Farsælt samstarf ólíkra flokka

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Abra­ham Lincoln fór þá frum­legu leið, þegar hann myndaði sína fyrstu rík­is­stjórn árið 1860, að skipa öfl­ug­ustu and­stæðinga sína úr flokki re­públi­kana í mik­il­væg­ustu ráðherra­embætt­in. Þetta reynd­ist heilla­drjúg ákvörðun. Með kænsku sinni og leiðtoga­hæfi­leik­um tókst hon­um að mynda sterka ein­ingu ólíkra ein­stak­linga til að tak­ast á við djúp­stæð átök og sundr­ungu Banda­ríkj­anna sem lauk með af­námi þræla­halds og sigri norður­ríkj­anna í borg­ara­stríðinu.

Dæmið af stjórnkænsku Lincolns sýn­ir að ólík­ir og vilja­sterk­ir ein­stak­ling­ar geta náð mikl­um ár­angri ef þeir taka hönd­um sam­an. Þá ýta þeir ágrein­ings­mál­um sín­um til hliðar en sam­ein­ast um leiðir til að fást við brýn viðfangs­efni. Það sama gild­ir um sam­starf ólíkra flokka.

At­vik­in höguðu því þannig eft­ir síðustu kosn­ing­ar að mynduð var rík­is­stjórn afar ólíkra stjórn­mála­flokka 30. nóv­em­ber 2017. Má segja að höfuðand­stæðing­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um um ára­tuga­skeið hafi slíðrað sverðin í þágu þjóðar­hags­muna. Rík­is­stjórn­in var eins kon­ar „team of ri­vals“ svo vitnað sé til dæmi­sög­unn­ar hér að fram­an. Flók­in úr­lausn­ar­efni biðu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar, ekki aðeins þau sem þá blöstu við held­ur kom það í hlut henn­ar að fást við óvænt­an vá­gest – kór­ónu­veiruna – sem valdið hef­ur gríðarleg­um búsifj­um hér sem ann­ars staðar.

Stjórn­inni var ekki spáð lang­lífi af and­stæðing­um henn­ar og á það bent að eng­in þriggja flokka rík­is­stjórn hef­ur setið út heilt kjör­tíma­bil á Íslandi. Reynsl­an af sam­starf­inu seg­ir þó aðra sögu.

Fyrsta og mik­il­væg­asta verk­efni rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að tryggja stöðug­leika í efna­hags­mál­um og frið á vinnu­markaði með „raun­veru­leg­um kjara­bót­um“ eins og seg­ir í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Það tókst þegar víðtæk­ir samn­ing­ar tók­ust á al­menn­um vinnu­markaði í apríl 2019 eft­ir hat­römm átök.

Ekki er spurn­ing að stöðug­leiki, góð fjár­hags­leg staða rík­is­sjóðs og friður á vinnu­markaði kom sér vel þegar heims­far­ald­ur­inn skall á. Þá var heppi­legt að þess­ir ólíku flokk­ar stóðu sam­an við stjórn­völ­inn og kunnu að starfa sam­an. Með því að brúa bilið frá hægri til vinstri má segja að við völd í land­inu hafi verið eins kon­ar þjóðstjórn. Flokk­arn­ir hafa sam­ein­ast um það meg­in­mál í aðgerðum sín­um gegn far­aldr­in­um að setja líf og heilsu þjóðar­inn­ar í for­gang. Lögð hef­ur verið áhersla á að halda veirunni niðri og styðja efna­hags­lega við fyr­ir­tæki og ein­stak­linga sem aðgerðirn­ar bitna mest á og for­gangsraða í þágu lífs og lýðheilsu.

Að sama skapi hef­ur verið lögð áhersla á öfl­uga viðspyrnu þegar fram í sæk­ir. Það eru þau verðmæti sem mestu varða. Þó svo að flokk­ar haldi í sína hug­mynda­fræði skipt­ir máli að geta starfað með öðrum, þá sér­stak­lega þegar stór viðfangs­efni blasa við.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2020.