Á fjórða hundrað á fundi með formanni í hádeginu

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði í hádeginu í dag spurningum frá áhorfendum í beinu vefstreymi á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins – upptöku af fundinum má sjá hér.

Fundurinn var afar vel heppnaður. Hann stóð í um þrjú korter og á fjórða hundrað manns tóku þátt í honum. Hægt var að senda inn spurningar fyrir fundinn og eins jafnóðum og barst mikill fjöldi spurninga. Svaraði formaðurinn stórum hluta þeirra en sökum tímaskorts tókst ekki að fara yfir þær allar á svo stuttum tíma.

Komið var inn á marga málaflokka, en meðal þess sem Bjarni sagði var að unnið væri að lækkun skatta þrátt fyrir mótvægisaðgerðir vegna covid-19 og það væri hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ríkissjóður væri að fara í fjárfestingaátak sem kæmi sér vel fyrir atvinnulífið og að í þeirri fjármálaáætlun sem unnið væri eftir sé hagvöxtur næstu ára ein meginforsendan. Önnur forsenda væri að ástandið væri tímabundið og að við gætum veitt öfluga viðspyrnu að því loknu.

Bjarni sagði að lögð hefði verið áhersla á að halda atvinnulífinu gangandi og að tryggja að fólk gæti haft von í gegnum þessa tíma við förum nú í gegnum. Eitt af því sem væri mikilvægt væru fjárfestingar einkageirans og að ríkið myndi hvetja til þess með skattalegri íhlutun.

Þá sagði hann að ef allt sem lagt hefur verið upp með gangi upp ættu allar forsendur að vera til staðar fyrir kröftugri viðspyrnu um leið og ástandið lagast. Markmiðið væri að í lok tímabilsins ætti að vera hægt að loka fjárlagagatinu með viðráðanlegum skuldum ríkissjóðs og stærra hagkerfi.

Fundurinn er sá fyrsti í röð fimm funda með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir svara spurningum áhorfenda. Næsti fundur er á dagskrá fimmtudaginn 26. nóvember nk. og verður auglýstur sérstaklega.