„Tölum skýrt og hættum að flækja málin“

„Vel hefur verið haldið um ríkissjóð í tíð Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu og við höfum svigrúm til að takast á við höggið með það að markmiði að vaxa hratt og örugglega út úr kreppunni.

En peningarnir vaxa ekki á trjánum og auðvitað eru fyrir því takmörk hversu lengi og hversu mikið ríkissjóður getur tekið á sig höggið og þar þurfum við í þessum sal að vera á varðbergi.

Hér má umræðan ekki snúast um yfirboð og innantóma frasa heldur raunverulegar skynsamlegar leiðir til að skapa viðspyrnu og draga úr ríkisskuldum um leið og betur árar,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Hrósaði heilbrigðisstarfsfólki

Hún sagði íslensku þjóðina hafa sýnt samstöðu og samkennd og aðlagað sig hratt að nýjum siðum og venjum. Fórnir hafi verið færðar en að kerfin hafi staðist áhlaupin.

„Heilbrigðiskerfið sem mikið hefur reynt á hefur svo sannarlega staðið undir álaginu með undraverðum hætti.  Heilbrigðisstéttin sýndi sem aldrei fyrr hvers hún er megnug, breytti og aðlagaði þjónustuna að stöðunni.

En það komu fleiri að. Íslensk erfðagreining, einkafyrirtæki sem byggir á þekkingu og vísindum hefur aðstoðað við að greina sýni og hvergi í heiminum er jafn góð yfirsýn yfir stöðu og þróun veirunnar og hér á landi. Vísindin eru okkur mikilvæg og þarna sannaðist það sem aldrei fyrr,“ sagði Bryndís.

Hún minnti á að öll él styttir upp um síðir og minnti á að þrátt fyrir allt hefðum við í þessu ástandi lært ýmislegt og notað það til að gera samfélagið enn betra.

„Hér þarf að tryggja aftur heilbrigt, opið og öruggt samfélag. Við þurfum að vernda störf, og gefum atvinnulífinu tækifæri til að skapa nýstörf. Gefum fólkinu í landinu frelsi til að skapa sín eigin tækifæri. Það er stefna ríkisstjórnarinnar,“ sagði Bryndís.

Ísinn á Norðurskautinu aldrei mælst minni

Bryndís gerði loftslagsmálin að umtalsefni.

„Grænlandsjökull bráðnar nú sem aldrei fyrr og snjókoma, í dag og framvegis, vegur ekki lengur upp á móti bráðnuninni jafnvel þótt hlýnun jarðar stöðvaðist í dag. Ísinn á Norðurskautinu hefur aldrei mælst minni og á aðeins örfáum árum hefur íshellan minnkað um flatamál sem nemur Frakklandi, Spáni, Þýskalandi Póllandi og Ítalíu samanlagt.

Ríkisstjórnin hefur þegar sett þessi mál á oddinn – aðgerðir til að mæta loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfið. Metnaðarfullar, raunhæfar og vel fjármagnaðar áætlanir um kolefnishlutleysi eru skýr merki um það. Loftlagsbreytingar hafa mikil áhrif á að heilbrigði hafsins, súrnun sjávar og fiskgengd við þurfum að rannsaka betur og vita hverju getum við átt von á.

Við þurfum að gæta að þeirri verðmætu matarkistu sem býr í hafinu í kringum okkur – fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Bryndís.

Hún sagði mikilvægt að búa okkur undir þær breytingar sem eru óhjákvæmilegar og munu verða á umhverfinu. Hún sagði mikilvægt að tryggja að innviðir eins og hafnir, vegir, raflínur, virkjanir, brýr og fráveitur standist þann ágang sem loftslagsbreytingum fylgja þar sem allra veðra sé von.

„Tölum skýrt, hættum að flækja málin og einblínum á raunhæfar og sjálfbærar lausnir. Hugvit mannsins á sér engin takmörk virkjum þetta hugvit umhverfinu og samfélaginu öllu til góða,“ sagði Bryndís.

Ræðu Bryndísar í heild sinni má finna hér á vef Alþingis.