Áslaug Arna um málefni útlendinga

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni á hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins sem finna má á YouTube, Spotify og helstu efnisveitum hlaðvarps en hlusta má á þáttinn hér.

Málefni hælisleitenda komast í fréttirnar reglulega en skemmst er að minnast máls þar sem fjölskylda frá Egyptalandi fékk dvalarleyfi eftir að hún hafði farið í felur til að forðast brottvísun. Áslaug Arna hefur sem dómsmálaráðherra boðað að málið kalli á að kerfið sé skoðað í kjölfarið. Áslaug lagði reyndar í vor fram frumvarp til breytinga á útlendingalögum en efni þess má skipta í þrennt; það snýst um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi og atvinnuréttindi. Tilgangurinn er að hraða málsmeðferð, það er að tryggja að allir fái skjótari úrlausn sinni mála.

Áslaug Arna ræddi málefni útlendinga í víðara samhengi og hún segir að Ísland vilji vera opið og fjölbreytt samfélag. Áherslan sé að veita þeim forgang sem mest þurfa á vernd að halda. Hún bendir á að margt hafi tekist afar vel í málefnum flóttafólks og skýrði margt í ferlinu sem fer af stað þegar fólk kemur hingað til lands í leit að hæli.