Saman í sókninni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Stærsta áskorun stjórnvalda um þessar mundir er að milda höggið af kórónuveirufaraldrinum fyrir íslenskan almenning og atvinnulíf. Utanríkisþjónustan gegnir þar veigamiklu hlutverki. Nú þegar útlit er fyrir að gjaldeyristekjur þjóðarinnar dragist verulega saman vegna tímabundins samdráttar í ferðaþjónustu verðum við blása til stórátaks í útflutningi.

Í upphafi faraldursins tók utanríkisþjónustan höndum saman við að greiða leið þúsunda Íslendinga hingað heim. Þegar þessu stóra verkefni lauk ákvað ég að næsta forgangsmál utanríkisþjónustunnar yrði að styðja enn frekar við íslenskan útflutning. Ég skipaði starfshóp sem lagði fram tillögur í tólf liðum í skýrslunni Saman á útivelli – framkvæmd utanríkisstefnu í kjölfar COVID-19.

Á meðal þessara tillagna er viðskiptavakt fyrir íslenskan útflutning sem í dag verður formlega ýtt úr vör. Um er að ræða mikilvæga viðbót við þá aðstoð sem viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur veitt um árabil. Nú verður hægt að hringja í utanríkisráðuneytið allan sólahringinn komi upp aðstæður eða samskiptahnökrar sem bregðast þarf strax við, jafnvel um miðja nótt eða í aðdraganda stórhátíða. Til dæmis þarf að hafa hraðar hendur ef fersk matvæli liggja undir skemmdum vegna vandamála við tollafgreiðslu. Einnig getur viðskiptafólk lent í vanda á ferðalögum erlendis, ekki síst á þessum farsóttartímum. Á okkar snærum starfar sérhæft starfsfólk á 26 sendiskrifstofum í 21 landi, auk rúmlega tvö hundruð kjörræðismanna í 92 löndum, sem vinna að hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi. Utanríkisþjónustan er alltaf á vaktinni; þegar sólin sest í New York rennur upp nýr dagur í Tókýó.

Í dag mun ég jafnframt undirrita þjónustusamning utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu. Þar með verður að veruleika þjónustuborð atvinnulífsins sem Íslandsstofa hefur umsjón með. Þangað getur atvinnulífið sótt sér upplýsingar um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndunum og víðar. Einnig geta fyrirtækin fengið þar stuðning og leiðsögn um hvernig koma mætti hugmyndum í framkvæmd.

Heimsbyggðin öll fæst nú við afleiðingar farsóttarinnar, bæði heilsufarslegar og efnahagslegar. Það er morgunljóst að taka mun mörg ár að vinna úr þeim flóknu áskorunum sem kórónuveirunni fylgja. Og einmitt þess vegna hefur aldrei verið mikilvægara að snúa bökum saman og fara öll í sóknina á útivelli.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. október 2020