Hefur jafnað stöðu þéttbýlis og dreifbýlis

Í Pólitíkinni í þessari viku var ljósleiðaravæðing Íslands aðal umræðuefnið. Fólk um allt land er farið að nýta sér tækifærin sem fylgja ljósleiðaranum til atvinnu- og verðmætasköpunar. Fólk starfar hjá alþjóðafyrirtækjum óháð staðsetningu, störf á vegum ríkisins eru auglýst án staðsetningar enda staðsetning ekki hindrun lengur. Ljósleiðarinn hefur orðið til þess að fólk býr áfram á jörðum og sinnir ýmsum störfum og lengi má áfram telja. Tækifærin eru endalaus.

Gestir Pólitíkurinnar í þessari viku eru þau Eva Björk Harðardóttir, hótelstjóri Hótel Laka við Kirkjubæjarklaustur og oddviti Skaftárhrepps og Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð en hann situr einnig í stjórn fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þáttinn  má nálgast hér og einnig má nálgast hann hér fyrir neðan á YouTube og Spotify.

Ræddu þau meðal annars hvernig COVID-19 hefur orðið til þess að fólk nýti betur internetið til að eiga samskipti og sinna daglegum störfum, að í stað ferðalaga til Reykjavíkur á vinnufundi og í önnur erindi sé því öllu sinnt gegnum Zoom og Teams að heiman, það spari tíma og peninga. Að fjarlægðir hafi styst verulega og að nú hafi landsbyggðin loks rödd til jafns við þéttbýlið þar sem allir eru meira og minna orðið á fjarfundi og hafi sömu aðkomu að málum. Þau ræddu það jákvæða sem megi læra og nýta út úr þessu fordæmalausa ástandi og einnig hvernig megi betur nýta sér fjarþjónustu og internetið en nú er gert til að jafna aðstöðu.

Verkefnið fór af stað 2013

Kraftaverk hefur verið unnið í ljósleiðaravæðingu á undanförnum árum þar sem ríki, sveitarfélög og almenningur hafa tekið höndum saman. Ljósleiðari er að verða staðreynd um allt land, jafnt í dreifðustu og þéttustu byggðum landsins.

Verkefninu var komið af stað árið 2013 í tíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Ólöf Nordal hélt áfram með verkefnið í sinni tíð sem innanríkisráðherra og Jón Gunnarsson lagði því einnig lið sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Allan tímann leiddi Haraldur Benediktsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi starfs- og verkefnahópa sem unnu að verkefninu og var um tíma formaður Fjarskiptasjóðs.

Árið 2013 sá enginn fyrir COVID-19 – en það er óhætt að segja að ljósleiðaravæðingin hafi komið einkar vel að gagni á þessu ári þegar internetið hefur sjaldan verið mikilvægara til að halda uppi eðlilegum gangi í samfélaginu.

Nemendur stunda nám um allt land í gegnum internetið, fólk vinnur að heiman vikum og mánuðum saman og samskipti við vini og ættingja fara að miklu leyti fram í gegnum internetið.