Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að lögreglumenn hefðu samþykkt nýgerðan kjarasamning milli Landssambands lögreglumanna og samninganefndar ríkisins með miklum meirihluta atkvæða. Viðræður höfðu staðið yfir með hléum allt frá því í apríl 2019 þegar samningar voru lausir.
Dómsmálaráðherra hefur ekki beina aðkomu að kjaramálum lögreglumanna en ég hef þó fylgst reglulega með viðræðum, fengið um þær upplýsingar og hvatt til þess að samningar næðust sem allra fyrst.
Lögreglan er ein mikilvægasta stofnun þjóðfélagsins og er framlínusveit sem oft tekst á við flókin verkefni, t.d. í tengslum við kórónuveirufaraldurinn, enda dæmi um að lögreglumenn hafi smitast af Covid-19 við skyldustörf. Það hefur því verið afar óþægileg tilfinning að vita af lögreglumönnum samningslausum í allan þennan tíma. Því ber að fagna að samningar hafa náðst.
Samningurinn gildir til 2023 og felur m.a. í sér krónutöluhækkun og nýja launatöflu á samningstímanum. Þá er hann afturvirkur til 1. apríl 2019 sem þýðir að lögreglumenn munu njóta almennra launahækkana á tímabilinu. Einnig munu þeir njóta styttingar vinnuvikunnar eins og aðrir launþegar. Samhliða, en óháð samningnum, fékkst jafnframt botn í langvarandi deilu samningsaðila um þjálfun og tryggingar í tengslum við vopnaburð lögreglunnar.
Eitt helsta aðalsmerki íslensku lögreglunnar er sú staðreynd að hún er ekki vopnuð við almenn löggæslustörf. Sérsveit lögreglunnar er kölluð út ef grunur leikur á um að hættustigið sé þess eðlis að vopna sé krafist. Þetta undirstrikar að lögreglan er öðru fremur í þjónustuhlutverki og kemur fram sem hluti af samfélaginu á jafningjagrunni.
Kröfur á hæfni lögreglunnar hafa aukist umtalsvert. Til þess er ætlast að hún takist á við sífellt flóknari og skipulagðari brotastarfsemi og búi yfir nægilegum styrk til að bregðast við nýjum og flóknum verkefnum. Hlutverk lögreglunnar er að framfylgja þeim lögum sett eru til að tryggja gott og friðsælt samfélag og öryggi borgaranna. Oft við aðstæður þar sem það fólk sem þarf að hafa afskipti af er í litlu jafnvægi eða annarlegu ástandi. Krefjandi ábyrgðarhlutverk lögreglunnar er af þeim sökum stundum vanþakkað í hita augnabliksins en er afar mikilvægt og þakkarvert.
Þó svo að kjaramál lögreglunnar séu ekki á borði dómsmálaráðherra hef ég engu að síður það hlutverk að tryggja að lögreglan sé fær um að sinna starfi sínu vel, hafi þann aðbúnað sem til þarf, menntun, þekkingu og þannig mætti áfram telja. Fyrir því hef ég beitt mér og mun gera áfram.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2020.