Svöng börn í Reykjavík

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Nú þegar kórónuveiran hefur verið að valda okkur leiðindum í nánast eitt ár þá hefur Reykjavíkurborg ekki tekist að finna lausnir á ýmsu er við kemur hertum sóttvarnaraðgerðum. Síðan 31. október hefur ekki öllum börnum í grunnskólum Reykjavíkurborgar boðist hádegismatur. Önnur sveitarfélög hafa leyst þetta en vanmáttur Reykjavíkurborgar er mikill. Það á að vera hlutverk Reykjavíkurborgar að lágmarka félagslegan skaða, skerðing á þjónustu við börn er alltaf slæm. Þessi vanmáttur á þó við á fleiri stöðum þar sem kennarar fengu ekki útborgað um síðustu mánaðamót samkvæmt nýjum kjarasamningum, stærsta sveitarfélag landsins réði ekki við þessa breytingu einnig hafa foreldrar barns sem hefur veikst vegna myglu í Fossvogsskóla flutt í annað sveitarfélag þar sem Reykjavíkurborg hefur ekki náð að koma í veg fyrir að börn séu að veikjast í skólanum.

Það er mikilvægt núna þegar hertar aðgerðir eru vegna kórónuveirufaraldursins að þær bitni ekki á börnum á grunnskólaaldri þannig að þau fái ekki mat í sínum skólum. Áður en hertar aðgerðir tóku gildi bauðst öllum börnum hádegismatur. Eftir að hertar reglur tóku gildi þann 31. október varð breyting á þessu. Mörg börn sem klára um hádegi fara heim og eiga að borða þar. Skólinn hvort svo sem það er leikskóli eða grunnskóli er vin fyrir börn. Það er mikilvægt þegar reglur eru hertar að til sé aðgerðaráætlun þannig að sem minnst rask verði á lífi barna. Það að ekki sé hægt að fá að borða lengur í skólanum þrátt fyrir það að þú sért í skóla til hádegis er mikið rask fyrir mörg börn.

Á borgarstjórnarfundi fyrir viku síðan felldi meirihlutinn tillögu Sjálfstæðismanna að samþykkt væri að tryggja öllum börnum sem stunda nám í grunnskólum Reykjavíkurborgar matarþjónustu í skólanum á meðan skólastarf er skert vegna kórónuveirufaraldursins. Engin aðgerðaráætlun er til þegar sóttvarnaraðgerðir eru hertar þar sem lagðar eru línurnar um hvernig skólar eiga að bregðast við varðandi matarþjónustu við börn. Því fara mörg börn svöng heim að loknum skóladegi. Við vitum að núverandi ástandi lýkur, en við vitum að trúlega lendum við í samskonar ástandi áður en bóluefni verður komið í dreifingu og því er mikilvægt að gera aðgerðaráætlun. Um það snérist tillaga Sjálfstæðisflokks að skóla- og frístundasvið komi í veg fyrir að börn séu send heim án þess að hafa verið boðið upp á mat í skólanum sínum. Meirihlutinn felldi því tillögu sem er til hagsbóta fyrir börnin í borginni, það finnst mér sorglegt því við vitum að sum börn eru í vanda í Reykjavíkurborg.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. nóvember 2020.