Samkeppnishæfni Íslands snýst um bætt lífskjör

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Stöðug viðleitni manns­ins til að bæta hag sinn er kraft­ur sem líkja má við vatns­afl. Rétt eins og með vatns­aflið þarf að virkja þenn­an kraft skyn­sam­lega. Ann­ars dreg­ur þyngd­araflið hann ein­fald­lega eft­ir þeirri leið sem býður upp á minnsta mót­stöðu og þá er hætt við því að kraft­arn­ir annaðhvort nýt­ist ekki til fulls eða valdi jafn­vel tjóni. Rétt eins og óbeisluð vatns­föll geta ým­ist runnið mátt­laust og ómark­visst til sjáv­ar eða flætt yfir bakka sína með lát­um.

Reglu­verk sam­fé­lags­ins er far­veg­ur­inn sem á að tryggja að kraft­ur­inn sem býr í at­hafna­semi manns­ins nýt­ist sem best. Mik­il­vægt er að far­veg­ur­inn sé hvorki of þröng­ur né of víður. Lífs­kjör okk­ar velta bein­lín­is á því.

Slá­andi niðurstaða OECD um sam­keppn­is­hæfni Íslands

Í vik­unni var kynnt ít­ar­leg út­tekt sem ég bað OECD um að gera á ís­lensku reglu­verki hvað varðar bygg­ing­ariðnað og ferðaþjón­ustu. Báðir þess­ir geir­ar vega hvor um sig um 9% í lands­fram­leiðslu okk­ar og eru því mjög mik­il­væg­ir fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf og lífs­kjör al­menn­ings.

Í kynn­ingu á út­tekt­inni kom fram af hálfu OECD að Ísland væri á heild­ina litið minna sam­keppn­is­hæft en öll hin Norður­lönd­in og aðeins rétt við meðaltal allra OECD-ríkja. Þetta er óviðun­andi og skerðir lífs­kjör okk­ar.

En hver er ástæðan? Jú, ein helsta ástæðan er sú að Ísland er með þyngstu reglu­byrði allra landa OECD þegar kem­ur að veit­ingu þeirr­ar þjón­ustu sem skoðuð var í skýrsl­unni. Við skor­um þar ekki bara und­ir meðaltali held­ur lægst af öll­um lönd­um OECD.

Nauðsyn­legt að bregðast við

Þetta er slá­andi niðurstaða sem nauðsyn­legt er að bregðast við. Óþarfa reglu­verk haml­ar verðmæta­sköp­un, dreg­ur úr sam­keppni og skerðir lífs­kjör. Mat skýrslu­höf­unda er að óþarfa reglu­verk og sam­keppn­is­hindr­an­ir á þess­um tveim­ur sviðum skerði lands­fram­leiðslu Íslands um u.þ.b. 1% eða um 30 millj­arða króna. Það er til mik­ils að vinna að leysa þessi verðmæti úr læðingi með því að losa þau úr höft­um óþarfa reglu­byrði.

Í skýrsl­unni eru hvorki fleiri né færri en 438 til­lög­ur til úr­bóta á reglu­verki, lang­flest­ar í bygg­ing­ariðnaði. Það verður ekk­ert áhlaupa­verk að hrinda þeim í fram­kvæmd. Eðli­lega munu ýms­ir sem eiga hags­muna að gæta veita slík­um breyt­ing­um viðnám. Eng­in ástæða er til að hundsa slík sjón­ar­mið en á sama tíma skul­um við hafa hug­fast að til­lög­urn­ar byggja á ná­kvæm­um sam­an­b­urði við lönd sem við vilj­um al­mennt bera okk­ur sam­an við. Þessi lönd búa ekki við viðlíka reglufarg­an og við höf­um búið til, og reynsl­an sýn­ir að við get­um bætt lífs­kjör með því að ryðja óþarfa hindr­un­um úr vegi.

Sam­keppn­is­hæfni stóriðju

Í vik­unni var líka kynnt önn­ur út­tekt sem ég óskaði eft­ir um sam­keppn­is­hæfni Íslands, en hún lýt­ur að raf­orku­kostnaði stóriðju. Vax­andi umræða hef­ur verið um þetta mik­il­væga mál­efni og afar ólík sjón­ar­mið komið fram. Það hef­ur hamlað umræðunni að trúnaður rík­ir um orku­verð. Umræðan hef­ur því byggst á tak­mörkuðum upp­lýs­ing­um en þýska fyr­ir­tækið Fraun­hofer fékk for­dæma­laus­an aðgang að orku­samn­ing­um til að vinna skýrsl­una. Hún er því tíma­mótainn­legg í umræðuna.

Meg­inniðurstaða út­tekt­ar­inn­ar er að raf­orku­kostnaður stóriðju á Íslandi skerðir al­mennt ekki sam­keppn­is­hæfni henn­ar gagn­vart sam­an­b­urðarlönd­un­um, sem voru Nor­eg­ur, Kan­ada (Qu­e­bec) og Þýska­land. Fyrri lönd­in tvö eru stærstu álfram­leiðend­ur Vest­ur­landa og því ljóst að við sam­an­b­urðinn var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægst­ur.

Eng­um dett­ur í hug að gera lítið úr þeim áskor­un­um sem stóriðja á Vest­ur­lönd­um stend­ur frammi fyr­ir vegna aðstæðna á heims­mörkuðum og sam­keppni frá öðrum heims­hlut­um. Við ætt­um ekki ein­göngu að hafa áhyggj­ur af þeirri stöðu út frá efna­hags­legu sjón­ar­horni held­ur líka um­hverf­is­legu. Ef stóriðja hér á landi flytt­ist til annarra landa og yrði þar knú­in jarðefna­eldsneyti yrði það skelfi­legt bak­slag fyr­ir bar­átt­una við lofts­lags­breyt­ing­ar; öll viðleitni okk­ar í orku­skipt­um myndi blikna í sam­an­b­urði við slíka þróun.

Við ger­um okk­ur líka grein fyr­ir að orku­verð er ólíkt eft­ir at­vinnu­grein­um og teg­und orku­samn­inga, hér sem ann­ars staðar, og meðal­töl segja ekki alla sög­una. Það er hins veg­ar ánægju­leg niðurstaða að við erum al­mennt sam­keppn­is­hæf gagn­vart Nor­egi og Kan­ada og bjóðum lægra verð en býðst í Þýskalandi. Mik­il­vægt er að standa vörð um þessa stöðu og stuðla að því að við verðum áfram sam­keppn­is­hæf. Ýmis tæki­færi geta verið til þess, m.a. með því að stuðla að auknu fram­boði á raf­orku og auk­inni sam­keppni á orku­markaði. Í skýrsl­unni eru líka vís­bend­ing­ar um að mögu­lega þurf­um við að huga bet­ur að flutn­ings­kostnaði ork­unn­ar. Verðlagn­ing hans bygg­ir á reglu­verki sem full ástæða er til að rýna. Ég fól ein­mitt í vik­unni Deloitte að skoða þann þátt sér­stak­lega, bæði flutn­ing og dreif­ingu.

Stöðnun jafn­gild­ir aft­ur­för

Það gild­ir um alla þætti sam­keppn­is­hæfni okk­ar – lög­gjöf, reglu­gerðir og al­mennt sam­keppn­is­um­hverfi – að við meg­um aldrei sofna á verðinum, verða værukær og staðna. Helstu sam­keppn­islönd okk­ar munu ekki gera það. Stöðnun jafn­gild­ir því aft­ur­för. Við eig­um í harðri alþjóðlegri sam­keppni um fólk, um viðskipta­tæki­færi, um verðmæta­sköp­un. Við höf­um náð undra­verðum ár­angri sem þjóð og með ár­vekni og rétt­um ákvörðunum mun­um við gera það áfram.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 15. nóvember 2020.