Valdahroki vinstri manna í skólamálum

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Að öllu jöfnu eru það fyrst og síðast foreldrar og forráðamenn barna sem standa vörð um velferð þeirra og hagsmuni. Þessir sömu foreldrar og forráðamenn bera ábyrgð á menntun og uppeldi barna sinna og loks greiða þessir foreldrar og forráðamenn fyrir menntun barnanna með sköttum sínum.

Vegna þessara þriggja, almennu staðreynda, eru það sjálfsögð, pólitísk grundvallarréttindi, að foreldrar og forráðamenn barna hafi almenn áhrif á þá skólastefnu sem sveitarfélög marka börnum þeirra. Í nútíma lýðræðissamfélagi er slíkt gert með virku upplýsingaflæði, tillögu- og andmælarétti foreldra og öðru virku samráði yfirvalda og foreldra. Yfirvöld sveitarfélaga sem hundsa slíkan grundvallarrétt, brjóta á sjálfsögðum rétti barna og forráðamanna þeirra og vinna gegn lýðræðislegri þróun samfélagsins. Þetta er því miður lóðið þegar kemur að stefnumótun borgarstjórnarmeirihlutans í skólamálum Reykjavíkur.

Meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur hafa farið fram með offorsi og valdahroka í þessum efnum enda einkenndust allar breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi af samráðsleysi. Skólastarf í Grafarvogi fór af stað með breyttum hætti nú í haust vegna lokunar Korpuskóla og sameininga við aðra skóla í hverfinu. Þegar um er að ræða jafn róttækar breytingar á skólahaldi og sameiningar skóla hefur í för með sér, er það sjálfsögð lýðræðiskrafa að upplýsingaflæði og samráð við foreldra sé gott, og að þeir hafi vettvang til að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á skólastarfinu á framfæri. Engu að síður voru þessar ákvarðanir teknar án almenns samráðs og í mikilli andstöðu við íbúa.

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir foreldra um fund um stofnun Nýsköpunarskólans og þær breytingar sem breytt skólahald hefði í för með sér varð ekki af slíkum fundi fyrir skólabyrjun. Sömuleiðis var tillaga þess efnis sem ég lagði fram í skóla- og frístundaráði 23. júní sl virt að vettugi. Því miður virðist sem skólayfirvöld í borginni hafi engu gleymt og ekkert lært af fyrri misheppnuðu skólasameiningum í Grafarvogi. í ljósi þess lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins enn og aftur til í skóla- og frístundaráði, í síðustu viku, að boðað yrði til almenns opins fundar með foreldrum þar sem  farið yrði yfir öll áform sem kynnt voru og þau fyrirheit sem gefin voru í aðdraganda breytinganna.  Þessi áform snúa að skipulagi að nýju og breyttu skólastarfi, samgöngumálum og umferðaröryggismálum.

Það er mikilvægt að framkvæmdum við samgöngubætur  sem lofað var verði hraðað sem kostur er til að tryggja umferðaröryggi nemenda sem þurfa að  fara yfir fjölfarnar og hættulegar umferðargötur á leið sinni í skóla, að skólaakstur gangi hnökralaust fyrir sig og að nemendum standi til boða akstur í frístundir, enda um langan veg að fara. Þá er mikilvægt að búið sé að koma upp nauðsynlegri umgjörð um breytt skólahald, þar með talið nauðsynlegum tækja- og tæknibúnaði fyrir Nýsköpunarskólann til að uppfylla þau markmið sem sett voru með stofnun skólans.

Því miður hefur staðið á efndum í þessum efnum. Borgaryfirvöldum ber að sýna íbúum Grafarvogs þá lágmarks virðingu að boða til opins fundar, skýra þessar vanefndir, upplýsa foreldra um skólastarfið og taka upp alvöru samráð við íbúa en ekki sýndarsamráð.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 16. september 2020.