Spriklandi frísk börn

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Rannsóknir sýna að skipulagt íþróttastarf hefur jákvæð áhrif á líðan barna og mikið forvarnargildi. Börnum sem eru virk í skipulögðu íþróttastarfi líður betur, vinna betur í hóp og eru ólíklegri til að neyta vímuefna. Niðurstöður úr Ánægjuvoginni 2020 sýna að tæp 90% barna eru ánægð með þjálfarann sinn og íþróttafélagið sitt og finnst gaman á æfingu. Íþróttastarf barna á Íslandi þykir svo vel heppnað að tekið hefur verið eftir.

Börn fengu ekki að stunda skipulagt íþróttastarf í sjö vikur á vorönn og sex vikur á haustönn vegna faraldursins. Æfingabann barna og ungmenna eldri en 15 ára stendur enn yfir og er ófyrirséð hversu lengi það mun standa. Fyrir utan öll jákvæðu áhrifin sem skipulagt íþróttastarf hefur á börn, þá eru heilbrigt líferni og hreyfing talin draga úr áhættuþáttum COVID-19.

Íþróttafélögin hafa mörg staðið sig mjög vel með fjaræfingum og hvatningu til iðkenda. Það kemur þó aldrei í staðinn fyrir samskiptin og handleiðsluna sem fylgir skipulögðu íþróttastarfi. Þegar er farið að bera á brottfalli og það þarf ekki að fjölyrða um hversu slæmar afleiðingar það mun hafa fyrir framtíðina. Sérstaklega fyrir þau börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttum og þau sem eru á viðkvæmasta aldrinum með tilliti til brottfalls.

Faraldurinn er ekki að hverfa úr okkar daglega lífi á næstunni. Það er því mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar upp koma tímabil þar sem takmarka þarf íþróttaiðkun barna. Ástæðan fyrir æfingabanni barna í október var að ekki mætti blanda saman börnum milli skóla. Það þarf að finna leiðir svo skólar og íþróttafélög geti unnið saman til að halda þessu mikilvæga starfi gangandi. Lausnin þarf ekki að vera sú sama fyrir hvert íþróttafélag eða skóla, en það þarf að opna á þetta samtal og samstarf. Íþróttastarf barna er nefnilega eitt mikilvægasta lýðheilsumálið.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. desember 2020.