Ísland af gráum lista

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Ísland er ekki leng­ur á „grá­um lista“ FATF (Fin­ancial Acti­on Task Force) yfir þau ríki sem sæta auknu eft­ir­liti vegna ófull­nægj­andi varna gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka. Það eru ánægju­leg og mik­il­væg tíðindi. Með sam­stilltu átaki fjöl­margra aðila hef­ur okk­ur tek­ist á skömm­um tíma að bæta úr þeim ágöll­um á ís­lensku laga- og reglu­verki sem sam­tök­in höfðu til­greint í út­tekt­um sín­um og skýrsl­um á und­an­förn­um þrem­ur árum.

For­sag­an er sú að árið 2017 fór fram út­tekt af hálfu FATF á vörn­um lands­ins gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka. Sam­tök­in komust að þeirri niður­stöðu vorið 2018 að varn­ir Íslands væru ófull­nægj­andi og Ísland var því sett í svo­nefnda eft­ir­fylgni hjá sér­stök­um vinnu­hópi inn­an FATF um mál­efni ríkja þar sem vörn­um í þess­um mála­flokki er veru­lega ábóta­vant. Íslandi var gef­inn eins árs frest­ur til úr­bóta.

Af hálfu ís­lenskra stjórn­valda var þegar haf­ist handa um margþætt­ar úr­bæt­ur. Eigi að síður komst FATF að þeirri niður­stöðu að Íslandi hefði ekki tek­ist að leysa vand­ann inn­an til­skil­ins frests. Í októ­ber 2019 var Ísland sett á gráa list­ann og aðgerðaáætl­un samþykkt af hálfu FATF sem ís­lensk­um stjórn­völd­um var gert að fram­kvæma.

Á fundi FATF í júní á þessu ári var talið að Ísland hefði lokið öll­um aðgerðunum með full­nægj­andi hætti. Sér­fræðing­ar ríkja­hóps­ins komu til lands­ins í sept­em­ber og gengu úr skugga um að ís­lensk stjórn­völd hefðu staðið við skuld­bind­ing­ar sín­ar. Á aðal­fundi FATF í gær var loks samþykkt að taka Ísland af gráa list­an­um.

Vert er að fagna á þess­um tíma­mót­um og þakka öll­um þeim sem lagt hafa hönd á plóg. Um leið er mik­il­vægt að draga rétt­an lær­dóm af þess­ari reynslu. Hún er áminn­ing um að við þurf­um að gera bet­ur. Það að lenda á lista sem þess­um hef­ur gíf­ur­leg áhrif á ís­lenskt at­vinnu­líf, ekki aðeins fjár­mála­fyr­ir­tæki held­ur nær öll fyr­ir­tæki sem stunda alþjóðleg viðskipti. Ef Ísland ætl­ar að vera þátt­tak­andi í alþjóðlegu viðskipta­lífi, sem við svo sann­ar­lega erum, þá verða stjórn­völd að tryggja að inn­lent reglu­verk upp­fylli öll alþjóðleg skil­yrði. Sú hag­sæld sem við búum við hvíl­ir á alþjóðleg­um viðskipt­um sem aft­ur hvíla á trausti milli aðila og skil­yrðum um að flutn­ing­ur á fjár­magni, vöru og þjón­ustu sé með ör­ugg­um hætti.

Þetta er líka áminn­ing um að stjórn­sýsl­an er til fyr­ir fólkið en ekki öf­ugt. Það að tryggja fyrr­nefnd skil­yrði á ekki að vera stjórn­sýsl­unni þung­bært en það get­ur hins veg­ar verið at­vinnu­líf­inu þung­bært að Ísland sé flokkað með þess­um hætti. Það hef­ur nei­kvæð áhrif á hag­kerfið og þar með nei­kvæð áhrif á heim­ili og fyr­ir­tæki í land­inu. Það má ekki ger­ast aft­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2020.