„Íslenskir matvælaframleiðendur hafa líkt og aðrar atvinnugreinar glímt við tekjusamdrátt á þessu ári, m.a. vegna fækkunar ferðamanna. Þessi ákvörðun er hluti af viðbrögðum ráðuneytisins til að styðja við íslenska matvælaframleiðendur við þær krefjandi aðstæður,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem í dag ákvað að falla frá öllum gjaldskrárhækkunum Matvælastofnunnar á árinu 2020 vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins á íslenska matvælaframleiðendur.
Í aðgerðaráætlun fyrir íslenska landbúnað og sjávarútveg til að mæta áhrifum heimsfaraldursins sem ráðherra kynnti í mars síðastliðnum var ákveðið að fresta gjaldskrárhækkunum MAST til 1. september 2020 og að staðan yrði þá endurmetin. Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi hefur verið ákveðið að falla alfarið frá 2,5% gjaldskrárhækkunum á árinu 2020.
Ráðherra hefur einnig óskað eftir því við Matvælastofnun að unnin verði heildstæð kostnaðargreining til að undirbyggja nýja gjaldskrá sem áformað er að taki gildi um næstu áramót.