Rósa Guðbjartsdóttir gestur í Pólitíkinni

Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri í Hafnarfirði var gestur í 28. þætti Pólitíkurinnar. Þáttinn má nálgast hér.

Þar ræddi hún málefni bæjarins, en Rósa hefur setið í bæjarstjórn síðan 2006 og verið oddviti flokksins síðan 2014. Hún settist í stól bæjarstjóra vorið 2018. Mikil vinna og áhersla hefur verið lögð á það í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði síðan 2014 að ná utan um fjármál sveitarfélagins en þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom í meirihluta var skuldaviðmið bæjarins í 180% og bærinn undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Í fjárhagsáætlun þessa árs var gert ráð fyrir að þetta hlutfall væri komið niður í 105% þó það gangi tæplega eftir vegna áhrifanna af COVID-19 en einstakur árangur þó. Rósa ræddi hvernig tekist hafi verið á við þennan vanda, en á sama tíma verið framkvæmt án lántöku og skattar jafnframt lækkaðir. Hún segir þetta vera eitt af stærstu málum flokksins í meirihluta síðustu árin og í sinni oddvitatíð, enda hangi önnur verkefni saman við góða fjárhagsstöðu.

Rósa nefndi undirbúning við ný hverfi í Hafnarfirði sem eru tilbúin, ræddi heilsustefnu, fjölskyldustefnu og íþróttastarfið í bænum sem er öflugt svo fátt eitt sé nefnt. Þá kom fram að Hafnarfjörður býður upp á nægt framboð lóða fyrir atvinnustarfsemi og álögur á atvinnustarfsemi eru með því lægsta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu.