Gerum meira en minna. Hlutdeildarlán hitta í mark.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður skrifar:

Afkastamikill þingstubbur var haldinn í síðustu viku og voru þau mál kláruð sem gert hafði verið ráð fyrir á stubbnum og reyndar rúmlega það. Þingstarfið er óhefðbundið í þeim kringumstæðum sem við erum að glíma við sem þjóð og við höfum verið að afgreiða mál í þinginu sem taka mið af breyttum aðstæðum. Þær breytast frá degi til dags en það er gengið vasklega fram og viðbrögðin og aðgerðirnar flestar mælst vel fyrir og virkað vel. Eðlilega ekki allar aðgerðirnar en ríkisstjórnin hefur fylgt því að gera frekar meira en minna og almennt er mikil ánægja með það. Umræður og skoðanaskipti í þinginu hafa nær alltaf verið eðlileg en það skortir á skilning á atvinnulífinu sem er meira en hagtölur á excelskjali eða kannski þá helst að margir þingmenn hafa þar engin tengsl þrátt fyrir margar ræður um atvinnulífið.

Hlutdeildarlán.

Frumvarp félags- og barnamálaráðherra til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 (hlutdeildarlán) er enn eitt dæmið um sókn fyrir fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar árið 2017 var ákvæði að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði. Í aðdraganda kjarasamningsviðræðna veturinn 2018-2019 skipaði félags- og barnamálaráðherra átakshóp sem var ætlað að skoða leiðir til að auka framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Frumvarpið var því liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með lífskjarasamningum.

Það er staðreynd að mikill hluti þess íbúðarhúsnæðis sem hefur verið byggt á undanförnum árum er ekki hagkvæmt fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága. Húsnæðið er dýrt, það er of stórt eða stendur á dýrum byggingasvæðum. Þá standa hagstæðustu vextirnir á lánum til íbúðakaupa í þeim tilfellum einvörðungu fyrir þá kaupendur sem hafa yfir ríflegu eigið fé að ráða. Þeir sem hafa lítið eigið fé eða jafnvel ekkert eru þar af leiðandi álitnir áhættumeiri lánahópur og greiða því gjarnan hærri vexti af lánum sem þeir taka. Allt þetta gerir það að verkum að unga fólkið okkar og tekjulágir, sem eru að taka sín fyrstu skref á fasteignamarkaði eiga oft erfitt með að útvega það fjármagn sem upp á vantar í útborgun. Hlutdeildarlánin mæta því tekjulágum afar vel og hjálpa þeim yfir erfiðasta hjallann í fjármögnun íbúðarkaupa með aðeins 5% eigið fé.

Nýr hópur, mikill áhugi á hlutdeildarláni.

Séreignarstefna Sjálfstæðisflokksins er að allir geti eignast sitt eigið húsnæði og  Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölbreytt og hagkvæmt húsnæðisúrræði fyrir alla. Því skiptir miklu máli að aðgerðir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála stuðli að auknu og jöfnu framboði húsnæðis. Lækkun byggingarkostnaðar næst með lægra lóðaverði og byggingargjöldum sem er markmiðið sem unnið er að.

Með hlutdeildarlánum gefst nú nýjum hópi á fasteignarmarkaði tækifæri til að eignast sína eigin íbúð og fellur því frumvarpið vel að stefnu Sjálfstæðisflokksins í húsnæðimálum að sem flestir eignist sitt eigið húsnæði.

Hlutdeildarlán geta numið 20% af kaupverði íbúðar og eigið fé 5% en tekjumörk einstaklings eru 7.560.000 og hjón 10.560.000 á ári og við það bætist 1.560.000 fyrir hvert barn undir 20 ára. Fyrir þá sem hafa enn lægri tekjur eða einstaklingur með 5.018.000 eða sambýlisfólk með 7.020.000 og barn inna 20 ára 1.560.000 er möguleiki á 30% hlutdeildarláni. Lánið er til 10 ára en hægt að framlengja það þrisvar sinnum í 5 ár eða alls 25 ár. Með þessum tekjumörkum er alveg nýjum hópi fyrstu kaupenda gefið tækifæri til að eignast sína eigin íbúð.

Á næstu 10 árum verða lagðir 40 ma.kr. í hlutdeildarlán, eða 4 ma.kr. á ári og allt að 400 íbúðir byggðar og 20% af þeim á landsbyggðinni.

Hlutdeildarlán er hægt að endurgreiða eftir 10 ár og eftir það veitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kaupendum ráðgjöf um stöðu þeirra og endurgreiðslumöguleika á fimm ára fresti í þrjú skipti. Möguleikinn er því að vera í kerfinu í 25 ár, en reynslan erlendis er að flestir kaupa sig út úr kerfinu eftir fimm til tíu ár vegna bættrar eignar- og fjárhagsstöðu. Hlutdeildarlánin hitta því strax í mark og daginn eftir samþykkt laganna á Alþingi rigndi fyrirspurnum yfir þingmenn og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem veitir lánin.