Að missa af strætó

Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur:

Í allri umræðu um nýjar lausnir í samgöngum megum við alls ekki missa sjónar á því markmiði að efla og bæta strætó. Hann er það almenningssamgöngukerfi sem er til staðar og flestir eru sammála um að bæta megi þjónustu strætó til muna. Í sáttmála vinstrimeirihlutans í borgarstjórn segir m.a. um strætó orðrétt: „Við ætlum að bæta strætó. Við viljum að börn 12 ára og yngri fái frítt í strætó í fylgd með fullorðnum. Tíðni á helstu stofnleiðum verður aukin í 7,5 mín. á háannatímum [….]“

Nú þegar langt er liðið á kjörtímabilið er rétt að skoða hvernig þetta hefur gengið. Í dag þurfa börn að greiða 9.100 krónur fyrir afsláttarkort. Tólf ára börn þurfa að greiða 23.300 krónur þrátt fyrir fögur fyrirheit í sáttmála vinstrimeirihlutans. Það er því ljóst að þetta loforð hefur ekki verið efnt. Aukin tíðni ferða er svo hitt loforðið, en flestir eru á því að aukin tíðni á helstu leiðum strætó sé lykilatriði í að fleiri sjái sér fært að nota kerfið. Borgarstjórnarmeirihlutinn má þó eiga það að hann lagði fram formlega tillögu í borgarstjórn 2. október 2018 um að strætó færi á 7,5 mínútna fresti á helstu leiðum frá ársbyrjun 2020. Sú tillaga var samþykkt með 22 atkvæðum Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar, VG, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Sósíalista. Skýrara verður umboðið varla.

En hvað gerist svo?

Ekki neitt. Ekkert gerist í því að auka tíðni strætós á helstu leiðum þrátt fyrir skýrt umboð frá borgarstjórn, því miður. Ekkert bólar á að strætó gangi á 7,5 mínútna fresti. Þvert á móti hefur það gagnstæða gerst en í sumum tilfellum hefur ferðum verið fækkað. Eðli málsins samkvæmt er rétt að spyrja sig hvort ekkert sé að marka samþykktir borgarstjórnar. Var þetta aðeins sýndarmennska? Voru þetta kannski atkvæðaveiðar? Það er okkar skoðun í Sjálfstæðisflokknum að stuðla eigi að bættri nýtingu með því að auka tíðni á vinsælum leiðum. Horfast verður í augu við þá staðreynd að nýting á strætisvögnum er of lítil og því verður að breyta.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. nóvember 2020.