Skattaleg meðferð lífeyristekna

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Það kann að koma und­ar­lega fyr­ir sjón­ir að ekki einn ein­asti kjós­andi hef­ur komið að máli við fram­bjóðand­ann mig vegna hinn­ar „nýju stjórn­ar­skrár“. Ég held líka að dóm­ar­ar verði fyrst veru­lega hættu­leg­ir þegar dómsniður­stöður þeirra byggj­ast ein­göngu á orðanna hljóðan þegar stjórn­ar­skrá­in var rituð.

Það hef­ur fjöld­inn all­ur af kjós­end­um komið að máli við mig vegna þeirra „fórna“ sem þeir hafa fært með því að greiða fram­lög í líf­eyr­is­sjóði.

Ágæt kona

Ein ágæt kona kom að máli við mig og sagðist hafa unnið frá unga aldri, ávallt greitt í líf­eyr­is­sjóði af allri sinni vinnu, sagðist í raun alls ekki sjá eft­ir fram­lag­inu í sjóðina en sér þætti und­ar­legt að það væru all­ir að kepp­ast við að kom­ast á ein­hvers kon­ar bæt­ur. Hún greiddi skatta af líf­eyris­tekj­um sín­um en aðrir þægju bæt­ur af þeim skött­um.

Kon­an sagði að í raun sner­ist lífs­bar­átt­an um að greiða fyr­ir bæt­ur eða vera á bót­um. Kon­unni fannst í raun að líf­eyri­s­kerfið væri hrossamarkaður sál­ar­inn­ar að vinnu­tíma lokn­um.

Kon­an sagði að hún væri lítið bet­ur sett, eft­ir mikla vinnu og fram­lög í líf­eyr­is­sjóði, en þeir sem hefðu greitt lítið í líf­eyr­is­sjóð og fengju bæt­ur í formi tekju­trygg­ing­ar. Þá væri nokkr­um jöfnuði náð en kon­unni fannst rétt­lætið lítið.

Að hverju var stefnt í upp­hafi?

Kerfi al­mennra líf­eyr­is­sjóða á ræt­ur að rekja til kjara­samn­inga árið 1969. Á þeim tíma sem liðinn er hef­ur verið sett al­menn lög­gjöf um starf­semi líf­eyr­is­sjóða. Skuld­bind­ing líf­eyr­is­sjóða er skil­yrt eign sjóðfé­laga að hluta og sér­eign sjóðfé­laga að hluta. Það var stefnt að því að sjóðfé­lag­ar fengju 60% af laun­um við starfs­lok.

Að því kom að tekju­fallið þótti of mikið. Því skyldi sjóðfé­lög­um gef­inn kost­ur á að auka fram­lag sitt í líf­eyr­is­sjóð, gegn mót­fram­lagi at­vinnu­rek­anda, í sér­eigna­sjóð.

Svo geta menn deilt um hvort mark­miðið hafi náðst.

Hin skil­yrta eign sjóðfé­laga er háð sam­trygg­ingu. Sam­trygg­ing­in tek­ur til­lit til mis­mun­andi líf­ald­urs og ör­orku sjóðsfé­laga.

Sér­eign og sam­trygg­ing lýt­ur sömu lög­mál­um varðandi ávöxt­un eigna líf­eyr­is­sjóða og þar með getu til að standa und­ir líf­eyri.

Ef ekki væri söfn­un­ar­kerfi í líf­eyr­is­sjóðum þyrfti að koma á gegn­um­streymis­kerfi. Það hefði í för með sér 25-30% tekju­skatt auka­lega eða rúm­lega 30% trygg­inga­gjald.

Borg­ara­laun

Borg­ara­laun byggj­ast á svipuðum hug­mynd­um og gegn­um­streymis­kerfi líf­eyr­is­sjóða. Sá er þó mun­ur­inn að þar er ekki gert ráð fyr­ir að nokk­ur þurfi að vinna, nema þeir sem eru svo vit­laus­ir að skilja ekki að þeir eru jafn sett­ir með borg­ara­laun og at­vinnu­tekj­ur. Hver á að borga, ef all­ir hafa vit­glóru? Það verða bara vit­leys­ing­ar sem vinna.

Pírat­ar eru að eðlis­fari lat­ir og borg­ara­laun kunna að henta þeim vel. Þeir taka sófa fram yfir vinnu.

Skatt­lagn­ing líf­eyristekna

Fram til þessa hafa all­ar ráðstaf­an­ir varðandi elli­líf­eyri al­manna­trygg­inga byggst á því að skerða líf­eyri til þeirra sem hafa tekj­ur af ein­hverju tagi. Þá er átt við at­vinnu­tekj­ur, líf­eyris­tekj­ur eða fjár­eigna­tekj­ur! Allt er lagt að jöfnu við skerðing­ar, með þeim af­leiðing­um að frjáls sparnaður er gerður lítt eft­ir­sókn­ar­verður, jafn­vel skaðleg­ur.

Þeim, er þetta rit­ar, finnst eðli­legt að komið sé til móts við kon­una, sem fjallað er um hér að fram­an, með því að skatt­leggja líf­eyris­tekj­ur með öðru og lægra skatt­hlut­falli en launa­tekj­ur og þá án til­lits til þess hvort líf­eyr­isþegi hafi launa­tekj­ur. Skatt­lagn­ing fjár­eigna­tekna er ann­ar kafli!

Hví að skatt­leggja sér­stak­lega?

Það er ým­is­legt sem mæl­ir með sér­tækri skatta­legri meðferð á líf­eyris­tekj­um ein­stak­linga.

Fyrsta ástæðan er sú að líf­eyris­tekj­ur eru tekj­ur af þvinguðum sparnaði. Það er eðli­legt að ein­stak­ling­ur fái umb­un fyr­ir þving­un.

Önnur ástæðan er sú að líf­eyris­tekj­ur eiga að hluta til upp­runa sinn í ávöxt­un og verðbót­um. Það er eðli­legt að veita umb­un fyr­ir sparnað.

Þriðja ástæðan er sú að það er eðli­legt að þeir sem hafa greitt skil­merki­lega í líf­eyr­is­sjóði alla sína starfsævi og þurfa síður eða ekki bæt­ur frá al­manna­trygg­ing­um fái nokkra umb­un fyr­ir þann sparnað, sem greiðslur þeirra í líf­eyr­is­sjóði eru fyr­ir al­manna­trygg­ing­ar. Hafa má í huga að það er fólkið á vinnu­markaði sem stend­ur und­ir bót­um al­manna­trygg­inga. Bæt­ur al­manna­trygg­inga eru í raun ósjálf­bært gegn­um­streymis­kerfi.

Fjórða ástæðan fyr­ir lægri skatt­lagn­ingu líf­eyristekna er að með því er verið að koma til móts við all­ar þær skerðing­ar sem leitt hafa til óánægju og gremju. Vera má að breytt skatt­lagn­ing leiði ekki til ánægju!

Ann­ar ábati rík­is­sjóðs

Það er einnig ábati fyr­ir rík­is­sjóð að efla vilja til líf­eyr­is­sparnaðar því líf­eyr­isþegar greiða af líf­eyris­tekj­um sín­um fyr­ir kostnað á dval­ar- og hjúkr­un­ar­heim­il­um. Auðvitað er það mis­mun­un til viðbót­ar við skerðing­ar á bót­um al­manna­trygg­inga.

Ann­mark­ar á tekju­trygg­ingu

Það er eðli­legt að lög­gjaf­inn kanni leiðir til þess að kom­ast út úr þeirri rök­leys­is­gildru sem hugs­un­in að baki tekju­trygg­ingu hef­ur í för með sér. Tekju­trygg­ing get­ur leitt til fá­tækt­ar­gildru í versta falli, en að því var ekki stefnt.

Önnur leið til að losna úr rök­leysu­gildru tekju­trygg­ing­ar er að efla frjáls­an sparnað með því að meðhöndla fjár­eigna­tekj­ur á þann veg að ein­ung­is raun­vext­ir leiði til skerðing­ar.

Senni­lega er ekk­ert sem bæt­ir vel­ferð eldri borg­ara jafn mikið og frjáls sparnaður.

Sú góða ídea að ger­ast stór­huga í sparnaði ger­ir ekki bet­ur en vel, og virðist oft fara illa.

Skáldið

Eins og skáldið sagði:

Til­ver­an er sem einn túkall,

túkall sem maður fær.

Ég fékk hann til láns af láni

hjá lít­illi stúlku í gær.

Og mun ekki greiða hann að ei­lífu amen.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. október 2020.