Skuldahali Reykjavíkur

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Haustið 2005 skrifaði Magnús Þór Gylfason grein í Þjóðmál þar sem meðal annars var tæpt á rekstri Reykjavíkurborgar. Á þeim tíma hafði R-listinn setið við stjórnvölinn frá árinu 1994 undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Skuldirnar höfðu vaxið geigvænlega, úr fjórum milljörðum í lok árs 1993 í 65 milljarða í árslok 2005.

Af hverju að rifja þetta upp núna? Árið 2002 gekk Dagur B. Eggertsson til liðs við R-listann. Úr R-listanum varð síðar til Samfylkingin, sem hefur stjórnað borginni samfleytt í 10 ár, síðan 2010. Dagur varð borgarstjóri árið 2014 og gegnir enn því embætti. Skuldasöfnunin heldur áfram. Þannig má segja að R-listinn og skilgetið afkvæmi hans hafi safnað skuldum í Reykjavík linnulítið í rúman aldarfjórðung.

Skuldir víðast að lækka                                                 

Á síðustu árum nýttu landsmenn, fyrirtæki, mörg sveitarfélög og síðast en ekki síst ríkissjóður hagvaxtartímabilið vel og unnu ötullega að lækkun skulda og sparnaði. Lækkun sem gerir til dæmis ríkissjóði kleift að takast á við áhrif heimsfaraldurs sem sett hefur allt þjóðfélagið úr skorðum með samdrætti og vaxandi atvinnuleysi. Skuldir ríkisins hafa lækkað um 588 milljarða, eða 39%, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn árið 2013.

Annað er upp á teningunum hjá Reykjavíkurborg, þar sem skuldum hefur verið safnað á fordæmalitlum góðæristímum. Frá árinu 2010 hafa skuldir A-hluta borgarsjóðs, það er skuldir borgarinnar án dótturfyrirtækja hennar, aukist um 82% á föstu verðlagi þrátt fyrir að skatttekjur hafi aukist um 54%. Heildarskuldir í árslok 2019 voru 112 milljarðar en skatttekjur ársins voru 99 milljarðar. Þannig voru skuldir 13% hærri en tekjur ársins.

Séu lífeyrisskuldbindingar teknar til hliðar hafa skuldirnar aukist um 49% að raunvirði frá 2010 til 2019. Þetta gerist á einu lengsta góðæristímabili í hagsögu Íslands, þar sem hagvöxtur var jákvæður níu ár í röð. Flestir skattar og gjöld eru og hafa verið í leyfðu hámarki.

Skuldir á hvern Reykvíking hafa hækkað úr 545 þúsund krónum árið 2010 í 915 þúsund krónur í lok síðasta árs, á föstu verðlagi, eða úr um 2,2 milljónum króna í tæpar 3,7 milljónir króna á fjögurra manna fjölskyldu, Þetta er tæplega 68% hækkun skulda á hvern íbúa, sem skattar þeirra þurfa að standa undir, en þeir hafa á sama tíma hækkað um 42% á hvern íbúa.

Þá nýtir Reykjavíkurborg sér heimild til að undanskilja Orkuveitu Reykjavíkur, sem er 94% í eigu borgarinnar, við útreikning á skuldahlutfalli. Spyrja má hvort það gefi rétta mynd af skuldastöðu borgarinnar.

Fram undan eru erfiðir tímar hjá borgarsjóði vegna tekjufalls sem vart er hægt að mæta með öðru en hagræðingu. Sú hagræðing verður mun sársaukafyllri en hún hefði verið ef aðhalds hefði verið gætt síðustu ár. Grunnþjónustu borgarinnar stafar ógn af óstjórn borgarinnar. Það þarf ekki að fjölyrða um að ekkert svigrúm er hjá fólki eða fyrirtækjum í borginni til að greiða hærri skatta.

Viðreisn og skuldasöfnunin

Viðreisn gekk til samstarfs við meirihlutann í borginni um mitt ár 2018. Ekki er að sjá mikla breytingu á skuldasöfnun borgarinnar eftir það. Flokkurinn lofaði fyrir kosningar að greiða niður skuldir á góðæristímum og í sáttmála meirihlutans stendur: „Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott.“ Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að Viðreisn kom inn í samstarfið hafa skuldir aukist um 16 milljarða. Það er um 650 milljóna króna skuldaaukning á mánuði frá því að Viðreisn komst til valda.

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, orðaði þetta vel í grein sinni um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022 sem hann skrifaði árið 2018 á vidreisn.is:

 „Á kosningaárinu 2022 verða fjárfestingar sem sagt í lágmarki og aðhald mikið. Einmitt. Við eigum líka að trúa því að þrátt fyrir að nú sé Reykjavík að auka skuldir sínar í bullandi góðæri þá munu stjórnmálamenn á kosningaárinu 2022 keppast við að slá met og uppgreiðslu skulda. […] Allt þetta er sama marki brennt og dansar á mörkum ofurbjartsýni og ótrúverðugleika. Hér er treyst á að stjórnmálamenn í framtíðinni, sem verða að öllum líkindum í mun verri aðstöðu til að greiða niður skuldir, muni af einhverjum ástæðum keppast við að gera það. Kosningaloforð Dags liggja þá fyrir. Í stað þess að skapa svigrúm til fjárfestinga í framtíðinni ætlar borgarstjórinn að fjárfesta eins og aldrei fyrr á toppi hagsveiflunnar og skera svo harkalega niður eftir því sem um hægist og þörf fyrir slíkar fjárfestingar eykst.“

Á aðeins tveimur árum frá því að áætlunin sem Pawel nefnir var gerð tók þessi spá töluverðum breytingum. Í fjárhagsáætlun 2020-2024 var áætlað að hreinar skuldir árið 2022 yrðu 54 milljarðar, eða rúmlega tvisvar sinnum hærri upphæð en tveimur árum áður.

Heimild: Fjárhagsáætlun Reykjavíkur

Pawel hitti því naglann á höfuðið. Nú hefur hægst um og þörfin fyrir fjárfestingar aukist. Draga mun úr tekjum enda tekjustofnar sveitarfélaga allnokkuð háðir hagsveiflu. Því blasir við að borgin mun þurfa að skera harkalega niður á næstu árum.

Borgin staðfestir áhyggjur

Á sama tíma og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði rekstur borgarinnar blómlegan og kannaðist ekki við beiðni um neyðaraðstoð borgarinnar til ríkisins var eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs, aðgerðapakka tvö, send fyrir hönd Reykjavíkurborgar, undirrituð af sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar:

„Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkið komi með beinan óendurkræfan stuðning til sveitarfélaganna sem tryggir að þau geti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin og staðið með atvinnulífinu a.m.k. að því marki sem alþingi hefur samþykkt með lögum. Ef bein óendurkræf framlög ríkisins vegna ársins 2020 myndu nema 50 milljörðum fyrir sveitarfélögin og viðbótarframlög vegna 2021 kæmu síðar þegar greiningar liggja fyrir, sýnir ofangreind fjármálagreining að tryggja þarf jafnframt aðgengi sveitarfélaganna að lánum fyrir a.m.k. jafnháar fjárhæðir hjá Seðlabanka Íslands á hagkvæmustu kjörum ríkisins með 5-7 afborgunarlaus ár í upphafi lánstímans.“

Íbúar Reykjavíkur árið 2020 eru tæp 56% af íbúum höfuðborgarsvæðisins, svo gera má ráð fyrir að hlutdeild Reykjavíkurborgar í ofangreindri neyðaraðstoð yrði um 56 milljarðar af þeim 100 milljörðum sem óskað er eftir strax.

Vandanum velt á fólk og fyrirtæki

Þegar öllu er á botninn hvolft hefur fjármálastefna meirihlutans leitt borgina í algjörar ógöngur, þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð. Þegar öll sund eru að lokast er svo brugðið á það ráð að leita til ríkisins til að leysa vandamálið. En það má svo sem líta á það sem jákvætt, þar sem fyrsta skrefið í átt að bata er að viðurkenna vandamálið.

„Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur, það þarf atorku og ráðdeild og framsýni og þollyndi,“ sagði Jón Sigurðsson í miðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það má svo sannarlega yfirfæra þessi orð hans á Reykjavíkurborg.

Greinin birtist í Þjóðmálum 3. tbl. 2020.