Óli Björn

Heilbrigðiskerfi í samkeppni um starfsfólk

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hvort sem okk­ur lík­ar það bet­ur eða verr stönd­um við frammi fyr­ir því að þurfa að auka út­gjöld til heil­brigðismála á kom­andi árum og ára­tug­um. En ólíkt því sem marg­ir telja get­ur það aldrei orðið og má aldrei verða sjálf­stætt mark­mið að auka út­gjöld­in – að sí­fellt stærri hluti þjóðar­kök­unn­ar renni til heil­brigðismála. Keppikeflið er öfl­ug heil­brigðisþjón­usta og auk­in lífs­gæði borg­ar­anna.

Sem þjóð stönd­um við Íslend­ing­ar frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um í heil­brigðismál­um á kom­andi árum og ára­tug­um:

• Við erum að eld­ast sem þjóð og það kall­ar á aukna fjár­muni í heil­brigðisþjón­ustu. Auk­in út­gjöld duga hins veg­ar skammt ef betri nýt­ing fjár­muna, vinnu­afls, tækja og fast­eigna verður ekki tryggð.

• Stöðugt fleiri standa utan vinnu­markaðar­ins. Þeim sem eru á vinnu­markaði og standa und­ir kostnaði við sam­eig­in­leg verk­efni fækk­ar því hlut­falls­lega.

• Fjár­mögn­un heil­brigðisþjón­ust­unn­ar er úr­elt og þarfn­ast upp­stokk­un­ar. Hverfa verður frá föst­um fjár­veit­ing­um til helstu stofn­ana og taka upp samn­inga á grund­velli unn­inna verka.

• Við stönd­um frammi fyr­ir harðri alþjóðlegri sam­keppni um vel menntað og hæft starfs­fólk – lækna, hjúkr­un­ar­fræðinga, sjúkraþjálf­ara, líf­fræðinga, lyfja­fræðinga, sál­fræðinga o.s.frv. Ef við verðum und­ir í þeirri sam­keppni hef­ur það ófyr­ir­sjá­an­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Kostnaður­inn verður greidd­ur með lak­ari lífs­gæðum al­menn­ings.

• Tækni­fram­far­ir og ný þekk­ing eru að gjör­bylta hug­mynd­um um skipu­lag heil­brigðisþjón­ustu. Engu er hins veg­ar lík­ara en að tek­in hafi verið ákvörðun um að sigla ís­lensku heil­brigðis­kerfi gegn straumn­um og auka stofn­ana­væðingu og bein­an rík­is­rekst­ur.

Ekki frítt spil

Í gegn­um árin hef ég hamrað á því að stjórn­völd og ekki síst Alþingi standi vörð um sam­keppn­is­hæfni lands­ins. Vinni að því að styrkja stöðu fyr­ir­tækja og launa­fólks í harðri alþjóðlegri sam­keppni. Ein­falt, gegn­sætt og sann­gjarnt reglu­verk, hóf­semd í skött­um og gjöld­um, bæt­ir ekki aðeins sam­keppn­is­stöðuna held­ur ýtir und­ir fjöl­breyti­leika at­vinnu­lífs­ins og fjölg­ar mögu­leik­um launa­fólks.

Íslenskt heil­brigðis­kerfi er ekki með frítt spil þegar kem­ur að alþjóðlegri sam­keppni og þá ekki síst um vel menntað og hæfi­leika­ríkt starfs­fólk. Ef það er eitt­hvað sem ein­kenn­ir starfs­stétt­ir inn­an heil­brigðisþjón­ust­unn­ar er það alþjóðleg­ur vinnu­markaður. Lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræðing­ar, ljós­mæður og aðrir heil­brigðis­starfs­menn eru eft­ir­sótt í flest­um ef ekki öll­um lönd­um heims. Til ein­föld­un­ar má segja að ís­lenskt heil­brigðis­fólk sé ekki bundið við „heima­markað“. Heim­ur­inn all­ur er þeirra vett­vang­ur.

Þessi staðreynd týn­ist í argaþrasi um heil­brigðismál þegar tek­ist er á um hversu mikið eigi að auka út­gjöld rík­is­ins vegna heil­brigðismála. Sam­keppn­is­hæfni heil­brigðis­kerf­is­ins er lögð til hliðar þegar bar­ist er fyr­ir því að út­gjöld til heil­brigðismála skuli vera að lág­marki 11% af lands­fram­leiðslu. Slík bar­átta er auðvitað merk­ing­ar­laus og frem­ur til skrauts í viðleitni til að afla sér og sín­um vin­sælda. Merk­ing­ar­laus þó ekki væri nema vegna þess að veru­leg­ur efna­hags­sam­drátt­ur get­ur tryggt að hlut­fallið verði 11% á sama tíma og út­gjöld til heil­brigðismála lækkuðu í raun.

Fá­breytni og verri þjón­usta

Ég hef áður haldið því fram að karpið hafi leitt til þess að ís­lensk heil­brigðisþjón­usta sé í póli­tískri sjálf­heldu frá­breyti­leika og verri þjón­ustu – sé fangi kröf­unn­ar um sí­fellt auk­in út­gjöld, án skýrra mæli­kv­arða um gæði eða kröf­unn­ar um að fjár­mun­um sé varið af skyn­semi.

Það hef­ur verið gæfa okk­ar Íslend­inga að eiga fjöl­breytt­an hóp heil­brigðis­starfs­manna sem sótt hef­ur sér­fræðimennt­un, reynslu og þekk­ingu til annarra landa, en snúið aft­ur heim til starfa. En það er langt í frá sjálf­gefið að ungt fólk sem legg­ur slíkt á sig ákveði að koma aft­ur og veita okk­ur þá þjón­ustu sem við þurf­um á að halda. Hér ráða launa­kjör ekki öllu, held­ur starfsaðstaðan sem er í boði en einnig val­frelsi um starfs­vett­vang. Það er ekki sér­lega heill­andi til­hugs­un eft­ir margra ára nám og starfs­mennt­un að eiga þann eina kost að koma til starfa inn­an veggja rík­is­rekstr­ar.

Lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræðing­ar og aðrir hæfi­leika­rík­ir heil­brigðis­starfs­menn vilja eiga sömu mögu­leika og all­ir aðrir til að stofna eigið fyr­ir­tæki – verða sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur. En andstaðan við einkafram­takið er djúp­stæð meðal stjórn­mála­manna stjórn­lynd­is. Svo djúp­stæð að það virðist skipta meira máli að leggja steina í götu einkaaðila en að tryggja bestu heil­brigðisþjón­ust­una og sjá til þess að fjár­mun­um sé vel varið. Og um leið fækk­ar tæki­fær­um heil­brigðis­starfs­manna.

Á síðustu árum hef ég skrifað tölu­vert um heil­brigðismál. Mik­il­vægi hins sam­eig­in­lega trygg­inga­kerf­is hef­ur verið rauði þráður­inn í þeim skrif­um. Trygg­inga­kerfi sem bygg­ist á þeirri grunn­hugs­un að við sam­eig­in­lega fjár­mögn­um öfl­ugt heil­brigðis­kerfi svo tryggt sé að all­ir fái nauðsyn­lega þjón­ustu og aðstoð án til­lits til efna­hags eða bú­setu.

Samþætt­ing og sam­vinna op­in­bers rekstr­ar og einka­rekstr­ar í heil­brigðisþjón­ustu – á grunni sam­eig­in­legs trygg­inga­kerf­is – trygg­ir ekki aðeins betri þjón­ustu við lands­menn, held­ur styrk­ir stöðu okk­ar í harðri alþjóðlegri sam­keppni um hæfi­leika. Rík­is­rekstr­ar­hyggj­an, þar sem einkafram­tak­inu er rutt skipu­lega úr vegi, er hins veg­ar á góðri leið með að grafa und­an öfl­ugri þjón­ustu og mynd­ar far­veg fyr­ir tvö­falt heil­brigðis­kerfi, þar sem hinir efna­meiri geta keypt betri og skjót­ari þjón­ustu en við hin.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. desember 2020.