Vægi ferðaþjónustu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisfloksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Ferðaþjón­ust­an gegndi lyk­il­hlut­verki við að reisa efna­hags­líf okk­ar við fyr­ir tæp­um ára­tug og skapa í kjöl­farið eitt lengsta hag­vaxt­ar­skeið lýðveld­is­sög­unn­ar. Fjöldi ferðamanna fjór­faldaðist á ör­fá­um árum sem styrkti gjald­miðil okk­ar, jók kaup­mátt, fjölgaði störf­um og bætti lífs­kjör.

Vöxt­ur út­flutn­ings og kaup­mátt­ar skilaði sér í auk­inni neyslu og fjár­fest­ingu. Hag­vöxt­ur var meiri hér á þessu tíma­bili en í flest­um vest­ræn­um ríkj­um, sem lík­lega má einkum rekja til blóm­legr­ar ferðaþjón­ustu. Hún skapaði einnig þriðja hvert nýtt starf sem varð til á Íslandi á tíma­bil­inu 2015-2019.

Ferðaþjón­ust­an lagði í fyrra um 8% til lands­fram­leiðslu okk­ar sem er mjög hátt hlut­fall í alþjóðlegu sam­hengi. Eng­in hinna Norður­landaþjóðanna reiðir sig jafn­mikið á ferðaþjón­ustu. Norðmenn koma næst­ir með helm­ingi lægra hlut­fall. Mik­il­vægið er enn meira þegar horft er á vinnu­markaðinn. Hvergi inn­an OECD var á liðnum árum hærra hlut­fall starfa í ferðaþjón­ustu en á Íslandi.

Fleiri já­kvæð áhrif

Óbein já­kvæð áhrif grein­ar­inn­ar eru líka mik­il­væg. Dæmi um þau er hinn mikli fjöldi áfangastaða sem Íslend­ing­um stend­ur alla jafna til boða í alþjóðaflugi. Góðar flug­sam­göng­ur gegna einnig mik­il­vægu hlut­verki í vöru­flutn­ing­um og stuðla að aukn­um viðskipta­tengsl­um. Byggðaáhrif eru annað dæmi. Ferðaþjón­ust­an hef­ur stuðlað að mik­illi grósku víða um land, skapað bæði at­vinnu­tæki­færi og fjöl­breytt­ari þjón­ustu, menn­ingu og afþrey­ingu, sem eyk­ur ekki bara lífs­kjör held­ur lífs­gæði. Ferðaþjón­ust­an hef­ur því bæði lagt heim­inn að fót­um Íslend­inga og dregið heims­byggðina út á land, ef svo mætti segja.

80% tapaðra starfa eru í ferðaþjón­ustu

Óhætt er að full­yrða að heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar hafi bitnað meira á ferðaþjón­ustu en öðrum at­vinnu­grein­um. Tekj­ur henn­ar hafa nán­ast horfið í einni svip­an. Fjög­ur af hverj­um fimm störf­um sem höfðu tap­ast á Íslandi um mitt ár (miðað við sama tíma í fyrra) voru í ferðaþjón­ustu, eða um 10.500 af alls 13.500.

Á sama tíma og rétti­lega var kallað eft­ir sér­tæk­um aðgerðum fyr­ir grein­ina var því ljóst að hún naut öðrum grein­um frem­ur góðs af mót­vægisaðgerðum stjórn­valda. Til viðbót­ar komu sér­tæk­ar aðgerðir eins og viðamikið markaðsátak bæði inn­an­lands og er­lend­is, ferðagjöf og aukið fé til fram­kvæmda á ferðamanna­stöðum.

Fleiri aðgerðir hafa verið til skoðunar með hliðsjón af þróun mála, ekki síst til að stuðla að því að grein­in verði sem best í stakk búin til að taka við sér á ný. Þá er verið að at­huga með ýmsa mögu­leika á mót­töku fólks, svo sem að viður­kenna Covid-skimun frá heimalandi, taka upp hraðskimun og mögu­legt fyr­ir­komu­lag við að taka á móti fólki með ör­ugg­um hætti þegar aðstæður leyfa.

Sókn­ar­færi

Eng­um dylst að áhersl­ur stjórn­valda bein­ast nú mjög að ný­sköp­un. Á sama tíma er ljóst að þegar aðstæður leyfa verður ferðaþjón­ust­an sú at­vinnu­grein sem er lík­leg­ust til að skapa störf og styðja við eft­ir­spurn í hag­kerf­inu til­tölu­lega hratt. Ljóst er að kost­ir Íslands sem áfangastaðar fyr­ir er­lenda ferðamenn eru að minnsta kosti jafn­mikl­ir og fyr­ir Covid og senni­lega meiri.

Við ætl­um að vera til­bú­in í nýja sókn þegar þar að kem­ur. Upp­haf markaðsátaks stjórn­valda og Íslands­stofu fyrr á ár­inu vakti mikla at­hygli er­lend­is og skilaði veru­leg­um mæl­an­leg­um ár­angri í aukn­um áhuga á Íslandi, þó að aðeins ein­um fimmta af ráðstöf­un­ar­fénu hafi verið eytt. Bróðurpart­ur­inn er því enn til ráðstöf­un­ar til að sækja kröft­ug­lega fram þegar sá tími kem­ur. Í millitíðinni verður leit­ast við að kynna Ísland með þeim leiðum sem henta við nú­ver­andi aðstæður, eins og sam­starf átaks­ins við Ice­land Airwaves er gott dæmi um.

Hvað ger­um við öðru­vísi núna?

Ísland er miklu bet­ur í stakk búið til að taka við örum vexti ferðaþjón­ust­unn­ar en fyr­ir nokkr­um árum. Millj­örðum hef­ur verið varið í að bæta innviði á fjöl­mörg­um stöðum, meðal ann­ars í gegn­um Fram­kvæmda­sjóð ferðamannastaða og Landsáætl­un um upp­bygg­ingu innviða. All­ir sem ferðast um landið hafa orðið var­ir við framþróun á þessu sviði og við höld­um áfram á þeirri veg­ferð.

Þá hafa sýn og áhersl­ur í ferðaþjón­ustu verið mótaðar bæði á landsvísu og svæðis­bundið.

Mark­viss­ari stýr­ing er á dag­skrá, eins og ný­leg­ir samn­ing­ar Vatna­jök­ulsþjóðgarðs við ferðasala eru til marks um, sem og boðað frum­varp fjár­málaráðherra um út­gáfu sér­leyf­is­samn­inga vegna af­nota af landi í eigu rík­is­ins. Við höf­um inn­leitt mat á álagi af ferðaþjón­ustu á marg­vís­lega innviði lands­ins en þar skipt­ir bæði máli að skoða landið í heild og ein­staka áfangastaði.

Oft er rætt um að laða hingað bet­ur borg­andi ferðamenn. Íslands­stofa hef­ur greint mark­hópa okk­ar vel og hag­ar land­kynn­ingu eft­ir því. Við stýr­um þó aldrei full­kom­lega hverj­ir hingað koma. Þar ræður flug­fram­boð miklu. Líka má nefna að verðlag á Íslandi hef­ur verið hátt í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og reynt á þol­mörk ferðamanna gagn­vart verðlagn­ingu; við höf­um því tæp­lega verið of­ar­lega á blaði hjá þeim sem leggja mesta áherslu á lágt verðlag.

Lík­lega hef­ur eng­in önn­ur at­vinnu­grein skilað Íslandi eins skjót­um ávinn­ingi af viðlíka stærðargráðu og ferðaþjón­ust­an gerði á und­an­förn­um ára­tug eða svo. Ný sókn verður þó að vera sjálf­bær, eins og ný­leg framtíðar­sýn stjórn­valda og grein­ar­inn­ar kveður á um. Sú sýn er í fullu gildi. Á þeim grunni mun­um við sækja fram að nýju ásamt þeim þúsund­um ein­stak­linga í grein­inni sem hafa með þrot­lausri vinnu, hug­kvæmni og metnaði hag­nýtt og auðgað þá stór­kost­legu auðlind sem er áfangastaður­inn Ísland.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18. október 2020.