Óli Björn

Hvað fáum við fyrir 70 milljarða?

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ég er nokkuð viss um að marg­ir mót­mæla þeirri full­yrðingu að ekk­ert rík­is­fyr­ir­tæki búi við minna aðhald og njóti meiri vernd­ar en Rík­is­út­varpið ohf. Vörn­in sem um­lyk­ur rík­is­fjöl­miðil­inn er sterk og gagn­rýni er ekki vel séð. Jafn­vel þegar bent er á aug­ljós lög­brot fyr­ir­tæk­is­ins sit­ur op­in­ber eft­ir­lits­stofn­un með hend­ur í skauti og reist­ur er póli­tísk­ur þagn­ar­múr aðdá­enda rík­is­rekstr­ar á fjöl­miðlamarkaði. Það þurfti Rík­is­end­ur­skoðanda til að rjúfa múr­inn.

Í umræðum um störf þings­ins, í sept­em­ber 2018, vakti ég at­hygli á lög­broti Rík­is­út­varps­ins og sagði meðal ann­ars:

„Stund­um er leik­ur­inn ójafn að óþörfu. Við höf­um séð rík­is­fyr­ir­tæki og rík­is­stofn­an­ir hasla sér völl á nýj­um sviðum í sam­keppni við einkaaðila. Við verðum vitni að því að rík­is­fyr­ir­tæki fara ekki að lög­um eins og ljóst er með Rík­is­út­varpið sem fer ekki að lög­um um Rík­is­út­varpið, 4. gr., þar sem kem­ur skýr­lega fram að Rík­is­út­varp­inu beri að stofna dótt­ur­fé­lög til þess að halda utan um sam­keppn­is­rekst­ur­inn og skilja al­farið á milli al­mannaþjón­ust­unn­ar og sam­keppn­is­rekstr­ar. Í sum­ar þurftu sjálf­stæðir fjöl­miðlar að lifa við það að Rík­is­út­varpið þurrkaði upp aug­lýs­inga­markaðinn. Við get­um ekki metið það tjón sem einka­rekn­ir fjöl­miðlar urðu fyr­ir. Og við sjá­um að Rík­is­út­varpið núna er komið í sam­keppni við einkaaðila við að leigja tækja­búnað og aðstöðu til kvik­mynda- og sjón­varps­gerðar.“

Lög­brot rík­is­fyr­ir­tæk­is­ins hafði þá verið látið óátalið í rúma níu mánuði. Ekk­ert einka­fyr­ir­tæki og lík­lega ekk­ert rík­is­fyr­ir­tæki hefði kom­ist upp með að víkja sér und­an skýr­um laga­fyr­ir­mæl­um með sama hætti og Rík­is­út­varpið. Slík hátt­semi hefði ekki aðeins kallað á umræður (og það lík­lega fjör­ug­ar) í þingsal, held­ur hefði frétta­stofa Rík­is­út­varps­ins fjallað ít­ar­lega um meint lög­brot, kraf­ist skýr­inga, úr­bóta og að viður­lög­um væri beitt.

Ekki val­kvætt

Rúm­lega ári síðar, eða í nóv­em­ber 2019, gaf Rík­is­end­ur­skoðandi út skýrslu um rekst­ur og aðgrein­ingu rekstr­arþátta Rík­is­út­varps­ins. Niðurstaðan í stuttu máli:

„Rík­is­end­ur­skoðandi bend­ir á að ekki sé val­kvætt að fara að lög­um. Það er skylda RÚV ohf. að fara eft­ir þeim.“

Í ár­legu mati á því hvort Rík­is­út­varpið hefði upp­fyllt al­mannaþjón­ustu­hlut­verk sitt árið 2018 komst fjöl­miðlanefnd loks ekki hjá því að benda á lög­brotið (birt í októ­ber sl.). Vitnað er í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðanda en tekið fram að lög­brotið sé utan verksviðs við matið. (Ég fæ stund­um á til­finn­ing­una að fjöl­miðlanefnd hafi meiri áhuga á því hvernig Hring­braut hag­ar sínu dag­skrárefni en hvernig Rík­is­út­varpið um­gengst lög og regl­ur).

Það er um­hugs­un­ar­vert að það tók fjöl­miðlanefnd tæp tvö ár að leggja mat á hvernig Rík­is­út­varpið upp­fyllti laga­leg­ar kröf­ur um al­mannaþjón­ustu. Fyr­ir utan að taka und­ir með Rík­is­end­ur­skoðanda ger­ir nefnd­in at­huga­semd­ir við hvernig rík­is­miðill­inn skil­grein­ir kaup sín af sjálf­stæðum fram­leiðend­um. Þar er með óbein­um hætti tekið und­ir gagn­rýni Sam­taka iðnaðar­ins sem í nokk­ur ár hafa gagn­rýnt fram­göngu rík­is­fyr­ir­tæk­is­ins. Ein­hver fréttamaður­inn hefði lík­lega bent á „lagasniðgöngu“ ef ann­ar en rík­is­miðill hefði átt hlut að máli.

Sam­kvæmt þjón­ustu­samn­ingi (2016-19, en nýr samn­ing­ur hef­ur ekki verið gerður) átti Rík­is­út­varpið að verja að lág­marki 10% af heild­ar­tekj­um sín­um árið 2018 til kaupa á efni frá sjálf­stæðum fram­leiðend­um. Rík­is­fyr­ir­tækið var frjáls­legt í að skil­greina sjálf­stæða fram­leiðend­ur. Fjöl­miðlanefnd bend­ir á að sjálf­stæðir fram­leiðend­ur séu, sam­kvæmt skil­grein­ingu laga, lögaðilar óháðir viðkom­andi fjöl­miðlaveitu. Því geti það vart tal­ist upp­fylla laga­lega skil­grein­ingu á sjálf­stæðum fram­leiðanda „ef um er að ræða verk­taka sem hafa að aðal­starfi að sinna íþróttaf­rétt­um eða dag­skrár­gerð í sjón­varpsþátt­um sem eru fram­leidd­ir af RÚV og eru hluti af dag­legri eða viku­legri dag­skrá RÚV. Þá geti ein­stak­ling­ar sem fram til 8. júlí 2020 voru skráðir starfs­menn RÚV á vef Rík­is­út­varps­ins, með eigið net­fang á netþjóni RÚV, trauðla tal­ist óháðir fjöl­miðlaveit­unni Rík­is­út­varp­inu í skiln­ingi laga um fjöl­miðla, þótt viðkom­andi ein­stak­ling­ar séu ekki á launa­skrá Rík­is­út­varps­ins, held­ur þiggi verk­taka­greiðslur.“

Í þessu sam­bandi vek­ur nefnd­in at­hygli á að upp­lýs­ing­ar um starfs­menn hafi verið sótt­ar af vef Rík­is­út­varps­ins 7. júlí 2020. Dag­inn eft­ir höfðu sömu upp­lýs­ing­ar verið fjar­lægðar af vefn­um.

Án aga­valds áskrif­enda

Rík­is­út­varpið er ekki venju­leg­ur fjöl­miðill og lýt­ur ekki aga­valdi áskrif­enda, les­enda, áhorf­enda og hlust­enda. Öll þurf­um við að standa skil á út­varps­gjaldi – áskrift að rík­is­miðli óháð því hvort við nýt­um þjón­ust­una sem er í boði eða ekki. Meg­in­regl­an er sú að hið þvingaða viðskipta­sam­band nær til allra ein­stak­linga 16 til 70 ára og til allra lögaðila (fyr­ir utan dán­ar­bú, þrota­bú og lögaðila sem sér­stak­lega eru und­anþegn­ir skatt­skyldu).

Á liðnu ári fékk rík­is­miðill­inn rúm­lega 4,6 millj­arða króna frá skatt­greiðend­um í formi út­varps­gjalds. Aug­lýs­ing­ar og kost­un gáfu 1,8 millj­arða í tekj­ur og aðrar tekj­ur af sam­keppn­is­rekstri námu 366 millj­ón­um króna. Heild­ar­tekj­ur voru því rúm­lega 6,4 millj­arðar króna.

Síðustu 12 ár hafa skatt­greiðend­ur látið rík­is­miðlin­um í té nær 46 millj­arða króna á föstu verðlagi. Aug­lýs­inga­tekj­ur, kost­un og ann­ar sam­keppn­is­rekst­ur hef­ur skilað fyr­ir­tæk­inu tæp­um 24 millj­örðum króna. Alls hef­ur Rík­is­út­varpið því haft upp und­ir 70 millj­arða úr að moða. Þá er ekki tekið til­lit til beinna fjár­fram­laga úr rík­is­sjóði til að rétta af fjár­hags­stöðu fyr­ir­tæk­is­ins eða sér­kenni­legr­ar lóðasölu við Efsta­leiti.

Það er merki­legt hve illa og harka­lega er brugðist við þegar spurt er hvort önn­ur og betri leið sé ekki fær til að styðja við ís­lenska dag­skrár­gerð, menn­ingu, list­ir og sögu, en að reka op­in­bert hluta­fé­lag. Hvernig ætli ís­lensk kvik­mynda­flóra, dag­skrár­gerð og menn­ing liti út ef þess­ar grein­ar hefðu fengið 46 millj­arða til sín síðustu 12 ár? Örugg­lega ekki frá­breytt­ari. Lík­lega lit­rík­ari og öfl­ugri.

Og hvernig ætli staða sjálf­stæðra fjöl­miðla væri ef þeir hefðu notið þó ekki væri nema hluta 24 millj­arða tekna rík­is­ins af sam­keppn­is­rekstri? Öflugri? Í stað þess að svara þess­ari spurn­ingu vilja stjórn­mála­menn miklu frem­ur ræða hvort ekki sé skyn­sam­legt að ríkið hlaupi und­ir bagga með sjálf­stæðum fjöl­miðlum. Eða eins og Ronald Reag­an sagði; ef það stopp­ar settu það á rík­is­styrk. Og þar með er spurn­ing­unni um hvað fæst fyr­ir 70 millj­arða ekki svarað með öðrum hætti en; rík­is­miðill án aga­valds.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020.