„Við getum eingöngu tekið með myndarlegum hætti á þeirri efnahagslegu stöðu sem upp kom vegna heimsfaraldursins því við höfum búið í haginn og greitt upp skuldir á umliðnum árum,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra við upphaf atkvæðagreiðslu við 2. umræðu um fjárlög ríkisins 2021 á Alþingi í dag.
Hann sagði fjárlögin mörkuð af heimsfaraldri og halla sem áður hefur ekki sést.
„Hér leggjum við grunn að því að fjárlög hins opinbera verði sjálfbær að nýju,“ sagði Bjarni.
„Viðspyrnan skiptir svo miklu máli og hún er undirbúin í þessum fjárlögum,“ sagði Haraldur Benediktsson 1. varaformaður fjárlaganefndar við upphaf atkvæðagreiðslna eftir 2. umræðu sem munu standa yfir fram eftir degi.