Er dánaraðstoð valdefling hinna deyjandi?

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur í þinginu og í gegnum blaðagreinar talað fyrir því að möguleikinn á dánaraðstoð verði kannaður rækilega innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Bryndís var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni en hlusta má á þáttinn hér.

Dánaraðstoð hefur fest sig í sessi í ýmsum nágrannalöndum okkar. Dánaraðstoð er yfirhugtak ýmissa athafna eða athafnaleysis sem hægt er að beina að sjúklingi í þeim tilgangi að binda endi á líf hans. Málið er sannarlega umdeilt en hefur þó mætt auknum skilningi á umliðnum árum. Mikið er rætt þessi misserin um yfirráð yfir eigin líkama í alls kyns samhengi og ræddi Bryndís hvort líta beri til slíkra sjónarmiða í tengslum við dauðann.

Nýverið kom út skýrsla um dánaraðstoð á vegum heilbrigðisráðuneytisins að beiðni Bryndísar sem vill í framhaldi hennar að gerð verði könnun á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar.