Stöndum vörð um fæðingarorlofskerfið

Vilhjálmur Árnason alþingismaður:

Fjöl­skyld­an er mik­il­væg­ust hverj­um og ein­um og staða henn­ar skipt­ir því mestu hvað varðar gæði þess sam­fé­lags sem við búum í. Leyfi ég mér að full­yrða að stærsta stund hverr­ar fjöl­skyldu er þegar fjölg­ar í fjöl­skyld­unni með fæðingu barns. Fjöl­skylda er fal­legt og gott orð sem verður að telj­ast nokkuð vel skil­greint. Það breyt­ir því ekki að staða og aðstæður hverr­ar fjöl­skyldu eru mis­mun­andi og þar af leiðandi fjöl­marg­ar nýj­ar aðstæður sem skap­ast á hverju heim­ili við fæðingu barns. Við erum öll sam­mála um að ávallt skal gera það sem er barn­inu fyr­ir bestu og höf­um við geng­ist und­ir alþjóðaskuld­bind­ing­ar og inn­leitt í ís­lensk lög að það sem er barn­inu fyr­ir bestu eigi að ráða för.

Mark­miðinu um hvað barn­inu er fyr­ir bestu verður að mínu mati náð með því að virða grund­vall­ar­rétt hverr­ar fjöl­skyldu, sem er sjálf­stæði fjöl­skyld­unn­ar og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur henn­ar. Það er eng­inn sem þekk­ir aðstæður bet­ur til að hægt sé að meta hvað sé barni fyr­ir bestu og fjöl­skyld­unni allri en ein­mitt fjöl­skyld­an sjálf. Það er því með ólík­ind­um að starfs­hóp­ur og í fram­haldi fé­lags- og barna­málaráðherra hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að það sé barni fyr­ir bestu að þrengja tíma­bil töku fæðing­ar­or­lofs niður í 18 mánuði, skipta mánuðum jafnt á milli for­eldra, sex og sex mánuði, og hafa aðeins einn mánuð af tólf fram­selj­an­leg­an á milli for­eldra. Frum­varpið er nú til um­sagn­ar á sam­ráðsgátt stjórn­valda.

Með þess­um til­lög­um er búið að skerða frelsi fjöl­skyld­unn­ar al­gjör­lega og draga úr mögu­leik­um hverr­ar fjöl­skyldu til að bregðast við aðstæðum hverju sinni svo hægt sé að mæta þörf­um og hag barns­ins. Sem dæmi sýn­ir reynsla frá hinum ríkj­um Norður­land­anna okk­ur að svona þröngt fyr­ir­komu­lag kem­ur sér hvað verst fyr­ir tekju­lægri fjöl­skyld­ur, þær sem mega síst við fjár­hags­leg­um áföll­um í þessu sam­bandi. Til­lög­urn­ar eins og þær eru fram sett­ar munu ekki auka lík­urn­ar á að barnið fái fyrstu 12 mánuðina með for­eldri sínu, þar sem hætt er við að svona marg­ir mánuðir bundn­ir á hvort for­eldri verði til þess að enn hærra hlut­fall rétt­ind­anna falli niður ónýtt.

Þess­ar til­lög­ur eru aðför að því góða fæðing­ar­or­lofs­kerfi sem við höf­um byggt upp hér á landi og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur ávallt verið stolt­ur af. Fæðing­ar­or­lofs­kerfið er ein fyrsta og um leið öfl­ug­asta jafn­rétt­is­lög­gjöf sem fram hef­ur komið hér á landi. Mik­il­vægi fæðing­ar­or­lofs­kerf­is­ins í jafn­rétt­is­mál­um verður ekki skert að neinu leyti þótt áfram verði þrír mánuðir fyr­ir hvort for­eldri og hinum sex ráðstafað af fjöl­skyld­unni enda mun at­vinnu­rek­andi aldrei vita fyr­ir fram hvort for­eldrið mun vera leng­ur í fæðinga­or­lofi.

Stönd­um vörð um barnið og fjöl­skyld­una með því að treysta fjöl­skyld­unni fyr­ir hlut­verki sínu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2020.