Bætum Grafarvog

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Þegar ég heyri af Grafarvogsbúum sem ég þekki og eru að flytja úr Grafarvogi, spyr ég „af hverju ertu að flytja“. Nær undantekningarlaust er svarið, að húsnæði í hverfinu sem er á sölu sé ekki að henta viðkomandi. Það er því mikilvægt að við aukum framboð á húsnæði í Grafarvogi, enda mjög gott að búa hérna. Hér höfum við náttúruna í bakgarðinum okkar og samheldið samfélag þar sem félagsleg samskipti eru mikil. Maður finnur það best á tímum sem þessum þegar við eigum að halda okkur sem mest heima við hvað maður sækir mikið í okkar frábæra nærumhverfi og það samfélag sem við íbúarnir höfum skapað okkur.

Þéttum byggð

Við búum svo vel í Grafarvogi að óbyggðar skipulagðar lóðir er víða að finna. Það er mikilvægt að á þeim verði uppbygging sem hentar nærumhverfi þeirra sem best. Fyrir neðan Foldaskála við Fjallkonuveg er óbyggð lóð. Þegar hverfið var að byggjast upp var þessi lóð frátekinn fyrir heilsugæslustöð. Á þessari lóð væri tilvalið að byggja íbúðir fyrir fólk sem er 60 ára og eldra. Mikil vöntum er á íbúðum fyrir 60 plús í Grafarvogi. Í Foldunum er mikið um stór einbýlishús og ef eldra fólk vill minnka við sig er um fátt annað að velja en að flytja úr hverfinu. Ef byggt væri húsnæði með íbúðum fyrir 60 plús á þessari lóð myndum við auka valkosti fyrir þá sem vilja búa áfram í hverfinu.

Eins er líka óbyggð lóð við Borgarholtsskóla. Borgarholtsskóli er frábær skóli og þar er unnið gríðarlega faglegt og flott starf sem við hér í Grafarvogi eru heppin að hafa. Mikilvægt er að stækka skólann og efla hann þar með enn frekar. Óskandi væri að hægt er að stækka skólann sem fyrst, það væri ekki aðeins til þess að efla skólann heldur myndi það efla Grafarvog allan.

Eiðsvík

Þegar farið er út af Strandvegi í átt að Geldinganesi er vík  á vinstri hönd sem heitir Eiðsvík og á hægri hönd er Leiruvogur. Þarna er kayakklúbburinn með sína aðstöðu. Það er frábært að ganga um þetta svæði en bæta mætti svæðið sem snýr að Eiðsvík með því að koma fyrir bekkjum og jafnvel útieldunaraðstöðu. Jafnvel væri hægt að gera lítið plan þar sem hægt væri að leggja matarbílum sem selja vildu vörur sínar á góðviðrisdögum og skapa þar með skemmtilegt og fjölbreytt svæði.

Verndum svæðið fyrir botni Grafarvogs

Grafarvogur ber nafn sitt af bænum Gröf sem stóð innst í Grafarvoginum og þar fellur líka í voginn Grafarlækur.  Landið fyrir botni Grafarvogs við Grafarlæk er mjög fallegt, það er grænt svæði sem við Grafarvogsbúar eigum að fara fram á að verði óbyggt. Við sem búum í Grafarvogi búum í miklu návígi við náttúruna og það er mikilvægt að fast verði áfram haldið í græn svæði þrátt fyrir þéttingu byggðar.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 14. október 2020.