Óli Björn

Trúin á framtíðina

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Við Íslend­ing­ar höf­um ýmsa fjör­una sopið í efna­hags­mál­um. Engu að síður hef­ur okk­ur tek­ist að byggja hér upp eitt mesta vel­ferðarríki heims. Yf­ir­leitt höf­um við náð vopn­um okk­ar fljótt aft­ur eft­ir áföll, þótt dæmi séu um að það hafi tekið lengri tíma en efni stóðu til vegna rangra aðgerða og ákv­arðana stjórn­valda.

Nýtt upp­gjör Hag­stof­unn­ar á þjóðhags­reikn­ing­um er ekki sér­lega glæsi­legt. Aldrei hef­ur sam­drátt­ur verið meiri en á öðrum fjórðungi árs­ins eða 9,3% frá sama tíma fyr­ir ári. Sér­fræðing­ar Hag­stof­unn­ar benda á að tak­mark­an­ir á „ferðalög­um fólks á milli landa höfðu veru­leg áhrif á bæði inn- og út­flutn­ing þjón­ustu á tíma­bil­inu en í niður­stöðunum gæt­ir einnig fjölþættra áhrifa sam­komu­banns á eft­ir­spurn eft­ir vöru og þjón­ustu af ýmsu tagi hér á landi“. Niður­sveifl­an end­ur­spegl­ast meðal ann­ars í þeirri staðreynd að heild­ar­fjöldi vinnu­stunda dróst sam­an um 11,3% pró­sent.

En þrátt fyr­ir djúpa dýfu á öðrum fjórðungi er út­litið fyr­ir árið í heild sinni ekki eins svart og marg­ir reiknuðu með nokkr­um vik­um eft­ir að far­ald­ur­inn lagðist á okk­ur af full­um þunga. Í nýrri þjóðhags­spá Seðlabank­ans í ág­úst er gengið út frá því að lands­fram­leiðslan drag­ist sam­an um 7% í ár og að at­vinnu­leysi verði um 10% í lok árs­ins. Þetta er nokkuð minni sam­drátt­ur en bank­inn gerði ráð fyr­ir í maí en þar veg­ur þyngst kröft­ugri einka­neysla en bú­ist var við. En síðari hluti árs­ins verður engu að síður erfiður fyr­ir fyr­ir­tæki og heim­ili. Að öðru óbreyttu get­um við gert okk­ur von­ir um nokkuð kröft­ug­an viðsnún­ing á kom­andi ári.

Staðan mis­jöfn

Í Pen­inga­mál­um Seðlabank­ans kem­ur fram að áætlað sé að lands­fram­leiðsla í helstu viðskipta­lönd­um okk­ar hafi dreg­ist sam­an um tæp­lega 13% á öðrum fjórðungi árs­ins. Þetta er mesti sam­drátt­ur á ein­um fjórðungi frá upp­hafi mæl­inga. Vís­bend­ing­ar eru um að alþjóðleg efna­hags­um­svif hafi, eft­ir því sem leið á fjórðung­inn, sótt nokkuð í sig veðrið en að horf­ur fyr­ir seinni hluta árs­ins hafi versnað.

Hag­stof­an birt­ir áhuga­verða mynd af stöðu ein­stakra landa í frétt um upp­gjör þjóðhags­reikn­inga. Þar kem­ur glöggt í ljós að þótt sam­drátt­ur hér á landi mæl­ist sögu­lega mik­ill berj­ast mörg helstu lönd heims við enn dýpri sam­drátt og erfiðleika. Í Evr­ópu­sam­band­inu var sam­drátt­ur lands­fram­leiðslu á öðrum árs­fjórðungi 11,7% frá fyrri fjórðungi. Í Bretlandi var sam­drátt­ur­inn 20,4%, 18,5% á Spáni og 13,8% í Frakklandi. Áhrif kór­ónu­veirunn­ar á efna­hag virðast minnst í Finn­landi, Nor­egi og Lit­há­en. Vert er að hafa í huga að um er að ræða bráðabirgðatöl­ur og set­ur Hag­stofa Íslands þær fram með fyr­ir­vara.

Áhyggju­efni

Ekk­ert sam­fé­lag sæk­ir fram án þess að fjár­festa. Þess vegna er það áhyggju­efni að fjár­fest­ing skuli drag­ast sam­an. Í heild var sam­drátt­ur­inn 18,7% á öðrum árs­fjórðungi borið sam­an við sama tíma­bil á liðnu ári.

Hag­stof­an bend­ir á að þrátt fyr­ir mynd­ar­leg­an vöxt í fjár­fest­ingu hins op­in­bera á sviði vega­fram­kvæmda, hafi sam­drátt­ur í fjár­muna­mynd­un hins op­in­bera á öðrum fjórðungi verið 17,3%. Sé hins veg­ar litið fram hjá fjár­fest­ingu í Herjólfi á síðasta ári jókst fjár­fest­ing rík­is­ins um 15% að raun­gildi. Fjár­fest­ing sveit­ar­fé­laga dróst hins veg­ar sam­an um 9% milli ára og var í heild nokkuð minni á fyrri hluta árs­ins en áætlan­ir sveit­ar­fé­lag­anna gerðu ráð fyr­ir.

Fyr­ir þá sem gera sér grein fyr­ir því að at­vinnu­lífið – fyr­ir­tæk­in í land­inu – skapa þau verðmæti sem okk­ur eru nauðsyn­leg til að standa und­ir vel­ferðarsam­fé­lag­inu, er það sér­stakt áhyggju­efni hve at­vinnu­vega­fjár­fest­ing hef­ur dreg­ist sam­an. Á öðrum árs­fjórðungi minnkaði hún um 17,8% og um 4,7% á fyrstu sex mánuðum árs­ins miðað við sama tíma­bil 2019. Ný tæki­færi og ný störf verða ekki til án fjár­fest­inga. Það er því eitt helsta verk­efni stjórn­valda að örva at­vinnu­vega­fjár­fest­ingu til lengri og skemmri tíma. Á marg­an hátt er um­hverfið hag­stætt í því lág­vaxtaum­hverfi sem við búum við. En óviss­an um þróun efna­hags­mála veld­ur því að fjár­fest­ar halda að sér hönd­um. Skatta­leg um­gjörð skipt­ir einnig miklu. Hár fjár­magn­s­tekju­skatt­ur ýtir a.m.k. ekki und­ir fjár­fest­ingu.

En töl­ur um fjár­fest­ingu – ekki síst fjár­fest­ingu hins op­in­bera – geta verið vill­andi. Auk­in fjár­fest­ing rík­is og sveit­ar­fé­laga get­ur aldrei verið sjálf­stætt mark­mið. Sum­ar fjár­fest­ing­ar eru í eðli sínu þannig að þær kalla hrein­lega á auk­in út­gjöld á kom­andi árum. Aðrar fjár­fest­ing­ar eru hins veg­ar arðsam­ar fyr­ir sam­fé­lagið í heild sinni. Bætt­ar sam­göng­ur eru aug­ljóst dæmi. En arðbær­ar fjár­fest­ing­ar þurfa ekki all­ar að vera í ein­hverju hand­föstu – ein­hverju áþreif­an­legu; veg­um, höfn­um, bygg­ing­um. Fjár­fest­ing í hug­viti og þekk­ingu gef­ur að lík­ind­um meira af sér en flest annað sem við get­um ráðist í og fjár­magnað úr sam­eig­in­leg­um sjóðum. (Raun­ar má færa fyr­ir því rök að við eig­um að hætta að horfa á fram­lög hins op­in­bera til mennta­mála, sem út­gjöld, frem­ur sem fjár­fest­ingu sem eðli­legt er að af­skrifa á 40 árum – á starfsævi hvers ein­stak­lings). Sama gild­ir um fjár­fest­ingu í bættri heilsu lands­manna.

Hag­sýni bú­manns­ins

Jafn­vel þegar glímt er við erfiðleika í efna­hags­líf­inu má ekki leggja til hliðar kröf­una um arðsemi fjár­fest­inga hins op­in­bera. Hið sama á við um sam­eig­in­leg­ar eign­ir okk­ar. Í grein­ar­gerð með breyt­ingu á fjár­mála­stefnu kem­ur fram að sam­an­lagður halli á rík­is­sjóði á þessu og næsta ári verði um 500 millj­arðar króna. Við slík­ar aðstæður horf­ir hag­sýnn búmaður yfir efna­hags­reikn­ing­inn til að átta sig á því hvort ekki leyn­ist þar ým­is­legt sem skyn­sam­legt sé að losa sig við í stað þess að safna skuld­um, sem velt er inn í óvissa framtíð.

Um­fangs­mik­il arðbær op­in­ber innviðafjár­fest­ing er hyggi­leg ekki síst þegar glímt er við sam­drátt í efna­hags­líf­inu. En það er jafn mik­il­vægt að tryggja arðbæra nýt­ingu þeirra eigna sem fyr­ir eru. Ég hef ít­rekað haldið því fram að nauðsyn­legt sé að fram fari umræða og at­hug­un á því hvort og þá hvernig nýt­ing eigna rík­is­ins þjón­ar hags­mun­um lands­manna best. Al­menn­ing­ur ger­ir þá eðli­legu kröfu að dýr­mæt­um skatt­tekj­um sé varið af skyn­semi en ætl­ast einnig til þess að bundn­ir fjár­mun­ir séu nýtt­ir í það sem mik­il­væg­ast er. Á því er mis­brest­ur og hundruð millj­arða liggja í eign­um sem hafa ekk­ert með grunn­skyld­ur rík­is­ins að gera.

Mark­miðið er að fjölga tæki­fær­un­um, bæta lífs­kjör allra og búa í hag­inn fyr­ir framtíðina. Rauði þráður­inn í hug­mynda­bar­áttu okk­ar hægri manna er mann­helgi ein­stak­lings­ins. Við lít­um svo á að and­legt og efna­hags­legt frelsi sé frumrétt­ur hvers og eins. Virðing fyr­ir frumrétt­in­um trygg­ir bet­ur en nokkuð annað vel­sæld sam­fé­laga. Þegar stjórn­völd telja nauðsyn­legt að ganga á þenn­an frumrétt, þó ekki sé nema í tak­markaðan tíma í nafni al­manna­heilla, er nauðsyn­legt að byggt sé á skýr­um laga­leg­um grunni. Al­menn­ing­ur verður að skilja rök­in sem liggja þar að baki og fá skýr­ar upp­lýs­ing­ar um hvenær og und­ir hvaða skil­yrðum höml­um verður aflétt. Ann­ars missa stjórn­völd trú­verðug­leika, samstaða sam­fé­lags­ins brest­ur og aðgerðir til varn­ar al­menn­ingi snú­ast upp í and­hverfu sína. Í stað þess að tak­ast á við ný verk­efni sit­ur sam­fé­lagið í heild sinni með hend­ur í skauti. Fjár­fest­ing – trú­in á framtíðina – guf­ar upp.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. september 2020.