Ræddu Hoyvíkursamninginn í Þórshöfn í dag

„Hoyvíkursamningurinn er áþreifanleg staðfesting á góðum og nánum samskiptum Íslands og Færeyja. Hann hefur reynst báðum þjóðum vel frá því að hann tók gildi 2006 og það var afar ánægjulegt að koma hingað til Færeyja og sjá það með eigin augum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að loknum undi með Jenis av Rana utanríkisráðherra Færeyja í Þórshöfn í dag. Framkvæmd Hoyvíkursamningsins og efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins voru efst á baugi á fundi ráðherranna.

Hoyvíkursamningurinn er fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja og skipa utanríkisráðherrar landanna Hoyvíkurráðið sem kemur reglulega saman til að ræða framkvæmd samningsins. Samningurinn felur í sér fulla fríverslun með vörur og þjónustu á milli landanna og er víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert.

Í tengslum við fundinn sóttu þeir Guðlaugur Þór og Jenis av Rana heim Sigert Patursson, bónda og formann færeysku bændasamtakanna, og skoðuðu sláturhúsið og kjötvinnsluna Krás í Hósvík.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti einnig ræðu á Faroexpo kaupstefnunni sem haldin var í Runavík í dag. Kaupstefnan fer fram á tveggja ára fresti og að þessu sinni undir yfirskriftinni Brexit, tækifæri og áskoranir. Í erindi sínu lagði ráðherra áherslu á náin tengsl Íslands og Bretlands í fortíð, nútíð og framtíð, á sviði viðskipta, menningar og öryggismála. Hann áréttaði meðal annars að mikið væri í húfi fyrir Ísland að tryggja samfellu í samskiptum landanna þrátt fyrir útgöngu Bretlands úr ESB. Samningar um framtíðarsamskipti landanna stæðu yfir og væru langt komnir á mörgum sviðum.

Sjá nánar í frétt á vef utanríkisráðuneytisins hér.