Árbæjarlón þurrkað upp eftir furðuleg vinnubrögð

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Hinn 27. maí á næsta ári verða hundrað ár liðin frá því Elliðaárvirkjun tók til starfa. Hún var fyrsta vatnsaflsvirkjun Reykvíkinga, var starfrækt til ársins 2014 er aðrennslisrör hennar gaf sig og var þá ein elsta virkjun í heiminum sem enn var í notkun.

Um langt árabil hefur Árbæjarstíflan myndað samfellt lón beggja kvísla Elliðaánna yfir vetrartímann, með yfirfalli á stíflunni. Snemma á vorin hefur lónið verið tæmt, fyrst með því að opna fyrir botnloka í syðri kvíslinni og síðan opna lokurnar í Árbæjarkvíslinni svo Árbæjarlónið tæmist. Nokkrum dögum síðar hefur svo vatnsborðið verið hækkað nokkuð í Árbæjarkvíslinni og Árbæjarlóninu þannig viðhaldið.

Náttúruperla

Þegar komið er upp fyrir stíflu hefur Árbæjarlónið verið ein af perlum Elliðaárdalsins í hundrað ár. Lónið hefur verið fagurt og veigamikið kennimark í náttúru dalsins og fyrir íbúa hverfisins. Kennimark sem sést víða að, hvort sem horft er niður einbýlishúsabotnlangana frá Rofabænum, frá Höfðabakkanum eða frá Árbæjarlauginni. Í blíðviðri hefur norðurbakki lónsins iðað af mannlífi enda vinsælasta göngu- og áningasvæðið á þessum slóðum. Lónið laðar einnig að sér óvenju fjölskrúðugt fuglalíf sem tekur stöðugum árstíðabundnum breytingum, ungum sem öldnum til yndisauka.

En nú er lónið okkar horfið fyrir fullt og fast. Hinn 12. maí. sl. var haldinn rýnifundur Orkuveitu Reykjavíkur og Hafrannsóknarstofnunar um varanlega landmótun við Elliðaárnar fyrir ofan Árbæjarstíflu. Þar var ákveðið að opna í eitt skipti fyrir öll, allar lokur stíflunnar, árið um kring, og gera skarð í einn þröskuld hennar, Árbæjarmegin, með þeim afleiðingum að Árbæjarlónið hverfur endanlega.

Furðuleg ákvörðun

Þessi ákvörðun er lyginni líkust, hvernig sem á hana er litið. Þeir sem að henni stóðu voru fjórir háttsettir starfsmenn Orkuveitunnar, einn fulltrúi frá Orku náttúrunnar og tveir fulltrúar frá HAFRÓ. Ákvörðun þessi var ekki borin undir stjórn OR. Þá hefur umhverfisráð Reykjavíkurborgar ekkert fjallað um þetta mál og fékk ekkert að vita af ráðabrugginu fyrr en í sjónvarpsfréttum er búið var að tæma lónið í síðasta sinn. Málið var heldur aldrei borið undir Náttúrufræðistofnun Íslands, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og/eða íbúaráð, íbúasamtök eða íbúa almennt í Árbæ og Breiðholti.

Eftir því sem næst verður komist með hliðsjón af minnispunktum Orkuveitunnar, var þessi ákvörðun tekin eftir ábendingu frá Fiskistofu og súrefnismælingu HAFRÓ. Fiskistofa benti á að skyndileg tæming heildarlónsins hefði í för með sér “snögga rennslisbreytingu” (nema hvað?) ásamt framburði aurs, úr lóninu, niður árfarveginn. HAFRÓ mældi síðan súrefnismagn í ánum fyrir neðan stíflu þegar stíflislokur voru opnaðar í vor sem leið og kom þá í ljós að súrefnismagnið féll mjög í ánum á meðan á tæmingu stóð. Þá fékk Orkuveitan það álit frá dýravistfræðingi hjá Verkís, að það ætti ekki að hafa teljandi áhrif á fuglalíf í og við lónið þó lónið hverfi! Ekki verður séð að aðrar vistfræðiathuganir liggi til grundvallar þessari furðulegu ákvörðun. Hér má svo enn bæta við að rafstöðin við Elliðaár, með öllum sínum mannvirkjum, er friðuð. Árbæjarlónið er hluti af manngerðri umhverfismótun stöðvarinnar og því líklega einnig friðað.

Ekki leitað umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands

Ég hef enga trú á því að ekki sé hægt að tempra rennsli ánna um stífluna á varanlegan hátt án þess að þurfa að fórna öðru hvoru, fiski og seiðum í ánum, eða Árbæjarlóninu og fuglalífi þess. En til þess þarf þá mun víðtækari vistfræðirannsóknir og yfir lengra tímabil. Þá væri nú ekki verra að umhverfisráð Reykjavíkurborgar fengi að fjalla um málið og fylgjast með því og þeir aðilar sem málið helst varðar fái upplýsingar um það í tíma. Því hef ég farið fram á að fulltrúar Orkuveitunnar komi á fund umhverfisráðs borgarinnar til að ræða málið. Þá mun ég enn fremur óska eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands enda er lónið á náttúruminjaskrá og ber Orkuveitunni samkvæmt lögum að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem ekki var gert.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2020.