Hersir Aron nýr aðstoðarmaður Bjarna

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur ráðið Hersi Aron Ólafsson sem aðstoðarmann sinn. Hersir er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur lokið BA-og meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, auk prófs í verðbréfaviðskiptum.

Undanfarið hefur Hersir starfað sem lögfræðingur og regluvörður Ölmu íbúðafélags hf., en áður starfaði hann hjá LOGOS lögmannsþjónustu, sem fréttamaður og þáttastjórnandi í Íslandi í dag á Stöð 2 og sem blaðamaður hjá Árvakri.

Hersir hefur jafnframt verið virkur í félagsstörfum og meðal annars setið í stjórn bókaútgáfunnar Codex, gegnt starfi varaformanns Orators, félags laganema, og þjálfað ræðulið Verzlunarskóla Íslands.

Sambýliskona Hersis er Rósa Kristinsdóttir, yfirlögfræðingur Akta sjóða hf.