Kjánahrollur

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Lík­lega er leit­un að meira takt­leysi í til­lögu­flutn­ingi í þing­inu en finna má í þings­álykt­un­ar­til­lögu 18 þing­manna um bjóða kon­um frá Evr­ópu­lönd­um að ferðast til Íslands í fóst­ur­eyðing­ar. Fram­sögumaður máls­ins er þingmaður­inn Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir en með henni á þings­álykt­un­inni eru all­ir þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Viðreisn­ar og Pírata.

Flóttamaður raun­veru­leik­ans

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir gat valið sér eitt for­gangs­mál til að leggja fram í þing­inu sem þingmaður utan flokka og er fram­lag henn­ar lík­lega mesta vind­högg sem þjóðin hef­ur orðið vitni að á þess­um for­dæma­lausu tím­um. Í þeirri ógn­ar­stöðu sem þjóðin, heim­il­in, at­vinnu­lífið og heil­brigðis­kerfið er í mætti ætla að for­gangs­mál þing­manns­ins stæði til að leggja heim­il­um lið og at­vinnu­lausu fólki, en annað kom á dag­inn. Þingmaður­inn Rósa Björk ákvað að leita út fyr­ir land­stein­ana að verk­efni til að styðja. Í hópi flutn­ings­manna til­lög­unn­ar eru m.a. for­menn tveggja stjórn­mála­flokka, Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar sem eru greini­lega í hópi flótta­manna frá þeim raun­veru­leika sem blas­ir við á Íslandi.

150 þúsund fóst­ur­eyðing­ar

Og hvert var smálið sem þingmaður­inn vildi setja í for­gang um­fram öll önn­ur? Nefni­lega að ís­lenska heil­brigðis­kerfið kæmi til móts við kon­ur í Póllandi sem fá ekki fóst­ur­eyðingu í heima­land­inu. Í Póllandi gilda strang­ar regl­ur kaþólsks sam­fé­lags um fóst­ur­eyðing­ar og vill Rósa beita ís­lenska heil­brigðis­kerf­inu í póli­tísku ágrein­ings­máli í Póllandi og í raun víðar eins og frem kem­ur í til­lög­unni. Renada Kim, blaðakona Newsweek í Póllandi, sagði frá því í þætt­in­um Heimskviðum á Rík­is­út­varp­inu að allt að 150 þúsund ólög­leg­ar fóst­ur­eyðing­ar færu fram í Póllandi á ári hverju og mann­rétt­inda­sam­tök sem ekki voru nafn­greind segðu fjöld­ann vera á bil­inu 100-200 þúsund. Það er því hætt við að til­lag­an hefði í för með sér tölu­verða breyt­ingu á kven­lækn­inga­deild Land­spít­al­ans sem hef­ur fram­kvæmt um 1.000 fóst­ur­eyðing­ar á ári fram að þessu. Mér er ekki kunn­ugt um að þeir 18 þing­menn sem hafa þessa framtíðar­sýn fyr­ir starf­semi Land­spít­al­ans hafi rætt hug­mynd­ina við for­svars­menn spít­al­ans. Ég geri ráð fyr­ir að með því hefðu til­lögu­menn fengið sýn á raun­veru­leik­ans sem ís­lenskt heil­brigðis­kerfi tekst á við.

Sam­fylk­ing­unni finnst ekki nóg að gert

„Til­laga til þings­álykt­un­ar um aðgengi ein­stak­linga sem ferðast til Íslands að þung­un­ar­rofi“ tek­ur fyrst og fremst mið af kon­um í Póllandi og Möltu en í þeim lönd­um búa sam­tals um 39 millj­ón­ir íbúa. Í greina­gerði með frum­varp­inu kem­ur einnig fram að vilji standi til að taka á móti fleir­um en íbú­um þess­ara landa. Þar seg­ir: „Þó að það væri ósk­andi að geta tekið á móti fleiri kon­um eða ein­stak­ling­um sem ekki hafa þessi rétt­indi í heimalandi sínu.“ Hér vakna hug­renn­inga­tengsl við slag­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í umræðunni um mót­vægisaðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í tengsl­um við Covid, „það er ekki nóg að gert“. Hér hnykk­ir Sam­fylk­ing­in á því að það sé ekki nóg að kaf­færa heil­brigðis­kerfið á Íslandi með 100-200 þúsund kon­um frá Póllandi og Möltu – þar sé ekki nóg að gert – og því sé það ósk­andi að geta tekið á móti fleiri kon­um frá fleiri lönd­um.

Barna­leg hugs­un

Ljóst er að blik­ur eru á lofti í mann­rétt­inda­mál­um víða um heim og jafn­vel í okk­ar heims­hluta. Þannig hef­ur verið þrengt að mann­rétt­ind­um og lýðræðis­leg­um gild­um m.a. í skjóli sótt­varn­araðgerða. Okk­ar fram­lag til bar­áttu þeirra sem verða fyr­ir slík­um þreng­ing­um hlýt­ur að nýt­ast best þar sem þær eiga sér stað. Það er í besta falli barna­leg hugs­un að lausn­in sé sú að flytja hingað inn vanda­mál annarra þjóða, frem­ur en að leggja þeim lið í heima­lönd­un­um.

Flest­ir fá kjána­hroll

Á síðasta þing­vetri voru samþykkt ný lög um fóst­ur­eyðing­ar á Íslandi sem voru um­deild á þing­inu eins og í sam­fé­lag­inu öllu. Þessi þings­álykt­un­ar­til­laga fjall­ar hins veg­ar ekki um þá lög­gjöf og allt tal flutn­ings­mann­anna 18 í þá veru er til þess fallið að af­vega­leiða umræðuna og kasta ryki í augu fólks annarra en þeirra sem sjá í gegn­um þessa óraun­hæfu til­lögu. Þingmaður­inn Rósa Björk fékk leyfi til að mæla fyr­ir einni for­gangstil­lögu á Alþingi sem þingmaður utan flokka. Í heims­far­aldri vegna Covid-19, hruni á þjóðar­tekj­um, með þúsund­ir heim­ila í óvissu og at­vinnu­leysi allt að 25% þar sem það er mest og heil­brigðis­kerfið á neyðaráætl­un legg­ur þingmaður­inn fram þessa þings­álykt­un ásamt öll­um þing­mönn­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Viðreisn­ar og Pírata. Að ætla sér að sökkva starf­semi Land­spít­al­ans í fóst­ur­eyðing­ar fyr­ir þúsund­ir kvenna frá Póllandi og Möltu og helst fleiri lönd­um svo nóg verði að gert að mati Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er flótti frá raun­veru­leik­an­um og flest­ir fá kjána­hroll af til­hugs­un­inni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020.