Íslands­banka sem fóru í Kópa­vog og Haf­rann­sókna­stofn­un sem flutti í Hafn­ar­fjörð. Stefna meiri­hlut­ans um þétt­ingu byggðar hef­ur þrengt að rót­grón­um at­vinnusvæðum og ýtt und­ir brott­flutn­ing. Kost­ir á upp­bygg­ingu inn­an Reykja­vík­ur hafa verið tak­markaðir og fáar at­vinnu­lóðir eru þar í boði. Ég mun því leggja fram til­lögu í borg­ar­stjórn nk. þriðju­dag við síðari umræðu fjár­hags­áætl­un­ar um út­hlut­un at­vinnu­lóða fyr­ir fjöl­breytta at­vinnu­starf­semi. Auk þess mun ég leggja fram til­lögu í borg­ar­stjórn um að fjölgað verði lóðum til út­hlut­un­ar í Úlfarsár­dal, upp­bygg­ingu í Keldna­landi verði flýtt og lögð drög að íbúðahverfi m.a. í Geld­inga­nesi. Slík­ar lóðir yrðu á hag­stæðu verði, und­ir fjöl­breytt­ar gerðir íbúðar­hús­næðis. Þannig gæf­ist ungu fólki aft­ur tæki­færi til að koma þaki yfir höfuðið í Reykja­vík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. desember 2020.