Höfum við efni á þessu öllu?

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Öll höf­um við orðið fyr­ir skakka­föll­um, beint eða óbeint, vegna þeirra efna­hagsþreng­inga sem gengið hafa yfir heim­inn vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. En byrðarn­ar eru misþung­ar – þyngst­ar hjá at­vinnu­rek­end­um og launa­fólki á al­menn­um vinnu­markaði, ekki síst í ferðaþjón­ustu. Heil­brigðar for­send­ur fyr­ir rekstri margra fyr­ir­tækja hafa brostið og við mörg­um blas­ir ekki annað en gjaldþrot. Launa­fólk hef­ur orðið fyr­ir tekjum­issi og marg­ir eru án vinnu. Sveit­ar­fé­lög glíma við erfiðleika, sum al­var­lega. Rík­is­sjóður hef­ur þurft að mæta sam­drætti – út­gjöld auk­ist og tekj­ur lækkað. Á ör­fá­um mánuðum hef­ur staða efna­hags­mála gjör­breyst til hins verra. Í stað hag­vaxt­ar er sam­drátt­ur. Rík­is­sjóður safn­ar skuld­um í stað þess að greiða líkt og gert hef­ur verið á síðustu árum.

Reiknað er með því að halli á rík­is­sjóði (A-hluta) verði um 10% af vergri lands­fram­leiðslu á þessu ári og um 8% á því næsta. Sam­tals verða gjöld rík­is­sjóðs um­fram tekj­ur, að öðru óbreyttu, því um 18% af lands­fram­leiðslu eða rúm­lega 500 millj­arðar króna á tveim­ur árum. Þetta er lít­il­lega lægri fjár­hæð en nem­ur raun­hækk­un út­gjalda hins op­in­bera á síðustu tutt­ugu árum.

Öllum má vera ljóst að for­send­ur gild­andi fjár­mála­stefnu eru brostn­ar og því nauðsyn­legt að breyta henni í sam­ræmi við nýj­an veru­leika. Á grunni fjár­mála­stefn­unn­ar verða fjár­lög fyr­ir kom­andi ár lögð fram á nýju þingi í októ­ber næst­kom­andi. Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, mæl­ir fyr­ir til­lögu að breyt­ing­um á stefn­unni á morg­un, fimmtu­dag. Í grein­ar­gerð seg­ir að mark­mið fjár­mála­stefn­unn­ar á kom­andi árum sé „að veita hag­kerf­inu stuðning til þess að það geti náð vopn­um sín­um að nýju, styðja við þau heim­ili og fyr­ir­tæki sem verða fyr­ir al­var­leg­um búsifj­um vegna áhrifa heims­far­ald­urs­ins og koma í veg fyr­ir að mikið at­vinnu­leysi fest­ist í sessi“. Stefn­an í rík­is­fjár­mál­um leggst þannig á sömu sveif og pen­inga­stefn­an. „Þess­um stuðningi verður viðhaldið þar til at­vinnu­stigið hef­ur hækkað markvert. Aðgerðum rík­is­sjóðs er ætlað að styðja við vaxt­ar­getu hag­kerf­is­ins, m.a. með stór­auk­inni fjár­fest­ingu. Leit­ast verður við að vernda þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur í vel­ferðar- og heil­brigðismál­um. Eft­ir sem áður þarf að tryggja að hag­kerfið geti staðið und­ir framúrsk­ar­andi þjón­ustu.“

Að þessu leyti er stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar skýr og af­drátt­ar­laus.

Þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa gripið til á und­an­förn­um mánuðum til að milda áhrif al­var­legs sam­drátt­ar hafa í flestu verið skyn­sam­ar og skilað ár­angri. Mark­viss­ar aðgerðir Seðlabank­ans hafa skipt fyr­ir­tæki og heim­ili miklu. Leiða má rök að því að rík­is­fjár­mál og pen­inga­mál hafi unnið bet­ur sam­an á síðustu mánuðum en nokkru sinni áður.

Áskor­an­ir kom­andi ára

Rík­is­sjóður hef­ur haft bol­magn til að tak­ast á við sam­drátt­inn. Hröð niður­greiðsla skulda á síðustu árum hef­ur verið for­senda þess að hægt hef­ur verið að beita rík­is­fjár­mál­um af skyn­semi. Ég hef haldið því fram að allt frá 2013 hafi bónd­inn í fjár­málaráðuneyt­inu verið dug­leg­ur að safna korni í hlöður til að mæta mögr­um árum. Hann hafi ekki fallið í þá freist­ingu að eyða búhnykk og hval­rek­um aðeins í stund­argam­an og póli­tísk­ar vin­sæld­ir.

Ekki verður hins veg­ar séð að halla­rekst­ur rík­is­ins hafi dregið úr kröf­um um auk­in út­gjöld. Kröf­urn­ar eru til staðar líkt og ríkið sé upp­spretta verðmæta og vel­meg­un­ar. Þeir eru fáir (eða að minnsta kosti ekki há­vær­ir) sem beina sjón­um að meðferð op­in­bers fjár – spyrja hvort sam­hengi sé á milli auk­inna út­gjalda og bættr­ar op­in­berr­ar þjón­ustu. Í vel­gengni síðustu ára hef­ur sinnu­leysi náð að festa ræt­ur og við leyft okk­ur þann munað að líta á hag­kvæma ráðstöf­un og meðferð sam­eig­in­legra fjár­muna sem auka­atriði. Og aukn­ing út­gjalda hef­ur orðið mæli­kv­arði á póli­tíska frammistöðu ein­stakra þing­manna og stjórn­mála­flokka.

Áskor­an­ir í rekstri hins op­in­bera á kom­andi mánuðum fel­ast ekki í aukn­um rík­is­út­gjöld­um held­ur í betri og hag­kvæm­ari nýt­ingu sam­eig­in­legra fjár­muna. Þetta á jafnt við um ríkið og sveit­ar­fé­lög­in. Hundruð millj­arða aukn­ing út­gjalda hins op­in­bera og rík­is­ins sér­stak­lega er ekki vís­bend­ing um að skort­ur sé á pen­ing­um í fjár­kist­urn­ar held­ur frem­ur merki um ómark­vissa nýt­ingu þeirra.

1,5 millj­arðar á hverj­um degi

Rekst­ur hins op­in­bera [rík­is og sveit­ar­fé­laga] kostaði nær 47 millj­örðum króna meira í hverj­um mánuði á síðasta ári en árið 2000, á föstu verðlagi. Þetta jafn­gild­ir rúm­lega 1,5 millj­örðum á hverj­um ein­asta degi, helgi­daga sem virka.

Í heild var rekstr­ar­kostnaður 2019 um 560 millj­örðum króna hærri og þar af var launa­kostnaður um 195 millj­örðum meiri en alda­móta­árið. Raun­hækk­un kostnaðar var liðlega 87% á þess­um tutt­ugu árum. Launa­kostnaður hækkaði um 86%. Rekstr­ar­kostnaður rík­is­ins hækkaði að raun­gildi um nær 387 millj­arða, þar af laun um 209 millj­arða.

Sé litið til fjölg­un­ar íbúa hækkaði rekstr­ar­kostnaður hins op­in­bera á hvern lands­mann um rúm­lega 46% á föstu verðlagi. Hækk­un­in á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu var tæp­ar 4,3 millj­ón­ir króna eða um 355 þúsund á mánuði. Alda­móta­árið nam rekstr­ar­kostnaður­inn um 9,2 millj­ón­um á hverja fjöl­skyldu en á síðasta ári var kostnaður­inn kom­inn upp í 13,4 millj­ón­ir króna eða liðlega 1,1 millj­ón á mánuði. Launa­kostnaður á hverja fjöl­skyldu hækkaði á þess­um tveim­ur ára­tug­um um nær 1,5 millj­ón­ir á föstu verðlagi.

Í raun skipt­ir engu hvaða töl­ur um út­gjöld hins op­in­bera eru skoðaðar. Sam­eig­in­leg­ur kostnaður lands­manna hef­ur hækkað gríðarlega á síðustu ára­tug­um. Aukn­ing út­gjalda get­ur verið nauðsyn­leg og skyn­sam­leg s.s. í upp­bygg­ingu heil­brigðis­kerf­is­ins, þar sem verið er að tryggja aðgengi sjúkra­tryggðra – okk­ar allra – að nauðsyn­legri þjón­ustu. En jafn­vel inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins eru fjár­mun­ir ekki nýtt­ir eins og best verður á kosið. Fram­lög til al­manna­trygg­inga hafa stór­auk­ist og hið sama á við um mennta­kerfið.

Hver og einn verður að svara því hvort þjón­usta hins op­in­bera – rík­is og sveit­ar­fé­laga – hafi batnað í sam­ræmi við auk­in út­gjöld. Velta því fyr­ir sér hvort við sem vel­ferðarþjóð höf­um efni á þessu öllu, eða hvort tæki­fær­in fel­ist ekki síst í bættri nýt­ingu fjár­muna og end­ur­skipu­lagn­ingu rík­is­rekstr­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2020.