Samið við lögreglumenn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Þau ánægju­legu tíðindi bár­ust í vik­unni að lög­reglu­menn hefðu samþykkt ný­gerðan kjara­samn­ing milli Lands­sam­bands lög­reglu­manna og samn­inga­nefnd­ar rík­is­ins með mikl­um meiri­hluta at­kvæða. Viðræður höfðu staðið yfir með hlé­um allt frá því í apríl 2019 þegar samn­ing­ar voru laus­ir.

Dóms­málaráðherra hef­ur ekki beina aðkomu að kjara­mál­um lög­reglu­manna en ég hef þó fylgst reglu­lega með viðræðum, fengið um þær upp­lýs­ing­ar og hvatt til þess að samn­ing­ar næðust sem allra fyrst.

Lög­regl­an er ein mik­il­væg­asta stofn­un þjóðfé­lags­ins og er fram­línusveit sem oft tekst á við flók­in verk­efni, t.d. í tengsl­um við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn, enda dæmi um að lög­reglu­menn hafi smit­ast af Covid-19 við skyldu­störf. Það hef­ur því verið afar óþægi­leg til­finn­ing að vita af lög­reglu­mönn­um samn­ings­laus­um í all­an þenn­an tíma. Því ber að fagna að samn­ing­ar hafa náðst.

Samn­ing­ur­inn gild­ir til 2023 og fel­ur m.a. í sér krónu­tölu­hækk­un og nýja launa­töflu á samn­ings­tím­an­um. Þá er hann aft­ur­virk­ur til 1. apríl 2019 sem þýðir að lög­reglu­menn munu njóta al­mennra launa­hækk­ana á tíma­bil­inu. Einnig munu þeir njóta stytt­ing­ar vinnu­vik­unn­ar eins og aðrir launþegar. Sam­hliða, en óháð samn­ingn­um, fékkst jafn­framt botn í langvar­andi deilu samn­ingsaðila um þjálf­un og trygg­ing­ar í tengsl­um við vopna­b­urð lög­regl­unn­ar.

Eitt helsta aðals­merki ís­lensku lög­regl­unn­ar er sú staðreynd að hún er ekki vopnuð við al­menn lög­gæslu­störf. Sér­sveit lög­regl­unn­ar er kölluð út ef grun­ur leik­ur á um að hættu­stigið sé þess eðlis að vopna sé kraf­ist. Þetta und­ir­strik­ar að lög­regl­an er öðru frem­ur í þjón­ustu­hlut­verki og kem­ur fram sem hluti af sam­fé­lag­inu á jafn­ingja­grunni.

Kröf­ur á hæfni lög­regl­unn­ar hafa auk­ist um­tals­vert. Til þess er ætl­ast að hún tak­ist á við sí­fellt flókn­ari og skipu­lagðari brot­a­starf­semi og búi yfir nægi­leg­um styrk til að bregðast við nýj­um og flókn­um verk­efn­um. Hlut­verk lög­regl­unn­ar er að fram­fylgja þeim lög­um sett eru til að tryggja gott og friðsælt sam­fé­lag og ör­yggi borg­ar­anna. Oft við aðstæður þar sem það fólk sem þarf að hafa af­skipti af er í litlu jafn­vægi eða ann­ar­legu ástandi. Krefj­andi ábyrgðar­hlut­verk lög­regl­unn­ar er af þeim sök­um stund­um vanþakkað í hita augna­bliks­ins en er afar mik­il­vægt og þakk­arvert.

Þó svo að kjara­mál lög­regl­unn­ar séu ekki á borði dóms­málaráðherra hef ég engu að síður það hlut­verk að tryggja að lög­regl­an sé fær um að sinna starfi sínu vel, hafi þann aðbúnað sem til þarf, mennt­un, þekk­ingu og þannig mætti áfram telja. Fyr­ir því hef ég beitt mér og mun gera áfram.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2020.