Óli Björn

Það skiptir máli hver er við stýrið

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Kannski er það ósann­gjarnt að halda því fram að umræða um stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra í liðinni viku hafi verið leiðin­leg. Von­andi höfðu ein­hverj­ir nokkra skemmt­un af henni. En hafi ein­hverj­ir beðið spennt­ir eft­ir að fá skýra sýn á stefnu stjórn­ar­and­stöðunn­ar, ekki síst í glím­unni við efna­hags­leg­ar þreng­ing­ar vegna kór­ónu­veirunn­ar, hef­ur sá hinn sami orðið fyr­ir von­brigðum. Ekk­ert nýtt, aðeins göm­ul upp­færð hand­rit og inni­halds­laus slag­orð. Leik­ur­inn var end­ur­tek­inn síðasta mánu­dag þegar fyrsta umræða um fjár­lög kom­andi árs fór fram.

Þegar staðið er frammi fyr­ir mikl­um sam­drætti – þar sem verðmæti þjóðarfram­leiðslunn­ar dregst veru­lega sam­an – reyn­ir á rík­is­stjórn, stjórn­ar­flokka og stjórn­ar­and­stöðu. Rík­is­stjórn und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar valdi leið niður­skurðar og hærri skatta þegar tek­ist var á við djúp­stæða kreppu í kjöl­far falls bank­anna. All­ir þekkja hvaða af­leiðing­ar sú stefna hafði. Eldri borg­ar­ar og ör­yrkj­ar, heil­brigðis­kerfið og mennta­kerfið fundu mest fyr­ir hníf niður­skurðar. Fjár­fest­ing­ar voru fryst­ar. Það var í raun skrúfað fyr­ir súr­efni efna­hags­lífs­ins.

Tekið utan um sam­fé­lagið

Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur tekst á við erfiðleik­ana með allt öðrum hætti. Þrátt fyr­ir sam­drátt aukast út­gjöld á kom­andi ári, fjár­fest­ing­ar eru stór­aukn­ar og skatt­ar lækkaðir. Sem sagt: Í stað þess að minnka súr­efnið er það aukið hressi­lega. Þannig er viðnámsþrótt­ur heim­ila og fyr­ir­tækja auk­inn.

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra var skýr í þess­um efn­um í umræðum um stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra. Lof­orð rík­is­stjórn­ar­inn­ar sé að gera meira en minna:

„Það er mik­il­vægt að taka þannig utan um sam­fé­lagið, bæði fólk og fyr­ir­tæki, að þau kom­ist hratt á fæt­urna aft­ur þegar glaðnar til. Að við töp­um ekki verðmæt­um að óþörfu, að hjarta líf­væn­legr­ar starf­semi geti haldið áfram að slá. Án at­vinnu­lífs­ins verður eng­in viðspyrna. Án at­vinnu­lífs­ins eru eng­in störf, hvorki núna né til að snúa aft­ur í. Þess vegna er mik­il­vægt að við ger­um núna það sem hægt er að gera til að milda áfallið og stytta at­renn­una að næsta hag­vaxt­ar­skeiði. Það er okk­ur öll­um því lífs­nauðsyn­legt að at­vinnu­starf­sem­in taki aft­ur við sér. Þeir sem gera lítið úr vanda at­vinnu­lífs­ins eða telja rangt af stjórn­völd­um að standa með fyr­ir­tækj­um skilja ein­fald­lega ekki þetta mik­il­væga sam­band milli þess að sköpuð séu verðmæti í einka­geir­an­um og lífs­kjara okk­ar allra.“

Fjár­lög og stefna í rík­is­fjár­mál­um er tölu­verð jafn­væg­islist, ekki síst í sam­steypu­stjórn þriggja ólíkra flokka. Auðvitað er margt sem sá er hér rit­ar hefði viljað sjá með öðrum hætti, ekki síst þegar kem­ur að tekju­öfl­un­ar­kerfi rík­is­ins og skipu­lagi rík­is­rekstr­ar. En heild­ar­mynd­in er skýr. Góð staða rík­is­sjóðs er nýtt til að bregðast kröft­ug­lega við sam­drætti efna­hags­lífs­ins vegna kór­ónu­veirunn­ar.

34 millj­örðum lægri skatt­ar

Þeim sem eru óþol­in­móðir finnst oft ganga hægt að létta skatt­byrði launa­fólks og fyr­ir­tækja. Oft er varn­ar­bar­átt­an erfið. Rík­is­stjórn­in hef­ur hins veg­ar fylgt þeirri skýru stefnu að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur al­menn­ings (ekki síst þeirra lægst launuðu) og styrkja sam­keppn­is­stöðu at­vinnu­lífs­ins. Þannig lækka álög­ur var­an­lega á kom­andi ári um 34 millj­arða króna. Hlut­fall skatt­tekna og trygg­inga­gjalds af vergri lands­fram­leiðslu hef­ur lækkað hressi­lega á kjör­tíma­bil­inu eins og sést á meðfylgj­andi mynd.

Mest mun­ar um þær skatt­kerf­is­breyt­ing­ar sem gerðar hafa verið á tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga sem kem­ur að fullu til fram­kvæmda í byrj­un kom­andi árs. Breyt­ing­arn­ar tryggja 21 millj­arðs króna lækk­un tekju­skatts á ári auk tveggja millj­arða sér­stakr­ar hækk­un­ar per­sónu­afslátt­ar á síðasta ári. Lækk­un­in kem­ur fyrst og fremst þeim tekju­lægri til góða og munu ráðstöf­un­ar­tekj­ur þeirra aukast um rúm­lega 120 þúsund krón­ur á ári.

Alls nem­ur lækk­un trygg­inga­gjalds um átta millj­örðum á ári en stefnt er að enn frek­ari lækk­un (tíma­bund­inni) til að mæta áhrif­um samn­ings­bund­inna launa­hækk­ana á al­menn­um vinnu­markaði. Lækk­un er áætluð um fjór­ir millj­arðar sem þýðir að trygg­inga­gjald á kom­andi ári verður um 12 millj­örðum lægra en það hefði orðið að óbreyttu.

Áhrif sjálf­virkr­ar sveiflu­jöfn­un­ar á tekj­ur rík­is­ins eru mik­il en auk þess hafa stjórn­völd lækkað álög­ur um rúma 17 millj­arða með bein­um aðgerðum. Þar veg­ur full end­ur­greiðsla virðis­auka­skatts vegna vinnu við íbúðar­hús­næði þungt.

Gleði hinna óþol­in­móðu

Það er sér­stak­lega ánægju­legt að stefnt er að því að stíga fyrsta skref í að lækka erfðafjárskatt með því að hækka frí­tekju­mark úr 1,5 millj­ón­um í fimm millj­ón­ir króna. Þessi lækk­un gagn­ast hlut­falls­lega best eignam­inni búum. Lækk­un er í anda frum­varps þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins um lækk­un þessa órétt­láta skatts, ekki síst á eign­ir launa­fólks. Fjár­málaráðherra hef­ur einnig boðað um tveggja millj­arða lækk­un á fjár­magn­s­tekju­skatti með end­ur­skoðun á skatt­stofni. Útfærsl­an ligg­ur ekki fyr­ir, en hún skipt­ir miklu.

Með því að auka skatta­lega hvata fyr­ir­tækja og ein­stak­linga verður styrk­ari stoðum rennt und­ir starf­semi al­manna­heilla­fé­laga. Þannig stytt­ist í að gam­all draum­ur þess er hér skrif­ar og margra annarra ræt­ist. Gert er ráð fyr­ir að vegna þessa verði „tekjutap“ rík­is­sjóðs á næsta ári um 2,1 millj­arður.

Og við þessi óþol­in­móðu get­um ekki annað en glaðst yfir að rík­is­stjórn­in stefni að því að inn­leiða skatta­lega hvata til að örva þátt­töku al­menn­ings í at­vinnu­líf­inu með kaup­um á hluta­bréf­um. Þetta er í sam­ræmi við frum­varp sem þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins lögðu fram á síðasta ári um skattafrá­drátt vegna hluta­bréfa­kaupa. Aukn­ar íviln­an­ir (hvat­ar) vegna rann­sókn­ar og þró­un­ar eru af sama meiði en gert er ráð fyr­ir að þær hækki í sjö millj­arða á kom­andi ári. Áætluð fram­lög til ný­sköp­un­ar­mála eru 25 millj­arðar sem er um fimm millj­arða hækk­un milli ára.

Súr­efnið er ekki aðeins aukið með lægri álög­um held­ur verður fjár­fest­ing rík­is­ins á kom­andi ári í sögu­legu há­marki eða um 111 millj­arðar króna. Stærsta ein­staka fjár­fest­ing­ar­verk­efnið er bygg­ing nýs Land­spít­ala. Í grein­ar­gerð fjár­laga­frum­varps­ins er bent á að fram­lög til ým­issa fjár­fest­inga auk­ist um ríf­lega 36 millj­arða frá fjár­lög­um yf­ir­stand­andi árs. „Aukn­ing­in á milli ára skýrist að miklu leyti af mót­væg­is­ráðstöf­un­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar og þeirri stefnu­mörk­un stjórn­valda að styðja við hag­kerfið þar til at­vinnu­lífið hef­ur tekið við sér, m.a. með sér­stöku fjár­fest­inga­átaki í innviðum, hug­viti og þekk­ingu.“

Stund­um þakk­ar maður fyr­ir

Um 60% af út­gjöld­um rík­is­sjóðs er varið til vel­ferðar-, heil­brigðis- og mennta­mála. Á nær öll­um sviðum verða út­gjöld auk­in, þrátt fyr­ir erfiða stöðu. Þannig hækka fram­lög til heil­brigðismála á næsta ári um ríf­lega 15 millj­arða að frá­töld­um launa- og verðlags­breyt­ing­um. Um 10,5 millj­arða hækk­un verður á fram­lagi til mál­efna aldraðra og ör­yrkja sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu og gert er ráð fyr­ir að út­gjöld vegna mennta- og menn­ing­ar­mála hækki um tæpa sex millj­arða.

Rík­is­stjórn­in er sem sagt að beita rík­is­fjár­mál­un­um og auðvelda heim­il­um og fyr­ir­tækj­um að veita viðspyrnu á erfiðum tím­um og gera þeim kleift að grípa tæki­fær­in til upp­bygg­ing­ar á ná­inni framtíð. Sundruð stjórn­ar­andstaða legg­ur lítið til annað en upp­boðsmarkað lof­orða þar sem lyk­il­orðin eru: auk­in út­gjöld, hærri skatt­ar og fjölg­un op­in­berra starfa.

Oft þakk­ar maður fyr­ir hverj­ir sitja ekki við stýrið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2020.