Að hugsa nýtt! Að horfa á list! NÓMAH

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Þegar ferðast er um Ísland reyna heima­menn að sýna gest­um betri hliðina. Betri hliðin er oft­ar en ekki eitt­hvað gam­alt, og jafn­vel nýtt og ný­stár­legt og ný­smíðaðar forn­minj­ar. Stund­um er þetta gamla frá umliðnum öld­um, jafn­vel af fyrri öld­um jarðsög­unn­ar.

Þannig er Gerp­ir á sín­um stað, þeim til sýn­is sem þangað leggja leið sína. Gerp­ir er á elsta hluta lands­ins. Nærri Gerpi er Helgustaðanám­an með sitt silf­ur­berg. Silf­ur­berg er kís­ilút­fell­ing úr heitu vatni. Nú er jarðhit­inn horf­inn í silf­ur­bergs­námunni. Gerp­ir og Helgustaðanám­an eru sköp­un nátt­úr­unn­ar.

Um allt land eru söfn með amboðum, lóðum, krók­um og heima­smíðuðum hefl­um. Allt voru þetta at­vinnu­tæki síns tíma. Svo þykir til siðs að koma upp sam­göngu­m­inja­söfn­um með göml­um öku­tækj­um.

Í Nes­kaupstað er Lista­safn Tryggva Ólafs­son­ar, en þar fædd­ist hann.

Sum þess­ara safna eru staðbund­in frægð en önn­ur kunna að ná alþjóðleg­um mæli­kv­arða.

Ljós­mynd­in í mynd­list

Lengi hef­ur verið litið á ljós­mynd­un sem tóm­stundagam­an. Þegar ljós­mynd­in eld­ist verður mynd­in skyndi­lega heim­ild. Ein­staka ljós­mynd verður að lista­verki. Fangað augna­blik. Ljós­mynd­in er í eðli sínu lista­verk.

Ljós­mynd­ir Hjálm­ars R. Bárðar­son­ar frá sumr­inu 1937, þegar hann tók stúd­ents­próf, eru ein­stök heim­ild um byggð sem var að fjara út, deyja, byggðin á Horn­strönd­um hvarf tíu árum síðar. Í þess­um heim­ild­um um deyj­andi byggð eru mynd­ir sem eru hreint lista­verk. Kirkj­an á Stað í Aðal­vík í auga mynda­vél­ar Hjálm­ars er lista­verk.

Ljós­mynd­un er van­met­in list­grein. Kon­septið í augna­blik­inu fer á ljós­hraða. Það þykir hent­ugra en að fanga augna­blikið í olíu á striga eða með vatns­lit­um á papp­ír. Íslensk sjón­mennt byggðist á því að ná hinu upp­hafna í lands­lag­inu og fanga hið þjóðlega á þeim augna­blik­um þegar tíma­mót voru í aðsigi í ís­lenskri stjórn­skip­an eða þjóðar­sögu. Þannig verða Þing­vell­ir og fjall­kon­an að þjóðar­tákn­um.

Ljós­mynd­in er frjálst list­form en bygg­ist á aga og þekk­ingu. Fjöl­marg­ir ís­lensk­ir mynd­list­ar­menn hafa náð ag­an­um og náð kon­sept­inu í augna­blik­inu.

Sig­urður Guðmunds­son mynd­list­armaður er afar fjöl­hæf­ur. Verk hans í steini, hinum harða list­miðli, hafa mikið aðdrátt­ar­afl á bryggj­unni á Djúpa­vogi. Þó kann að vera að Sig­urður sé þekkt­ast­ur fyr­ir verk sín í ljós­mynd­inni.

Hrafn­kell Sig­urðsson mynd­list­armaður er listamaður kon­septs­ins í ljós­mynd­inni. Verk hans fjalla um and­stæður og árekstra. Milli hár­fínn­ar menn­ing­ar og hrjúfr­ar nátt­úru. Mörg verk­anna eru þekkt um all­an heim.

Sam­tíma­lista­safn (NÓMAH)

Djúpi­vog­ur er merki­legt byggðarlag. Ýmsum kann að koma á óvart að þar er rík ljós­mynda­hefð. Nikólína Weywadt á Teig­ar­horni er einn fyrsti ljós­mynd­ar­inn á Aust­ur­landi. Fóst­ur­dótt­ir henn­ar, Hans­ína Regína Björns­dótt­ir, hélt áfram starfi henn­ar í ljós­mynd­un á Teig­ar­horni. Sum­ar af þeirra mynd­um eru merk­ar heim­ild­ir um Djúpa­vog, en þær eru jafn­framt lista­verk. Sumt er tækt á NÓMAH fyr­ir kon­septið, augna­blik liðinna alda.

Það eiga alls ekki öll lista­söfn að vera í Reykja­vík. Hug­mynd að lista­safni þarf að byggj­ast á truflaðri hug­mynd og áræði. Þekk­ing á efn­inu er einnig nauðsyn­leg.

NÓMAH á Djúpa­vogi get­ur orðið perla ís­lenskra lista­safna með alþjóðlega teng­ingu í tengslaneti Sig­urðar Guðmunds­son­ar.

Vanda­mál nýrra lista­safna er að ná í verk sem hæfa. Sig­urður Guðmunds­son og vin­ir hans sjá um öfl­un verka í NÓMAH á Djúpa­vogi. Hver vill ekki eiga verk í safni í litl­um bæ?

Ef Sam­tíma­lista­safnið NÓMAH á Djúpa­vogi tekst kemst Ísland á heimskort sam­tíma­mynd­list­ar.

Hvað seg­ir skáldið?

Sá tími er löngu liðinn, að við get­um séð fyr­ir okk­ur cos­mot­heros,

áhorf­anda heims­ins.

Hann er liðinn und­ir lok því heim­ur­inn læt­ur ekki leng­ur mynd­gera sig.

Mynd­gerv­ing heims­ins, heims­sýn­in, fel­ur í sér aðheim­in­um sé gef­in regla og mark­mið.

Þannig mætti jafn­vel segja að til­tek­in sýn á heim­inn feli í sér enda­lok þess sama heims,

sem þannig væri inn­limaður og leyst­ur upp í þess­ari sömu heims­sýn.

(Jean-Luc Nancy)

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 2020.

 

HRB-2679x-2 001