Takk fyrir okkur

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Það hef­ur ekki alltaf verið auðvelt að búa á Íslandi.

Landið okk­ar er af­skekkt, veðrasamt og strjál­býlt, en hér eru lífs­kjör þó með þeim bestu á byggðu bóli. Með fram­sýni og dugnað að vopni hef­ur tek­ist að skapa hér sam­fé­lag sem fáa hefði órað fyr­ir á fyrri hluta síðustu ald­ar. Þetta þekkj­um við öll.

Einn lið í hag­sæld­ar­sögu okk­ar er hins veg­ar vert að rifja reglu­lega upp. Dugnað og fram­taks­semi þeirra þúsunda Íslend­inga sem gefa krafta sína í þágu sam­fé­lags­ins um allt land. Björg­un­ar­sveit­ir, íþrótt­astarf, æsku­lýðssam­tök, for­varn­ar­starf­semi og líkn­ar­fé­lög.

Þetta og tals­vert fleira til má í einu orði skil­greina sem al­manna­heill­a­starf­semi. Það er ekki síst slíkri starf­semi og því fram­taks­sama fólki sem að baki henni býr að þakka hve langt sam­fé­lagið okk­ar hef­ur náð á öll­um sviðum.

Hingað til hef­ur þó ekki komið nógu skýrt fram hve mikið við kunn­um að meta þetta verðmæta fram­lag. Þannig búa al­manna­heilla­fé­lög við íþyngj­andi skatta og gjöld og hvat­ar fyr­ir ein­stak­linga til að styðja við fé­lög­in eru litl­ir. Þessu hef ég lengi viljað breyta til hins betra.

Í því skyni mælti ég fyr­ir frum­varpi á dög­un­um þar sem skatt­kerfið okk­ar er fært nær því sem þekk­ist ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Til­lög­urn­ar snú­ast bæði um að lækka skatt­byrði al­manna­heilla­fé­laga og að auðvelda ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um að leggja sitt af mörk­um.

Með breyt­ing­un­um verður fólki heim­ilt að draga allt að 350 þúsund krón­ur á ári frá skatt­skyld­um tekj­um sín­um vegna fram­laga til al­manna­heill­a­starf­semi. Fram­lög­in verða sjálf­krafa skráð á skatt­fram­talið í sam­ræmi við upp­lýs­ing­ar frá mót­tak­anda styrks­ins. Sam­hliða tvö­fald­ast frá­drátt­ar­heim­ild at­vinnu­rek­enda vegna slíkra fram­laga, úr 0,75% af árs­tekj­um í 1,5%.

Þegar sú tala hækkaði úr hálfu pró­senti í 0,75% vegna árs­ins 2015 juk­ust gjaf­ir og fram­lög um rúm­an þriðjung milli ára, eða um einn millj­arð króna. Ég vænti þess að nú þegar tal­an tvö­fald­ast geti aukn­ing­in orðið um­tals­vert meiri.

Auk þess er lögð til 1,5% frá­drátt­ar­heim­ild vegna fram­laga til grænna verk­efna og ýms­ar und­anþágur fyr­ir al­manna­heill­a­starf­semi frá greiðslu fjár­magn­s­tekju-, erfðafjár- og virðis­auka­skatts, stimp­il­gjalds og fleira.

Að baki breyt­ing­un­um búa skýr mark­mið. Létt­ari róður fyr­ir al­manna­heilla­fé­lög og hvatn­ing fyr­ir ein­stak­linga og fyr­ir­tæki til að leggja sitt af mörk­um. Þannig stækk­ar tekju­stofn fé­lag­anna á sama tíma og fólk fær aukið frelsi til að styrkja starf­semi að eig­in vali, án milli­göngu rík­is­ins.

Skatt­kerfið á að bera það með sér að verk í þágu sam­fé­lags­ins alls séu mik­ils met­in. Með þessu send­ir sam­fé­lagið þeim þúsund­um ein­stak­linga sem gefa krafta sína til góðra verka skýr skila­boð. Skila­boðin eru ein­fald­lega: takk fyr­ir okk­ur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.