„Það sem ég vil fá aftur er næg vinna, óheft samskipti og heilsufarslegt öryggi. Hversdagslíf sem að gengur eðlilega fyrir sig eins og við erum vön, þar sem fólk er ekki sent í sóttkví eftir að hafa farið með barnið sitt á leikskólann eða þar sem þarf að sigla í land með fullan bát af veikum sjómönnum.
En það sem ég vil að breytist það er fjölbreytni atvinnulífsins. Fleiri stoðir, áhersla á þekkingu og atvinnugreinar sem eru ekki eins viðkvæmar fyrir sveiflum náttúrunnar, – jafnvel dyntum náttúrunnar – og þær sem við treystum svo mjög á nú. Ég vil sjá veg rótgróinna stoða sem mestan, að ferðaþjónusta blómstri, útvegurinn afli vel og álframleiðslan verði greidd sanngjörnu verði eins og allt sem að kemur úr orkufrekum iðnaði og standist samkeppni,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í umræðum á Alþingi í kvöld um stefnuræðu forsætisráðherra.
Ástandið er tímabundið
Hann sagði mikilvægt að koma þeim skilaboðum skýrt til skila að ástandið væri tímabundið.
„Það er mikilvægt að taka þannig utan um samfélagið, bæði fólk og fyrirtæki, að þau komist hratt á fæturna þegar aftur glaðnar til. Að við töpum ekki verðmætum að óþörfu, að hjarta lífvænlegrar starfsemi geti haldið áfram að slá.
Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna. Án atvinnulífsins eru engin störf, hvorki núna né til þess að snúa aftur í. Þess vegna er mikilvægt að við gerum núna það sem hægt er að gera til að milda áfallið og stytta atrennuna að næsta hagvaxtarskeiði.
Það er okkur öllum því lífsnauðsynlegt að atvinnustarfsemin taki aftur við sér. Þeir sem gera lítið úr vanda atvinnulífsins eða telja rangt af stjórnvöldum að standa með fyrirtækjum skilja einfaldlega ekki þetta mikilvæga samband milli þess að sköpuð séu verðmæti í einkageiranum og lífskjara okkar allra,“ sagði Bjarni.
Hann sagði ríkisstjórnina gera það sem í hennar valdi stæði til að lífið í landinu geti gengið sinn vanagang. Að opinber þjónusta sé ekki skert heldur sé staðinn vörður um hana þó það þýði hallarekstur um tíma.
Það verður Ísland í uppfærslu 2.0
Bjarni sagði hallarekstur við þessar aðstæður ekki tapað fé, honum væri m.a. varið til að standa með heimilunum og styðja fyrirtæki í gegnum erfiða tíma, að efla innlenda framleiðslu, að fjárfesta í betri tækni, sterkari innviðum, styðja rannsóknir, þróun og nýsköpun. Að hraða orkuskiptum og ná markmiðum í loftslagsmálum, að lækka skatta og tryggja skattalegar ívilnanir til að örva fjárfestingu þegar hana skorti sárlega.
„Þetta gerum við best með beinum stuðningi, með lægri álögum, með því að láta ríkissjóð bera auknar byrðar, með grænum lausnum, nýjum hugmyndum og með því að taka höndum saman um að koma sterkari út úr þessum vanda. Við tefldum fram aðgerðum undir merkjum verndar, varna og viðspyrnu í vor, en við verðum líka að sækja fram, verðum að líta á þetta sem tækifæri til að uppfæra Ísland. Tæknivæddara, skilvirkara, grænna, sanngjarnara og kraftmeira samfélag. Það verður Ísland í uppfærslu 2.0,“ sagði Bjarni.
Ræðu hans í heild má finna hér á vef Alþingis.