Styttir leiðir fyrir fólk og fyrirtæki

Nýr vefur Ísland.is var kynntur á ráðstefnu Stafræns Íslands í gær 24. september 2020. Honum er ætlað að veita betri stafræna þjónustu og stytta leiðir fyrir fólk og fyrirtæki.

„Við erum öll komin með nóg af gamaldags viðmóti, útprentuðum eyðublöðum og bið eftir afgreiðslu. Og þetta snýst ekki bara um leiðindi og tímasóun. Það hangir fleira á spýtunni. Ég fullyrði að gamaldags og óskilvirk opinber þjónusta grefur almennt undan trausti á hinu opinbera heilt yfir. Og öfugt. Ef fólk upplifir opinbera þjónustu sem örugga, skilvirka, hraða og persónulega þá eykur það trú á opinbera kerfinu í heild,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra við opnun vefjarins.

Hann sagði að það hefði sýnt sig að ánægja með opinberar stofnanir sé að jafnaði mest þar sem frumkvæði hafi verið synt við að innleiða nútímatækni og vinna markvisst að því að greiða leið fólks, en þó án afsláttar af eftirlitshlutverkinu.

„Þannig snýst verkefnið í aðra röndina um traust til hins opinbera. Svo ég orði þetta hreint út: Við viljum fá almennilega þjónustu fyrir skattpeningana okkar,“ sagði Bjarni.

Sjá nánar hér á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.