Óli Björn

Gegn valdboði og miðstýringu

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Rétt­ur­inn til að ráða sínu eig­in lífi en um leið virða rétt annarra til hins sama er horn­steinn í hug­mynda­fræði sem ég hef alla tíð aðhyllst og bar­ist fyr­ir. Frjáls­hyggja? Örugg­lega. Hægri­stefna? Án nokk­urs efa. Íhalds­semi? Lík­lega. En í ein­fald­leika sín­um er þetta hug­mynda­fræði Sjálf­stæðis­flokks­ins. Í setn­ing­ar­ræðu lands­fund­ar fyr­ir rúm­um tveim­ur árum orðaði Bjarni Bene­dikts­son formaður flokks­ins þetta með ein­föld­um hætti: „Við höf­um byggt allt okk­ar starf á trúnni á frelsi ein­stak­ling­ins.“

For­ystu­menn og áhrifa­mikl­ir hug­sjóna­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa á rúm­um 90 árum meitlað grunn­hug­sjón­ina um mann­helgi og að and­legt og efna­hags­legt frelsi sé frumrétt­ur hvers og eins. For­senda þess að ein­stak­ling­ar geti notið hæfi­leika sinna er að þeir hafi frelsi til at­hafna. Mark­miðið er að tryggja „frelsi fyr­ir alla, ekki frelsi fyr­ir fáa, stóra og sterka, sem nota afl sitt og auð til að troða mis­kunn­ar­laust á öðrum“, eins og Davíð Odds­son sagði í ræðu í til­efni af 75 ára af­mæli flokks­ins.

Á grunni þess­ar­ar hug­mynda­fræði hef ég mótað af­stöðu til ein­stakra mála, reynt að standa við lof­orð Sjálf­stæðis­flokks­ins um að gefa ein­stak­ling­um svig­rúm til að móta sína framtíð, hvetja og styðja við fram­taks­semi fólks út um allt land. Færa valdið til fólks­ins en hrifsa það ekki frá því. Tryggja vald­dreif­ingu og koma í veg fyr­ir miðstýr­ingu.

Gegn sjálfs­stjórn og frelsi

Þess vegna get ég aldrei stutt að völd­in séu tek­in af íbú­um sveit­ar­fé­laga og þeir svipt­ir for­ræði yfir eig­in mál­um. Að skipa sveit­ar­fé­lagi með lög­um til að sam­ein­ast öðru geng­ur gegn hug­mynd­um um sjálfræði íbúa og sjálf­stæði sveit­ar­fé­laga. Sú lögþving­un sem boðuð er í stjórn­ar­frum­varpi sem lagt var fram á mánu­dag bygg­ir á hug­mynda­fræði vald­boðs og geng­ur gegn hug­mynda­fræði sjálfs­stjórn­ar og frels­is sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur byggt á. Hér ættu menn að minn­ast orða Bjarna Bene­dikts­son­ar eldri, um að þjóðfé­lagi verði „ekki stjórnað með of­læti eða orðaskaki“.

Um það verður ekki deilt hér að sam­ein­ing og fækk­un sveit­ar­fé­laga get­ur verið ákjós­an­leg og skyn­sam­leg fyr­ir íbú­ana. Mark­miðið er hins veg­ar ekki að fækka sveit­ar­fé­lög­um held­ur að styrkja og efla þjón­ustu við borg­ar­ana. Og sveit­ar­fé­lög­um hef­ur fækkað hressi­lega. Árið 1990 voru þau 204 tals­ins en eru nú 69. Víða eru viðræður um sam­ein­ingu. Þær viðræður eru á for­send­um íbú­anna sjálfra og þeir ein­ir taka ákvörðun. Emb­ætt­is­menn í Reykja­vík stjórna ekki ferðinni.

Hug­mynda­fræði vald­boðsins sem ligg­ur að baki lögþvingaðri sam­ein­ingu er ekki aðeins ógeðfelld held­ur bygg­ist hún á mis­skiln­ingi og/​eða vís­vit­andi blekk­ing­um. Hag­kvæmni sveit­ar­fé­laga og gæði þjón­ustu við íbú­anna er ekki í réttu hlut­falli við íbúa­fjölda. Fjár­hags­leg staða ræðst miklu frem­ur af hæfi­leik­um sveit­ar­stjórn­ar­manna og hvernig þeim tekst að upp­fylla skyld­ur sín­ar en fjölda íbúa. Og það skal end­ur­tekið sem ég skrifaði á síður þessa blaðs í ág­úst á liðnu ári:

„Eng­inn hag­fræðing­ur, viðskipta­fræðing­ur eða fjár­mála­verk­fræðing ur er þess um­kom­inn að skera úr um hver sé hag­kvæm­asta stærð sveit­ar­fé­laga. Eng­inn sveit­ar­stjórn­ar­maður, þingmaður eða ráðherra hef­ur for­send­ur til að ákveða hver skuli vera lág­marks­fjöldi íbúa í hverju sveit­ar­fé­lagi svo íbú­arn­ir fái notið þeirr­ar þjón­ustu sem þeir gera kröfu til og eiga rétt á sam­kvæmt lög­um.“

Rök­semd­in um stærðar­hag­kvæmni sveit­ar­fé­laga fýk­ur út í veður og vind um leið og farið er yfir fjár­hags­stöðu og rekst­ur stærsta sveit­ar­fé­lags lands­ins.

Í þess­um efn­um eins og í flest­um öðrum er far­sæl­ast að halda vald­inu í heima­byggð. Lofa íbú­um að taka ákv­arðanir um hvernig þeir telja best að halda á mál­um.

Valdið sogið úr heima­byggð

Ég hef haldið því fram að nátt­úru­vernd geti verið ágæt­lega arðbær auk þess sem við ber­um siðferðilega skyldu til að skila land­inu til næstu kyn­slóðar í ekki verra ástandi en við tók­um við því. Við Íslend­ing­ar eig­um flest und­ir nátt­úr­unni og sjálf­bærri nýt­ingu henn­ar. Nátt­úru­vernd og nýt­ing auðlinda fara vel sam­an þegar vel tekst til eins og fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið sann­ar. Ferðaþjón­usta á allt sitt und­ir nátt­úru­vernd.

Í flestu er hug­mynd­in um miðhá­lend­isþjóðgarð heill­andi. For­send­an er að skipu­lags­vald sveit­ar­fé­laga sé virt og umráða- og nýt­inga­rétt­ur íbú­anna, sem í gegn­um ald­irn­ar hafa verið gæslu­menn nátt­úr­unn­ar, hald­ist. Einkafram­takið og eign­ar­rétt­ur­inn hafa verið mik­il­væg vörn fyr­ir nátt­úr­una.

Ég mun því styðja hug­mynd­ina um miðhá­lend­isþjóðgarð sé hún byggð á skyn­sam­legri nýt­ingu auðlinda há­lend­is­ins, frjálsri för al­menn­ings, virðingu fyr­ir eign­ar­rétt­in­um, frum­kvöðlarétti og sjálfs­stjórn sveit­ar­fé­laga í skipu­lags­mál­um.

Með öðrum orðum: Hug­mynda­fræði stjórn­lynd­is og miðstýr­ing­ar má ekki ráða för þegar og ef miðhá­lend­isþjóðgarði verður komið á fót í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Löng­un­in til að stýra öllu frá 101-Reykja­vík er sterk. Hætta er sú að valdið sog­ist úr heima­byggð til ör­fárra ein­stak­linga sem neita að skilja hvernig hægt er að lifa í sátt við nátt­úr­una, verja hana og nýta auðlind­ir á sama tíma.

Á kom­andi vik­um verð ég, líkt og aðrir þing­menn, að taka af­stöðu til marg­vís­legra mála. Ég get ekki stuðst við annað en þann leiðar­vísi sem sann­fær­ing og sjálf­stæðis­stefn­an gefa. Oft þarf ég að sveigja eitt­hvað af leið en ákveðin grunn­prinsipp verða ekki brot­in. Ekki þegar kem­ur að þving­un­araðgerðum gagn­vart sveit­ar­fé­lög­um, ekki við stofn­un miðhá­lend­isþjóðgarðs, fjöl­miðlafrum­varpi og ekki við end­ur­skoðun sótt­varna­laga. List­inn er (óþægi­lega) lang­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2020.