Sundabraut í einkaframkvæmd

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Sundabraut á að fara í einkaframkvæmd. Þetta er inntak skýrslubeiðni sem ég lagði nýlega fram ásamt fjórum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar felum við samgönguráðherra að bjóða út hönnun, fjármögnun, framkvæmd og rekstur Sundabrautar til einkaaðila. Sundabrautin er einn dýrasti einstaki raunhæfi framkvæmdamöguleiki sem er til skoðunar í íslensku vegakerfi og því ljóst að ef hana á að fjármagna með sama hætti og nýframkvæmdir hafa verið fjármagnaðar á undanförnum árum þurfi að stórauka framlög til nýframkvæmda umfram það sem við höfum þegar gert, eða að draga þurfi úr nýframkvæmdum annars staðar á móti. Hvorug þessara leiða er raunhæf eða æskileg.

Alla mína ævi hefur verið rifist um Sundabraut. Hugmyndin kemur fyrst fram í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 1975 og hefur síðan verið skipaður fjöldinn allur af nefndum og skýrslufjöldinn eftir því. Á sama tíma verður umferðin um Ártúnsbrekku þyngri, og er álagið þar orðið óásættanlegt á álagstímum.

Sundabraut bætir tengingu Grafarvogshverfis við gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, styttir vegalengd milli Kjalarness og miðborgar og bætir umferðaraðgengi frá Vestur- og Norðurlandi að borginni. Þá léttir Sundabraut á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ og stuðlar að greiðari og öruggari umferð fólks og vöruflutningum allt frá flugvellinum í Keflavík, um Reykjanesbraut, höfuðborgarsvæðið og Sundabraut áfram til Vestur- og Norðurlands.

Nú er kominn tími á aðgerðir og sú leið sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjum til í málinu er til þess fallin að koma hreyfingu á hlutina. Eðlilega horfi ég til lífeyrissjóða landsins um fjármögnun framkvæmdarinnar, en leiða má að því líkur að aðrir fjárfestar sýndu verkefninu áhuga.

Með nýjum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er tryggð uppbygging mikilvægra samgöngumannvirkja. Það er mikilvægt mál, en við þurfum meira til og þess vegna er skynsamlegt að bjóða út Sundabraut.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. desember 2020.