Hjól verðmætasköpunar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Í ávarpi mínu á Iðnþingi í vik­unni nefndi ég að heims­far­ald­ur­inn hef­ur sett verðmæta­sköp­un ræki­lega á dag­skrá. Það er eng­in ör­ugg formúla til um hár­rétt viðbrögð til að lág­marka skaðann af far­aldr­in­um, en leiðin til að bæta skaðann og rísa aft­ur upp er vel þekkt: verðmæta­sköp­un og ný­sköp­un.

Að finna upp hjólið

Öll þekkj­um við orðatil­tækið: Það er óþarfi að finna upp hjólið.

Reynd­ar tókst sniðugum lög­fræðingi í Ástr­al­íu að fá einka­rétt á hjól­inu árið 2001 – eða því sem hann kallaði í einka­leyf­is­um­sókn sinni: „hring­laga tæki til sam­göngu­nota“. En þetta gerði hann bara í þeim til­gangi að sýna fram á að glæ­nýtt sjálf­virkt einka­leyf­a­kerfi stjórn­valda væri meingallað og auðvelt að svindla á því!

Ef við lít­um fram hjá þess­ari skemmti­legu und­an­tekn­ingu eig­um við alls ekki að finna upp hjólið. Við eig­um ekki að strita við að leysa hluti sem er búið að leysa. Við eig­um að nýta þær lausn­ir sem þegar hafa sannað sig.

En þetta þýðir ekki að við get­um lagt árar í bát. Við þurf­um stöðugt að leit­ast við að finna upp nýja hluti – nýj­ar lausn­ir – næsta hjól.

Sú viðleitni er lyk­ill­inn að verðmæta­sköp­un.

Það vill svo til að við vit­um hvað þarf til að skapa efna­hags­leg verðmæti í frjálsu sam­fé­lagi. Hug­vit, einkafram­tak, rétt­ar­ríki, frjáls viðskipti. Þetta eru þeir þætt­ir sem verða að vera til staðar. Ef ein­hver þess­ara lyk­ilþátta er ekki fyr­ir hendi er úti­lokað að hjól verðmæta­sköp­un­ar og hjól at­vinnu­lífs­ins geti snú­ist.

Við þekkj­um hvað þarf til. Með öðrum orðum: Hjól at­vinnu­lífs­ins eru hjól sem við þurf­um ekki að finna upp.

Að há­marka af­köst­in

En þrátt fyr­ir það er ekki öll­um spurn­ing­um svarað um það hvernig við lát­um þessi hjól snú­ast með sem mest­um af­köst­um; með sem mest­um ávinn­ingi; með sem mest­um ár­angri fyr­ir mark­mið okk­ar.

Þetta var reynd­ar líka raun­in með hjólið þegar það var fyrst fundið upp. Mönn­um datt ekki strax í hug að setja það und­ir vagna og nýta það í sam­göng­ur. Til þess þurfti viðbót­ar-hug­vit og vinnu. Það þurfti að smíða vagna. Og til að hægt væri að nota vagn­ana þurfti að leggja vegi.

Á ná­kvæm­lega sama hátt er ekki endi­lega aug­ljóst hvernig við virkj­um best sköp­un­ar­kraft hug­vits, einkafram­taks og frjálsra viðskipta til verðmæta­sköp­un­ar.

Ein stærsta spurn­ing­in snýst um hlut­verk rík­is­valds­ins.

Hlut­verk rík­is­ins

Við sem erum hægra meg­in í stjórn­mál­um höf­um litið svo á að hlut­verk rík­is­valds­ins sé aðallega að leggja breiða og greiða vegi til að hjól verðmæta­sköp­un­ar og at­vinnu­lífs geti runnið greiðlega áfram, með sem minnstri mót­stöðu. Þetta ger­um við með því að tryggja at­hafna­frelsi, lág­marka skriffinnsku og skri­fræði, og síðast en ekki síst með því að halda skatt­lagn­ingu í hófi.

Við höf­um þó líka viður­kennt að ríkið eigi að gera meira en bara að ryðja slík­um hindr­un­um úr vegi. Ríkið eigi líka að glæða og örva gang­verkið með bein­um hætti og bein­lín­is ýta á eft­ir vagn­in­um.

Þetta ger­um við til dæm­is með því að fjár­magna mennta­kerfið, eina mik­il­væg­ustu grunnstoð hug­vits, og með því að styðja við rann­sókn­ir og þróun, bæði í gegn­um há­skóla, annað stuðnings­um­hverfi, sam­keppn­is­sjóði og með bein­um end­ur­greiðslum á kostnaði fyr­ir­tækja við rann­sókna- og þró­un­ar­starf.

Í ein­staka til­vik­um beit­um við íviln­un­um eða rík­is­styrkj­um til ákveðinna at­vinnu­greina, ef al­veg sér­stök rök mæla með því.

Á sama tíma og ég tel að þessi stuðning­ur geti verið skyn­sam­leg­ur, þá eig­um við líka alltaf að hafa aug­un á þeirri staðreynd, að áhrif­in af mikl­um um­svif­um rík­is­ins geta verið fljót að breyt­ast úr því að glæða yfir í það að kæfa.

Góð þróun?

Ég hef beitt mér fyr­ir því að ríkið styðji í aukn­um mæli við ýmsa starf­semi, ekki síst á sviði rann­sókna og þró­un­ar, frum­kvöðla­starf­semi og ný­sköp­un­ar. En ég hef líka beitt mér fyr­ir af­námi styrkja á þessu sviði og end­ur­skoðun á stofnanaum­hverf­inu með það fyr­ir aug­um að laga það að nýj­um kröf­um.

Ég hef al­mennt efa­semd­ir um mik­inn rík­is­stuðning við at­vinnu­starf­semi en við sjá­um vax­andi þróun í þá átt sem setja má spurn­ing­ar­merki við. Styrkja­kerfi til fram­leiðslu kvik­mynda og sjón­varps­efn­is hef­ur nú þegar verið inn­leitt í út­gáfu á tónlist og nú síðast í bóka­út­gáfu, og fjöl­miðlar eru líka komn­ir á styrki. Mér finnst ég heyra of marg­ar radd­ir úr at­vinnu­líf­inu um sí­fellt meiri rík­is­stuðning, og ég hlýt að spyrja mig hvert þessi þróun muni leiða.

Það er full ástæða til að spyrja hvort við séum að stefna í þá átt að áhersla rík­is­ins verði í of mikl­um mæli á að ýta vagn­in­um, frem­ur en að taka hindr­an­ir úr veg­in­um.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 20. september 2020.